Æskulýðsstarf haustið 2019

Barna og unglingastarf Selfosskirkju er ýmist hafið eða að hefjast á næstu dögum.

Fjölskyldusamverur á sunnudögum hófust 1. sept.

Æskulýðsfundir á þriðjudögum eru farnir af stað.

TTT 10 -12 ára hefst miðvikudaginn 4. sept. kl. 16:00

Foreldramorgnar hófust 28. ágúst.

6 – 9 ára hefst í lok september og verður auglýst nánar þegar nær dregur.

Kynning á æskulýðsstarfi Selfosskirkju verður í Frístundamessu Árborgar í íþróttahúsi Vallaskóla 6. og 7. september.

Fyrsta fjölskyldumessa vetrarins verður 15. september.

Nánari upplýsingar um æskulýðsstarfið gefur Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju aesko@selfosskirkja.is

Vorferð foreldramorgna

Í vikunni fór hópurinn sem mætt hefur á foreldramorgna í vetur í vel heppnaða vorferð í Þorlákshöfn. Nokkrar mæður og börn nutu þess að fara í sundlaugina í Þorlákshöfn og eftir sundið sameinaðist hópurinn í góðu yfirlæti á veitingastaðnum Hendur í Höfn.

Margir foreldrar hafa nýtt sér að mæta í vetur og höfum við fengið ákaflega góðar heimsóknir frá fjölmörgum fyrirlesurum og er það seint full þakkað hvað fólk í samfélaginu er tilbúið að gefa af sér fyrir þennan ágæta hóp.

Markmið foreldramorgna er að vera samkomustaður fyrir foreldra með ung börn og er það mikilvægt fyrir foreldra í fæðingarorlofi að hafa stað til að hittast á spjalla, fræðast, byggja sig upp og drekka kaffi.

Formleg dagskrá foreldramorgna er nú komin í sumarfrí en við hefjum starfið aftur að nýju um miðjan ágúst.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, æskulýðsfulltrúi

Noregsferð Unglingakórs Selfosskirkju

Dagana 1. – 5. maí síðastliðinn fóru 11 félagar úr Unglingakór Selfosskirkju ásamt fararstjórunum Kolbrúnu, Jóhönnu Ýr og  Eyrúnu kórstjóra til Noregs í söng og skemmtiferð.

Flogið var til Osló þar sem Gróa Hreinsdóttir kórstjóri og atvinnubílstjóri tók á móti hópnum. Förinni var heitið til Drammen þar sem fyrsta stopp var á Mc Donald’s en þar á eftir fengum við að njóta útsýnisins við Spiralen sem er fallegur útsýnisstaður þar í bæ.

Fimmtudaginn 2. maí hjóluðu kórfélagar um bæinn ásamt því að kíkja aðeins í búð. Seinni partinn var komið að undirbúningi fyrir tónleika í Tangenkirkju en þar hélt kórinn tónleika með kvennakórnum Gospellsystrum. Kórfélagar fluttu hluta af dagskrá tónleikanna “Raddir sunnlenskra ungmenna” sem voru í Selfosskirkju 7. apríl síðastliðinn. Vel var mætt á tónleikana og er óhætt að segja að tónleikargestir hafi verið ánægðir með sönginn og kynningarnar sem þau sáu alfarið um sjálf.

Föstudagsmorguninn 3. maí tókum við lestina til Osló. Þegar þangað var komið röltum við um miðbæinn. Skoðuðum m.a konungshöllina, miðbæinn, Óperuhúsið og höfnina. Heldur var þó kaldara en búist var við og var því menningarlega gönguferðin ögn styttri en ráð hafði verið gert fyrir og stefnan tekin á helstu verslunarmiðstöð miðbæjarins. Dagurinn endaði á hinum margrómaða veitingastað Hard Rock.

Kolbrún Guðmundsdóttir, Eyrún Jónasdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

 

Þá var komið að laugardeginum 4. maí sem beðið hafði verið með eftirvæntingu. Förinni var heitið í skemmtigarðinn Tusenfryd þar sem kórfélagar nutu dagsins í rússbönum, sleggjum og fallturnum svo eitthvað sé nefnt. Fararstjórar hins vegar sátu kappklæddir og drukku misvont kaffi. Um kvöldið var borðað á frábærum ítölskum veitingastað í miðbænum.

Sunnudaginn 5. maí hófst með gönguferð um Akerhús og Akerbryggju. Því næst var komið að messu í Nordbergkirkju þar sem kórfélagar sungu messu með Ískórnum undir stjórn Gróu Hreinsdóttur. Inga Harðardóttir nýráðinn prestur íslenska safnaðarins í Noregi leiddi fjölskylduguðsþjónustuna. Kórfélagar Ískórsins buðu í kaffi eftir messu og nutum við góðs af því.

Eftir messuna gafst tími til að skoða hinn þekkta styttugarð Vigeland Park þar sem kórfélagar notuðu tækifærið og tóku myndir. Því næst var förinni heitið út á flugvöll.

Okkur langar til að þakka Gróu Hreinsdóttur alveg sérstaklega fyrir alla hennar hjálp en framlag hennar til ferðarinnar var ómetanlegt. Það má með sanni segja að ferðin hafi tekist vel enda var hópurinn á allan hátt til fyrirmyndar. Kórfélagar hafa án efa safnað góðum minningum sem koma vonandi til ylja um ókomna tíð.

Eyrún Jónasdóttir, kórstjóri Unglingakórs Selfosskirku

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju

 

 

 

 

Kærleiksbirnir í Vatnaskógi!

Helgina 15. – 17. febrúar fóru 18 hressir unglingar ásamt leiðtogum úr æskulýðsfélagi Selfosskirkju Kærleiksbirnunum á Febrúarmót ÆSKR í Vatnaskógi. Á mótinu voru um 150 unglingar af stór Reykjavíkursvæðinu og nágrenni. Helgin var þéttskipuð fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Hópurinn gat ma. skemmt sér í hoppukastala, orrustu, spilum, borðtennis, skottaleik, karaoke og pottaferðum. Erna Kristín guðfræðinemi sá um fræðslu mótsins sem fjallaði um mikilvægi þess að hafa jákvæða líkamsímynd. Fastir liðir í dagskránnir voru einnig helgistundir, spurningakeppni, ball og atriðakeppni. Að þessu sinni sigraði Æskulýðsfélag Selfosskirkju atriðakeppnina með flutingi Viktors Kára Garðarssonar á laginu Rósinni. Helgin gekk glimrandi vel í alla staði og voru unglingarnir sjálfum sér og félaginu til sóma.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju

 

Æskulýðsstarf hafið á nýju ári

Æskulýðsfundir hófust aftur á nýju ári í vikunni og hófst fjörið með skemmtilegum “Capture the flag glow in the dark leik” Æskulýðsfundir eru á þriðjudögum kl. 19:30.

TTT hófst einnig í vikunni en TTT er fyrir 10 – 12 ára börn og er á miðvikudögum kl. 16:00 – 17:00.

Framundan er fjölbreytt dagskrá og mót í Vatnaskógi.

Hér eru nokkar myndir frá fundunum í vikunni.