Tilkynning um helgihald og safnaðarstaf í Selfossprestakalli vegna samkomubanns

Starf í Selfossprestkalli á meðan samkomubann er í gildi    
Ljóst er að mikil röskun verður á helgihaldi og safnaðarstarfi í Selfossprestakalli á meðan á samkomubanni stendur.

Allt helgihald í prestakallinu fellur niður fram yfir páska, allar messur, bæna- og kyrrðarstundir falla niður.

Allt formlegt starf fellur niður, allar kóræfingar, Kirkjuskóli, sunnudagaskóli, TTT, æskulýðsfundir, foreldrasamverur.  Fyrirhuguðum fyrirlestrum og samverum í tengslum við makamissi frestum við þar aðstæður verða orðnar öruggar. 

Selfosskirkja verður áfram opin á hefðbundum skrifstofutíma.  Við minnum á viðtalstíma presta frá 9-12 eða eftir samkomulagi.  Hægt er að hafa samband við presta kirkjunnar í síma eða með tölvupósti.  Guðbjörg Arnardóttir s. 865 4444 gudbjorg.arnardottir@kirkjan.is Gunnar Jóhannesson s. 8929115 gunnar.joh@kirkjan.is Axel Árnason Njarðvík s. 898 2935 axel.arnason@kirkjan.is

Við bendum ykkur á að finna Selfosskirkju á Facebook og Instragram þar sem við miðlum uppörvandi og huggunarríkum orðum, bænum og öðru helgihaldi.  Á öðrum síðum eins og sunnudagskóla Facebook síðunni verður eitthvað af efni sem hægt er að nýta sér til uppbygginar og dægrastyttingar.

Aðstæður getur áfram breyst hratt og uppfærum við aðgerðir okkar varðandi helgihald og safnaðarstarf í samræmi við það. 

Bænir okkar eru hjá hverjum og einum og íslensku samfélagi í heild. Það er gott að leggja allt sem framundan er, hverja stund og sérhvern dag, allar hugsanir, tilfinningar, áhyggjur og kvíða, í Guðs góðu hendur í þeirri trú og vissu að hann er engum nær en þeim sem til hans leitar og að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans.

Prestar og starfsfólk Selfossprestakalls.

TILKYNNING FRÁ SELFOSSPRESTAKALLI VEGNA SAMKOMUBANNS!

Nú liggur fyrir að samkomubann gildir næstu fjórar vikur frá og með mánudeginum 16. mars.

Í því ljósi hefur Biskup Íslands tilkynnt að messuhald og vorfermingar í kirkjum landsins falli niður á meðan samkomubannið er í gildi.

Þetta þýðir að messur í Selfossprestakalli munu falla niður á meðan samkomubannið er í gildi. Í þessu ljósi hefur einnig verið ákveðið að fella niður fyrirhugaða messu í Selfosskirkju sunnudaginn 15. mars kl. 11. Í stað þeirra fermingarmessa sem fyrirhugaðar voru í apríl en falla nú niður verður boðið upp á aðra fermingardaga í sumar og haust í samráði við foreldra fermingarbarna.

Þótt ekki komi á óvart að samkomubanni hafi verið komið á eru þessar aðstæður einstakar. Þó gott sé að vita til þess að allt er gert til þess að hefta útbreiðslu covid-19 veirunnar þá reyna þær aðstæður sem nú eru uppi á okkur öll hvert og eitt og samfélagið í heild með margvíslegum hætti. Dyrum Selfosskirkju verður ekki alfarið læst. Prestar kirkjunnar og annað starfsfólk verða áfram til staðar og áfram er hægt að leita til kirkjunnar eftir kyrrð og samtali, stuðningi og nánd.

Bænir okkar eru hjá hverjum og einum og íslensku samfélagi í heild. Það er gott að leggja allt sem framundan er, hverja stund og sérhvern dag, allar hugsanir, tilfinningar, áhyggjur og kvíða, í Guðs góðu hendur í þeirri trú og vissu að hann er engum nær en þeim sem til hans leitar og að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans.

Prestar og starfsfólk Selfossprestakall.

Nýr prestur í Selfossprestakalli

Sr. Gunnar Jóhannesson hefur verið kjörinn prestur í Selfossprestakalli.  
Við bjóðum hann velkomin til starfa til okkar og hlökkum til samstarfsins.
Gunnar hefur síðan 1. desember sinnt afleysingum í prestakallinu og kemur því strax til starfa við prestakallið.  
Nánari upplýsingar má finna á heimsíðunni kirkjan.is
https://kirkjan.is/frettir/frett/2020/03/13/Nyr-prestur-a-Selfoss/

Tilkynning

Okkur er öllum kunnugt um það ástand sem uppi er í dag vegna útbreiðslu Covid-19 veirunnar og að nú hefur verið lýst yfir neyðarástandi hér á landi.

Á meðan ekki er lýst yfir samkomubanni verður messað í öllum kirkjum Selfossprestakalls í samræmi við það sem búið var að áætla. Hins vegar hafa þau tilmæli borist frá biskupi að altarisgöngur verði ekki viðhafðar að svo stöddu og verður orðið við því. Kirkjugestir verða ekki heldur kvaddir með handabandi eftir athöfn eins og venjan er.  Er þau sem koma til kirkjunnar hvött til að nýta sér handspritt og viðhafa annað hreinlæti sem mælt er með samkvæmt tillögum landlæknis og almannavarna. 

Annað safnaðarstarf, s.s. fræðslusamkomur og barna- og æskulýsstarf, verður líka eins og auglýst hefur verið uns annað verður ákveðið.

Hvað fermingarnar, sem eru framundan, varðar þá á það sama við um þær, helgihald og annað starf kirkjunnar.  Eins og fram hefur einnig komið á fundi með foreldrum fermingarbarna þá á meðan ekki er samkomubann munu þær fara fram eins og áætlað er, en án handabands og altarisgöngu.  Komi upp samkomubann munum við gera aðrar ráðstafanir og verða foreldrar og fermingarbörn um leið upplýst um hvaða leiðir verða þá farnar.    

Við förum að fyrirmælum sóttvarnarlæknis og annarra sem leggja okkur línurnar í þessum efnum. Við biðjum jafnframt fyrir þeim öllum sem búa við mikið álag við að fyrirbyggja vá og vakta stöðuna almenningi til heilla.

Við minnum á að í samfélagi okkar eru aldraðir ástvinir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Nú er það okkar allra að vernda þessa samferðamenn okkar sem eru í sérstökum áhættuhópi með því að sýna ábyrgð.

„Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ (Matt 25.40)

Kær kveðja,

Prestar og starfsfólk Selfossprestakalls.

Fjölskyldumessa sunnudaginn 8. mars kl. 11:00

Fjölskyldumessa verður sunnudaginn 8. mars kl. 11:00.
Það verður mikill söngur og mun Barnakórinn syngja.
Umsjón með stundinni hafa Guðbjörg, Jóhanna Ýr, Edit og Kolbrún Helga.

Guðsþjónusta verður í Villingaholtskirkju sunnudaginn 8. mars kl. 13:30.
Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna mun Söngkór Hraungerðis- og Villingaholtskirkna syngja eingöngu sálma eftir konur.  Stjórnandi kórsins er Guðmundur Eiríksson og prestur verður Guðbjörg Arnardóttir