Selfosskirkjugarður

Eftir að þéttbýli tók að myndast á Selfossi áttu íbúar kirkjusókn að Laugardælum. Árið 1941 var fyrst farið að ræða kirkjubyggingu á Selfossi og var strax áhugi fyrir því þótt langt væri í land með að af framkvæmdum yrði. Ári síðar eða 1942 var keypt lóð fyrir kirkju og kirkjugarð úr landi “austurbæjar” á Selfossi. Árið 1943 var girtur af kirkjugarður þar sem nú er Smáratún og var hann vígður 21. ágúst 1944. Ekki var þar um stóran garð að ræða, varla fyrir meira en 20 – 30 grafir. Um þetta leyti var byggð ört vaxandi á Selfossi og var litið mjög til þessa svæðis fyrir íbúðahúsabyggð. Varð þá hætt við þennan kirkjugarð og nýr garður gerður þar sem nú er, norðan við kirkjuna umvafinn Ölfusá til austurs og norðurs, og var sá garður vígður 2. janúar 1945. Um vorið voru svo þær kistur er jarðsettar voru í Smáratúni færðar í nýja garðinn.

Fyrstu árin hafði kvenfélag Selfoss eftirlit með að hirða og slá kirkjugarðinn en fljótlega tók Magnús Jónasson meðhjálpari að sér þetta verk og með honum var Sigurður Grímsson a.m.k. öðru hvoru. Karl Eiríksson tók við starfi Magnúsar 1977 og hafði hirðingu garðsins á hendi til 1990 en þá tók Gunnþór Gíslason við þeim hluta starfsins í nokkur ár eða þar til Garðar Einarsson tók við starfi kirkjuvarðar Selfosskirkju árið 1997 og hefur haft yfirumsjón með garðinum fram á þennan dag.

Um 1988 var kirkjugarðurinn að verða fullnýttur, enda mörg frátekin leiði, og var þá hafist handa um stækkun hans. Þá gáfu systkinin á “austurbænum” á Selfossi land undir útfærslu við hlið gamla garðsins og var þá strax hafist handa við að lagfæra og girða nýja garðinn. Hann var síðan vígður 9. nóvember 1991. Í febrúar 1998 kom Sigurjón Erlingsson ritari sóknarnefndar fram með tillögu um að útbúa minningarreit í kirkjugarðinum “Til minningar um ástvini sem hvíla í fjarlægð”. Tillagan var samþykkt samhljóða. Til hönnunarverksins var fenginn landslagsarkitektinn Oddur Þ. Hermannsson og var minningarlundurinn vígður sumarið 2000, en hann er austast í eldri hluta kirkjugarðsins.

Tekið saman af Karli Eiríkssyni f.v. kirkjuverði á haustdögum 2002.