Fundargerðir 2011

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis 18. janúar. Hófst kl. 17:00

Form. Eysteinn Ó. Jónasson setti fund og bauð fundarmenn velkomna og þá sérstaklega starfsfólk sem boðið var á fundinn.

  1. Edit Molnár lagði fram og skýrði bréf hennar til sóknarnefndar sem varðar sparnaðarleiðir fyrir kirkjuna, sbr. 3. lið á 18. fundi sóknarnefndar 16. nóv. sl. . Hún þakkaði gott samstarf.
  2. Gunnþór Gíslason kirkjuvörður lagði fram leigusamning frá Ísafjarðarkirkju sem hann fékk eintak af varðandi samninga um leigu á húsnæði kirkjunnar til tónleikahalds. Samningur þessi gæti verið til viðmiðunar. Umræður voru um gjald fyrir tónleikahald. Tillaga um leigugjald v/tónleikahalds og annarra viðburða í kirkju, sem ekki tengist beinu kirkjuhaldi. „Sóknarnefnd samþykkir að leigugjald v/tónleikahalds og annarra viðburða í kirkju, sem ekki tengist beint kirkjuhaldi skuli vera 10% af innkomu tónleikahaldara, en þó að lágmarki kr. 30.000,- . Samþykkt samhljóða.
  3. Þá sagði Gunnþór frá því að kirkjan hefði verið lánuð fyrir kaþólskar messur, án endurgjalds. Messur þessar hafa verið einu sinni í mánuði. „Samþykkt að greitt verði fyrir ef til fellur sérstakur kostnaður“.
  4. Þá afhenti Gunnþór sem gjöf til kirkjunnar allar teikningar af framkvæmdum við nýjasta kirkjugarðinn sem og annað það sem Landform hefur unnið fyrir Selfosskirkju á liðnum árum. Gefandi er „Landform“. Eintak þetta verður varðveitt í kirkjunni.
  5. Eysteinn dreifði á fundinum eintaki af reglum kirkjunnar um „kosningar til sóknarnefnda ofl. árið 2011.“
  6. Þá las Eysteinn upp eftirfarandi bréf til sóknarnefndar Selfosssóknar dags. Reykjavík 11. janúar 2011.
    „Með vísan til 5. mgr. 13.gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997, er þess farið á leit að sóknarnefnd Selfosssóknar, Suðurprófastdæmi upplýsi kirkjuráð um það hvaða aðgerða sóknarnefndin hafi gripið til í tilefni af úrskurði úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar í máli nr. 1/2010;

Jóhanna Guðjónsdóttir og
Gunnþór Gíslason og Eysteinn Ó. Jónasson.

Ef um það er að ræða óskast gögn sóknarnefndar, sem kunna að liggja fyrir hvað varðar framkvæmd ofangreinds úrskurðar, td. fundargerðir eða bréf send kirkjuráði
Virðingarfyllst fh. kirkjuráðs
Guðmundur Þór Guðmundsson
frkv.stj. kirkjuráðs.“

Vegna bréfs þessa samþykkir sóknarnefnd eftirfarandi.
„Sóknarnefnd hefir engin gögn eða upplýsingar um mál þetta.“
Samþykkt samhljóða.

  1. Dreift var á fundinum 26. og 27. fundi byggingarnefndar kirkjunnar. Guðmundur Búason sagði frá gangi mála og lagði fram eftirfarandi tillögu. „Sóknarnefnd samþykkir að hlutdeild kirkjugarðs í utanhússframkvæmdum við Selfosskirkju á árinu 2010 skuli vera kr. 5.000.000,- Samþykkt.
  2. Guðmundur sagði frá bréfi sem hann hefur ritað, dags. 7. janúar 2011, vegna umsóknar Selfosskirkju í jöfnunarsjóð þjóðkirkjunnar sem hefir verið hafnað. Byggingarnefnd Selfosskirkju hefir verið boðið á fund í kirkjuhúsi í Rvk., vegna bréfs þessa,nk. fimmtudag.
  3. Þá lagði Guðmundur fram og skýrði blað sem hann hefir gert um tekjurýrnun Selfosskirkju 2008 – 2011 v/lækkunar sóknargjalda.
  4. Sr. Óskar H. Óskarsson sagði frá ýmsu í starfi Selfosskirkju. Fyrirhugað er að landsmót æskulýðsfélaga þjóðkirkjunnar á næsta hausti verði á Selfossi.
  5. Þá lagði sr. Óskar fram tillögu að stofnun tónlistar- og menningarsjóðs Selfosskirkju, sem útfærð er nánar í tillögunni. Tillagan var rædd og fékk jákvæðar undirtektir. Rætt var um að vel færi á því að tillagan kæmi fram og yrði rædd á aðalsafnaðarfundi. Sr. Óskar lýsti áhyggjum af verulega dvínandi messusókn á sl. hausti, miðað við sama tímabil í fyrra. Sr. Kristinn ræddi um messusóknina og voru nokkrar umræður í sóknarnefnd um þetta.
  6. Rætt um starfsmannamál kirkjunnar, en Eysteini, Guðmundi og Sigurjóni var falið að kanna þessi mál sbr. fundarg. 16/11 2010 lið 3 . Guðmundur Búason sagði frá því að rætt hefir verið við starfsfólk. Hann skýrði hugmyndir um breytingar. Samþ. að fela þeim þremur að gera tillögur í málinu.

Fundi slitið kl. 20:00 en auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar sátu eftirtaldir fundinn. :

Björn Ingi Gíslason, Guðmundur Búason, Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Kristinn Ág. Friðfinnsson og Óskar Hafsteinn Óskarsson.

 

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis 26. janúar. Hófst kl. 18:00.

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund.

  1. Umræður voru um ýmsa þætti í kirkjustarfinu.
  2. Eysteinn gerði grein fyrir viðtölum við starfsfólk kirkjunnar og breytingar á starfshlutfalli „sbr. 12 lið í síðustu fundargerð.

Fundi slitið kl. 19:04

Auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar sátu eftirtaldir fundinn: Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Björn Ingi Gíslason, Þórður Stefánsson, Sigríður Bergsteinsdóttir og varamaðurinn Sigurður Sigurjónsson sem þurfti að hverfa af fundi áður en undirritun fór fram.

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis 2. febrúar. Hófst kl. 18:00

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund.

  1. Rætt var um messusókn. Var sú umræða í framhaldi af fyrri umræðu um sama mál í 11. lið fundar 18. janúar s.l.
  2. Rætt var um skrifstofur prestanna í Selfosskirkju. Um miðjan september sl. voru prestunum tveimur afhentir lyklar að þeim tveimur skrifstofum sem þá voru tilbúnar. Fékk þar hvor prestur sinn lykil. Sóknarprestur hefir ekki nýtt þá skrifstofu sem honum var úthlutuð en hefir haft skrifstofuaðstöðu í skrúðhúsi kirkjunnar. Aðspurður segist hann vera að bíða eftir bréfi frá biskupi varðandi bréf það sem formaður sóknarnefndar lét fylgja afhendingu lykilsins.
  3. Rætt var um bréf þau sem sóknarprestur hefir sent að undanförnu til foreldra fermingabarna. Fermingarfræðsla og fermingar eru samstarfsverkefni prestanna tveggja.

Fundi slitið kl. 20:00

Auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar sátu eftirtaldir fundinn.: Óskar Hafstein Óskarsson, Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Guðmundur Búason, Kristinn Á. Friðfinnsson, Þórður Stefánsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir og Sigríður Bergsteinsdóttir

  1. fundur sóknarnefndar 2011 15. febrúar haldinn í rislofti safnaðarheimilis. Hófst kl. 17:00

Form. Eysteinn Ó. Jónasson setti fund og gaf sr. Óskari orðið.

  1. Sr. Óskar sagði frá fyrirhuguðu ferðalagi fermingarbarna að Skálholti í byrjun mars. Sr. Óskar óskaði eftir stuðningi við hluta af kostnaði eins og verið hefir undanfarin ár. Samþykkt samhljóða.
  2. Jörg Sondermann ræddi um starf sitt og þá fyrirætlun að starf hans verði frá vordögum 75% starf í stað 100% . Kvaðst hann vilja vinna sem næst í óbreyttu starfi þrátt fyrir þessa minnkun á starfshlutfalli.
  3. Eygló Gunnarsdóttir djákni óskaði eftir stuðningi vegna kostnaðar við rútuferð barna frá Reykjavík til Selfoss vegna ferðar þeirra í Vatnaskóg. Samþykkt samhljóða.
  4.  Þá flutti Eygló ósk frá Sáru Ómarsdóttur hvort hún fengi aðstöðu í kirkjunni, eða safnaðarheimili, fyrir fræðsluerindi um fjármál heimila. Hún sinnir þessu á vegum Rauða krossins. Tekið var jákvætt í þetta erindi.
  5. Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson kynnti bók sem Selfosskirkja fékk afhenta skv. lögum frá 1985. Í bókina skal rita heimildir um allt sem fram fer í starfinu eins og nánar er ákveðið í lögunum. Færslur í bók þessa hafa ekki farið fram síðan 2002. Lýsti sr. Kristinn áhuga á að fært yrði í bók þessa eins og til er ætlast.
  6. Eysteinn Ó. Jónasson kynnti bréf sem hann hefir ritað til sr. Kristins Ág. Friðfinnssyni sóknarpresti svohljóðandi:
    „Selfossi 15. febrúar 2011. Sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson. Bréf það sem undirritaður lét fylgja afhendingu lykla að skrifstofum þann 19. sept. 2010 var alls ekki tilhlýðilegt. Biðst undirritaður velvirðingar á því og biður þig vinsamlegast að líta svo á að innihald þess sé dregið til baka.
    Með vinsemd og virðingu
    Eysteinn Ó. Jónasson form. sóknarnefndar Selfosskirkju.
  7. Þá sagði Eysteinn frá því að hann ásamt Guðmundi Búasyni og Sigurjóni Erlingssyni hefðu átt fund með biskupi í síðustu viku.
  8. Rætt var um að stefna að aðalsafnaðarfundi 20. mars nk. að öllu óbreyttu.

Fundi slitið kl. 18:15. Fundargerð undirrituðu : Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Guðmundur Búason, Björn Ingi Gíslason, Kristinn Ág. Friðfinnsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.
Eins og sjá má á fundargerð voru Eygló Jóna Gunnarsdóttir djákni, Jörg Sonderman og Edit stjórnandi barna og unglingakóra með á fyrrihluta fundar, en fóru áður en undirritun fór fram.

 

  1. fundur sóknarnefndar 2011 í rislofti safnaðarheimilis 15. febr. 2011 hófst kl. 18:25 .

Varaformaður Björn Ingi Gíslason setti fund og kynnti fundarefni sem eru tilmæli þau sem úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar hefir beint til sóknarnefndar að hún áminni kirkjuvörð og formann sóknarnefndar. Sóknarnefnd ræddi síðan málið.
Björn bauð síðan kirkjuverði og formanni sóknarnefndar að koma inn á fundinn og gera grein fyrir sínum sjónarmiðum, sem þeir gerðu. Síðan yfirgáfu þeir fundinn.

Afgreiðsla sóknarnefndar fer hér á eftir:

Í bréfi frá Guðmundi Þór Guðmundssyni frkv.stj. kirkjuráðs fh. kirkjuráðs dags. 20. jan. 2011 er farið þess á leit við sóknarnefnd Selfosssóknar að hún upplýsi um framkvæmd sóknarnefndar vegna úrskurðar úrskurðanefndar þjóðkirkjunnar í máli nr. 1/2010, en þar er ákveðnum tilmælum beint til sóknarnefndar. Sóknarnefnd hefur rætt mál þetta og kynnt sér að auki „Starfsreglur um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar 730/1998 . Þá hefur sóknarnefnd kynnt sér „Siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks kirkjunnar“ og farið yfir ráðningarsamning kirkjuvarðar.

Ljóst er að úrskurðarnefnd hafnar með öllu kröfum málshefjanda Jóhönnu Guðjónsdóttur á hendur kirkjuvarðar og formanns sóknarnefndar. 

Þar sem kirkjuvörður og form. sóknarnefndar hafa með bréfi dags. 29. mars 2010 beðið málshefjanda afsökunar á því sem á milli ber vegna símtala 5. mars 2010 sér sóknarnefnd ekki ástæðu til sérstakra aðgerða af sinni hálfu í máli þessu.

Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 19:15. og undir þetta rita: María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Guðmundur Búason, Björn Ingi Gíslason, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

 

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis 22. febrúar. Hófst kl. 18:05
  2. Form. Eysteinn Ó. Jónasson kynnti gjöf sem afhent var í gær af Soroptimistafélaginu. Þetta er skjávarpi. Skjávarpinn tengist við tölvu. Eysteinn hefir flutt þakkir fyrir gjöfina og tekur sóknarnefnd undir þakkirnar.
  3. Eysteinn lagði fram og dreifði fundarboði frá prófasti um héraðsfund í Suðurprófastsdæmi sem fram fer á Kirkjubæjarklaustri 26. mars nk.
  4. Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson vakti máls á því að kjósa þyrfti fulltrúa frá Selfosssókn í fulltrúaráð hjálparstarfs kirkjunnar. Samþykkt að kjósa Eygló Gunnarsdóttur aðalmann og Sigríði Bergsteinsdóttur varamann.
  5. Sr. Kristinn ræddi um bókasafn það sem nú er geymt í skrúðhúsi kirkjunnar og er m.a. safn úr eigu sr. Sigurðar Pálssonar sem gefið var Selfosskirkju. Skrá þyrfti safnið og hugsanlega hafa hluta þess aðgengilegan t.d. í miðrými.
  6. Sr. Óskar H. Óskarsson vakti máls á bréfi frá biskupi dags. 11. febr. 2011 til sr. Kristins Ág. Friðfinnssonar. Ræddi sr. Óskar um þann hluta bréfsins sem að honum snýr. Guðmundur Búason, Sigríður Bergsteinsdóttir, Þórður Stefánsson, Björn Gíslason og Sigurjón Erlingsson ræddu málið við sr. Kristinn. Sr. Kristinn kvaðst myndi ræða þetta bréf við biskup.
    Að þessari umræðu lokinni yfirgáfu þeir sr. Kristinn og sr. Óskar fundinn.
  7. Guðmundur Búason kynnti bréf frá frkv.stj. kirkjuráðs, Guðmundi Þór Guðmundssyni þar sem Selfosskirkju er veitt 1 milljón kr. úr Jöfnunarsjóði sókna til nýbyggingar við kirkjuna.
  8. Gjaldkeri Guðmundur Búason lagði fram og kynnti reikninga kirkju og kirkjugarðs og hjálparsjóðs.
  9. Ákveðið að halda aðalsafnaðarfund sunnudaginn 13. mars eftir messu og súpu, eða fyrir miðjan marsmánuð eins og undanfarin 6 ár. (EÓJ).

Fundi slitið kl. 20:20 Undir fundargerð rituðu: Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Björn Ingi Gíslason, Þórarinn Stefánsson, Sigríður Bergsteinsdóttir auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar.

 

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis sunnud. 6. mars.
    Hófst kl. 18:05
  2. Form. Eysteinn Ó. Jónasson setti fund og ræddi fyrst um það sem áður hefir komið fram að Ninna Sif æskulýðsfulltrúi óskar eftir því að taka prestsvígslu og starfa áfram við Selfosskirkju skv. nánari samningum þar um, ásamt starfi í framhaldsskólum.
    Ninna Sif var mætt á fundinn og skýrði stöðu sína. Samþ. að rita kirkjuráði bréf um þetta í samráði við Ninnu Sif. Hún hvarf síðan af fundi.
  3. Umræður voru um bréf frá biskupi Íslands. Gerð var eftirfarandi samþykkt: „Sóknarnefnd hefir rætt bréf frá biskupi Íslands dagsett 1. febrúar 2011 til sr. Kristins Ág. Friðfinnssonar sóknarprests, sem sóknarnefnd var sent afrit af. Um bréfið vill sóknarnefnd taka fram eftirfarandi: Ljóst er að sóknarprestur hefir að undanförnu verið með margvíslegar umkvartanir við biskup vegna sr. Óskar H. Óskarssonar án vitundar sóknarnefndar og sr. Óskar. Rekur biskup þær kvartanir í bréfi sínu, en hafnar þeim síðan með öllu og hafnar því einnig að sr. Óskari verði veitt áminning eins og sr. Kristinn leggur til. Þá ítrekar biskup ákvörðun sína frá 11. maí 2010 að prestur skipuleggi starfsmannafundi í samráði við sóknarprest og sóknarnefnd.
    Sóknarnefnd leggur áherslu á að það góða fyrirkomulag, sem verið hefur bæði um gerð starfsáætlana og starfsmannafundi í Selfosskirkju haldist óbreytt með umsjón sr. Óskars. Ljóst er að ákvörðun biskups frá 11. maí 2010 stendur óhögguð.“                               Samþykkt samhljóða.
  4. Guðmundur Búason gjaldkeri lagði fram fjárhagsáætlun Selfosskirkju fyrir árið 2011 og skýrði tölur nánar. Einnig lagði hann fram fjárhagsáætlun Hjálparsjóðs Selfosskirkju fyrir 2011 og áætlun kirkjugarðs. Rætt var um ýmis atriði í þessum áætlunum og áætlanir samþykktar.
  5. Þá lagði Guðmundur fram áætlun frá Edith Molnár kórstjóra um kostnað á árinu 2011 fyrir barnakóra og unglingakór.
  6. Rætt um aðalsafnaðarfund sem ákveðinn er 13. mars nk.

Fundi slitið kl. 13:50 og undirrituðu eftirtaldir fundargerðina.: Sigríður Bergsteinsdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Sigurlín Guðný Ingvarsdóttir, María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Eysteinn Ó. Jónasson og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

 

  1. fundur 2011 :   Aðalsafnaðarfundur fyrir árið 2010 haldinn í safnaðarheimili selfosskirkju 13. mars 2011 að lokinni guðsþjónustu. Hófst kl. 1230 .
  2. Formaður sóknarnefndar Eysteinn Ó. Jónasson minntist í upphafi fundar sr. Sigurðar Sigurðarsonar vígslubiskups í Skálholti, áður sóknarprests á Selfossi sem lést á sl. ári. Hann bað fundarmenn að rísa úr sætum í virðingarskyni við hinn látna.
    Formaður gerði síðan tillögu um Þorlák Helgason sem fundarstjóra og Sigurjón Erlingsson sem fundarritara. Jóhanna Guðjónsdóttir gerði athugasemd og mótmælti Sigurjóni sem fundarritara. Að því undanteknu voru þessir starfsmenn fundarins samþykktir án atkvæðagreiðslu.
  3. Eysteinn formaður flutti síðan skýrslu um starfið á liðnu ári. Rakti hann þar m.a. almennan safnaðarfund sem haldinn var 24. janúar 2010 að ósk sóknarbarna, val á nýjum presti, breytingar í safnaðarheimili þar sem gerðar voru tvær skrifstofur í stað einnar og nýframkvæmdir – þ.e. 100m2 nýbyggingar milli kirkjuturns og safnaðarheimilis.
    Þvínæst flutti sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson sóknarprestur skýrslu um starfið á liðnu ári. Messur voru 67, almennar guðsþjónustur 196. Helgistundir 60 – þar meðtaldar skírnir. Útfarir 37, hjónavígslur
    Athafnir alls 325 á árinu með 16.383 viðkomum gesta. Til altaris gengu 1983. Messusókn var að meðaltali 129.
    Þá gat hann þess að Glúmur Gylfason fyrrv. organisti kirkjunnar hefði afhent kirkjunni fyrstu eintökin af nýprentaðri tíðasöngsbók sem Glúmur hefur unnið að.
    Sr. Óskar H. Óskarsson sagði frá kvöldmessum með listafólki, messum með ýmsum félagshópum, sálmakvöldum, fræðslukvöldum og málþingi um kirkju og skóla. Þá minntist hann á æskulýðsstarfið undir stjórn æskulýðsfulltrúa, Ninnu Sifjar.

Eygló Gunnarsdóttir djákni flutti skýrslu um starf sitt sem er að nokkru sameiginlegt með Ninnu Sif. Þar sagði Eygló frá m.a. sunnudagaskólanum, kirkjuskóla fyrir 6 – 9 ára börn í grunnskólunum. Foreldramorgnar einu sinni í viku. Hún hefur heimsótt Dagdvöl aldraðra vikulega. Þá sagði hún frá 12 spora námskeiðunum og tíðasöngnum á morgnana. Þá hefur Eygló séð um úthlutun úr „Sjóðnum góða“. 138 fjölskyldur fengu Bónuskort úr þessum sjóði. Hún hefir heimsótt elli- og hjúkrunarheimilin á svæðinu.

Jörg E. Sondermann organisti sagði frá kóra og tónlistarstarfi, barna- og unglingakórunum, septembertónleikum og orgeltónleikum.

Þá gaf Eysteinn formaður orðið laust um framkomnar skýrslur.

Jóhanna Guðjónsdóttir gerði athugasemd við að ekki hefði verið gerð nógu góð skil á orðum sr. Úlfars Guðmundssonar á síðast aðalsafnaðarfundi. Þá las hún upp eftirfarandi bókun sem hún óskaði að færð yrði í fundargerðabók. :   „Störf sóknarnefndar undanfarin misseri bera hvorki með sér sterka siðferðisvitund né réttlæti. Hún gerir það sem henni ber ekki að gera og hún skynjar ekki hvað skiptir máli. Siðferði snýr að venjum og reglum manna um hegðun og ákveðnar viðmiðanir. Siðareglum er ætlað að standa vörð um verðmæti og vísa okkur á veg dyggða. Oftast áttar fólk sig á siðferðisbrotum eftir að þau hafa verið framkvæmd. Emanuel Kant sagði: Breyttu ævinlega eftir þeirri lífsreglu sem þú getur viljað að verði almenn lög. Því má spyrja:

– viljum við að það verði almenn lög að sóknarnefnd skilyrði lykla að skrifstofum safnaðarins með þeim hætti að sóknarprestur sjái sér ekki fært að þiggja aðstöðuna?

– viljum við að það verði almenn lög að sóknarnefnd taki sér vald stjórnvalds sem hún hefur ekki, og brjóti jafnframt þau stjórnsýslulög sem stjórnvaldi ber að fylgja?

Nú spyrja trúlega einhverjir hvað hún á við? Jú, Ég er þolandi bæði trúnaðarbrots og siðferðisbrots tveggja starfsmanna kirkjunnar; Eysteins formanns og Gunnþórs kirkjuvarðar. Það var úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar sem dæmi málið og í kjölfarið beindi úrskurðarnefndin þeim tilmælum til sóknarnefndar að hún áminnti Eystein og Gunnþór vegna háttsemi þeirra og þeirra brota sem í henni fólust. Í stað þess að fara að tilmælum úrskurðarnefndar um áminningu hefur sóknarnefndin hagað sér eins og hún sjálf sé stjórnvald. Hér er sóknarnefndin komin langt af veg. Henni ber að hlýða æðra stjórnvaldi. Hún hefur ekki val eða vald. Hún getur ekki breytt niðurstöðu þess dómsvalds sem úrskurðarnefndin er. Þegar sóknarnefnd gerði sig að stjórnvaldi þann 15. febrúar sl. gaf hún engan gaum að þeim reglum sem stjórnvaldi ber að fylgja. Hún brýtur jafnræðisregluna með því að bjóða einungis gerendum máls að veita upplýsingar en ekki þolenda. Nefndin braut líka rannsóknarregluna með því að halda því fram að öllum kröfum þolenda hafi verið hafnað. Það er ekki rétt, bæði Eysteinn og Gunnþór voru fundnir sekir um trúnaðarbrot og siðferðisbrot. Það er kjarni þessa máls. 

Úrskurðarnefnd er stjórnvald sem hefur sambærilega stöðu og héraðsdómur. Tökum dæmi. Jón Jónsson er rændur um miðjan dag. Hann kærir til lögreglu og bæði hann og meintur ræningi gefa vitnisburð. Seinna dæmir héraðsdómur ræningjann til fangelsisvistar. Þá gefur fangelsisstjóri ræningjanum kost á að segja sína sögu. Jón fær hvorki að segja sína sögu né að heyra hvað ræninginn hafði fram að færa. Í framhaldi náðar fangelsisstjóri ræningjann og hunsar þar með dóm héraðsdóms. Miðað við málsmeðferð sóknarnefndar hinn 15. febrúar þá væri þessi afgreiðsla fangelsisstjóra rétta leiðin. Er einhver hér inni sem heldur því fram að fangelsisstjóri hafi vald til þess að breyta niðurstöðu héraðsdóms? Er einhver sem telur að fangelsisstjóri sé stjórnvald?

Það þarf ásetning til þess að vera siðferðisvera. Maður sem svíkur eigin vitund veit að hann er ekki traustsins verður. Hér í þessari kirkju eigum við að geta leitað og fundið andleg gæði. Þau eiga rætur í huganum, þau eru ótakmörkuð, eilíf og um þau ríkir engin samkeppni. Þjóðkirkjan er frjálst og sjálfstætt trúfélag með skyldur við alla þjóðina. Þetta er kirkjan mín. Hér eiga öll sóknarbörn að upplifa skjól í meðbyr sem mótlæti. Ég þarf ekki að ávinna mér rétt til þess að tjá áhyggjur mínar yfir störfum sóknarnefndar.

En hvað ræður för? Ég hef ígrundað þessa spurningu í hart nær 17 mánuði. Ég er enn þeirrar skoðunar að störf sóknarnefndar snúist um sterkt samstarf um rangar áherslur. Gagnrýnin umræða er hvorki sýnileg né áhersla á hvað sé sókninni og sóknarbörnum fyrir bestu. Nefndin hefur lengi borið merki valdníðslu sem á ekkert skylt við kristið þjónustuhlutverk kirkjunnar. Nefndin hefur tekið sér vald sem hún hefur ekki. Það er ekki siðferðislega verjandi að hún sitji áfram. Samhljóða samþykktir gegn lögum og almennum siðferðisviðmiðunum krefjast þess að öll sóknarnefndin víkji sæti.“

Sigurjón Erlingsson gerði athugasemdir við málflutning Jóhönnu og benti á að aðeins hefði verið um tilmæli að ræða til sóknarnefndar. Hann vísaði til afgreiðslu biskups frá 21. apríl sl. Þar sem segir að Jóhanna „hafi fengið afsökunarbeiðni frá gagnaðilum, (þ.e. Gunnþóri og Eysteini) því teldist málinu lokið og að biskup teldi ekki ástæðu til frekari afskipta hans af málinu.“ Þá benti Sigurjón á afgreiðslu kirkjuráðs frá 2. mars sl. þar sem segir: „Þar sem ákvæði 12. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar kveður einungis á um að úrskurðarnefnd geti „lagt til“ að veita áminningu verður ekki séð að sóknarnefnd sé beinlínis skylt að fara að tilmælum úrskurðarnefndar í framangreindum úrskurðarorðum. Kirkjuráð telur þar af leiðandi ekki efni til frekari aðgerða.“

Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson ræddi um ályktun sóknarnefndar um bréf biskups til sr. Kristins (dags. 1. febr. 2011) og átaldi ályktun sóknarnefndar um málið.

Jóhanna Guðjónsdóttir ræddi um úrskurðinn og las upp afsökunarbeiðni þeirra Gunnþórs og Eysteins. Taldi hún hana ekki fullnægjandi.

Fundarstjóri úrskurðaði að frekari umræður um þetta mál færi fram undir liðnum „önnur mál“.

  1. Guðmundur Búason gjaldkeri flutti reikninga.
    Rekstrarreikningur Selfosskirkju      Tekjur………… 40.150.808,-      Tekjuafgangur……..                                  110.912,-
    Efnahagsreikningur         ´´                 Eignir alls…. 325.932.742,-      Í sjóði…………………..                               7.323.202,-
    Rekstrarreikningur Kirkjugarðs        Tekjur…………. 7.511.8103-     Gjöld 14.283.637,-              Mism:      5.787.495,-
    Efnahagsreikningur         ´´                 Í sjóði ………… 14.689.920,-      Skuldir og eigið fé:                           15.025.920,-

Hjálparsjóður Selfosskirkju:              Tekjur……………….. 72.504,-      Gjöld: 746.248,-         Í sjóði               3.435.947,-

  1. Eysteinn Ó. Jónasson gerði grein fyrir fundum héraðsnefndar. Ekkert var rætt um 4. lið fundarins hvað varðar „Ákvörðun um meirihátta framkvæmdir og framtíðarskuldbindingar“ þar sem engar ákvarðanir lágu fyrir þar um.

Guðmundur Búason sagði frá framkvæmdum liðins árs og gerði grein fyrir kostnaðartölum.

Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson ræddi um bókasafn sr. Sigurðar Pálssonar sem börn hans gáfu kirkjunni og að hann væri að athuga með skráningu þess. Þá minntist hann á símamál kirkjunnar sem ágreiningur var um á sl. vori.

Fundarstjóri bar upp reikningana til samþykktar og voru þeir samþykktir samhljóða.

  1. Kosning hluta sóknarnefndarmanna og varamanna til 4ra ára. Úr stjórn eiga að ganga nú: Friðsemd Eiríksdóttir, Björn Gíslason, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Guðmundur Búason og Sigríður Bergsteinsdóttir. Þau gáfu kost á sér áfram að undanskilinni Friðsemd Eiríksdóttur.
    Fundarstjóri lýsti eftir tillögum úr sal. Bára Gísladóttir lýsti yfir framboði sínu. Þórir Haraldsson gerði tillögu um Grím Hergeirsson og Guðrúnu Tryggvadóttur.

Leynileg kosning fór nú fram um 5 aðalmenn. Atkvæði féllu þannig :

1……… Guðmundur Búason ……..       56 atkvæði.

2……… Grímur Hergeirsson……….       46 atkvæði.

  1. – 4… Bára Gísladóttir …………….       45 atkvæði.
  2. – 4. . Björn Gíslason ……………..       45 atkvæði.

5……… Sigríður Bergsteinsdóttir…       42 atkvæði.

Erla Rúna Kristjánsdóttir hlaut 32 atkv. og Guðrún Tryggvadóttir 26 atkvæði.
Fundarstjóri hafði áður en kosning hófst gert tillögu um að þeir tveir sem ekki næðu kosningu sem aðalmenn yrðu í hópi varamanna.

Kosning varamanna.

Tveir af 9 varamönnum sem kosnir voru til 4. ára 26. mars 2007 hverfa úr hópnum. : Guðmundur Jósepsson gefur ekki kost á sér aftur og Sigríður Bergsteinsdóttir er nú orðin aðalmaður. Sjálfkjörið er því á varamannabekk skv. framansögðu. Varamenn eru því þessir:

Erla Rúna Kristjánsdóttir                           Þóra Grétarsdóttir

Guðrún Tryggvadóttir                                Gunnþór Gíslason

Guðný Ingvarsdóttir                                   Páll Ingimarsson

Sigurður Sigurjónsson                                Sigurður Jónsson

Hjörtur Þórarinsson

Eftir er að draga um röð varamanna eins og áður hefur verið gert eftir slíkar kosningar.

  1. Kjörnir voru skoðunarmenn reikninga þau Kristín Pétursdóttir og Guðmundur Theódórsson.
  2.      Kosning í aðrar nefndir og ráð voru ekki á dagskrá.

8.

Önnur mál.

Jóhanna Guðjónsdóttir lagði fram eftirfarandi vantrauststillögu:

Aðalsafnaðarfundur Selfosssóknar 13. mars 2011 lýsir yfir vantrausti á sóknarnefnd og krefst þess að öll sóknarnefndin víki sæti.“
Óskað er eftir leynilegri atkvæðagreiðslu.

Jóhanna Guðjónsdóttir 120868 – 5519

Gengið var til atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu. Þórir Haraldsson og Grímur Hergeirsson stjórnuðu kosningu. Atkvæði féllu þannig.: Nei sögðu 59 já 20, tveir seðlar voru auðir. Vantrauststillagan var því felld.

Þórir Haraldsson þakkaði starfsfólki kirkjunnar fyrir góð störf. Hann gagnrýndi að dætrum hans var meinað af kirkjuverði að sækja um sumarvinnu sem þær hafa sinnt.
Hann harmaði þær deilur sem uppi hafa verið í kirkjunni og óskaði eftir samstöðu.

Sr. Úlfar Guðmundsson tók undir orð Þóris um samstöðu og hvatti til fyrirgefningar. „Við búum við úrskurð biskups frá því í maí s.l. þar sem starfssvið sóknarprests er þrengt í Selfosskirkju og við verðum að búa við það.“

Björn Gíslason þakkaði traust við endurkosningu í sóknarnefnd og lýsti ánægju með frábært kirkjustarf í Selfosskirkju. Hann hvatti til samstöðu og sátta.

Sr. Óskar H. Óskarsson óskaði fólki til hamingju með kosningu í sóknarnefnd og þakkaði gott samstarf við alla í kirkjustarfinu.

Ingimar Pálsson óskaði nýkjörnu fólki til hamingju með kosningu í sóknarnefnd og sagði að sóknarnefnd ætti að koma fram á kærleiksríkan hátt. Þá taldi hann að orð sín kæmust ekki til skila í fundargerðum.

Sr. Óskar H. Óskarsson var síðastur ræðumanna og lagði áherslu á að allir þyrftu að vera samstíga um starfið.

Fundarstjóri sleit síðan fundi um kl. 1520.

Fundarritari: Sigurjón Erlingsson.

 

 

 

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis þann 22. mars.
    Hófst kl. 18:02

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund.

  1. Eysteinn kynnti bréf frá kirkjuráði dags. 17. janúar 2011 um kosningar til sóknarnefnda ofl. árið 2011.

         Verkaskipting sóknarnefndar ákveðin:                         Tillaga um formann :           Eystein Ó. Jónasson              samþykkt samhljóða
Tillaga um gjaldkera:            Guðmund Búason                 samþykkt samhljóða
Tillaga um ritara :                  Sigurjón Erlingsson                samþykkt samhljóða
varaformaður :                       Björn Ingi Gíslason                samþykkt samhljóða
varagjaldkeri :                        Sigríður Bergsteinsdóttir     samþykkt samhljóða
vararitara :                               Bára Gísladóttir                       samþykkt samhljóða.

Þvínæst var dregið um röð varamanna.

  1. Erla Rúna Kristjánsdóttir…….. .. Engjavegi 26
    2. Páll Ingimarsson………………….. Lágengi 3
    3. Þóra Grétarsdóttir………………. Fossvegi 2
    4. Hjörtur Þórarinsson…………….. Lóurima 15
    5. Guðrún Tryggvadóttir………….. Grenigrund 42
    6. Guðný Ingvarsdóttir………….. .. Sílatjörn 16
    7. Gunnþór Gíslason……………….. Erlurima 4
    8. Sigurður Jónsson………………… Laxabakka 3
    9. Sigurður Sigurjónsson………….. Skólavöllum 9

Þá kom tillaga um Sigríði Bergsteinsdóttur sem safnaðarfulltrúa.  Samþykkt samhljóða.
Grím Hergeirsson sem varamann hennar.                                                 Samþykkt samhljóða.

  1. Formaður kynnti fundarboð á héraðsfund Suðurprófastsdæmis sem verður á Hótel Klaustri Kirkjubæjarklaustri 26. mars nk. Kom fram að auk formanns myndu Sigríður Bergsteinsdóttir og María Kjartansdóttir mæta úr sóknarnefnd. Sr. Óskar H. Óskarsson ætlaði einnig að mæta á fundinn.
  2. Rætt var um útgáfu Fréttabréfs Selfosskirkju. Voru menn sammála um að hún mætti ekki falla niður. Leitað yrði leiða til að lækka kostnaðinn.
  3. Sr. Óskar H. Óskarsson ræddi um færslur kirkjubóka og óskaði eftir aðgengi að þeim þótt sóknarprestur sé ekki í húsinu, en þær eru nú geymdar í læstum skáp í læstri skrifstofu sóknarprests. Fram kom sú hugmynd að kirkjubækurnar verði geymdar í læstum skáp í skjalageymslunni sem er framan við skrifstofur presta. Lýstu prestarnir og sóknarnefnd samþykki sínu við þá tilhögun.
    Þá lagði sr. Óskar fram eftirfarandi bókun. :

„Þar sem sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson vék af fundi áður en kom að liðnum önnur mál á aðalsafnaðafundi Selfosssóknar 13. mars sl. gafst mér ekki færi á að veita andsvör við orðum hans um mig vegna flutnings á síma Selfosskirkju sl. vor og vil ég því koma eftirfarandi á framfæri.

„Athugasemd frá sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni vegna orða sóknarprests um hið svokallaða „símamál“ á aðalsafnaðarfundi 13. mars 2011:

Kjarni máls er að sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson sóknarprestur aftengdi síma prestsins í Selfosskirkju og tengdi sínu eigin farsímanúmeri án samráðs við sóknarnefnd og prest sem þó töldust (og teljast) umráðandi og handhafi númersins. Ef neyðarlína, eða hver sem er annar, vildi ná tali af sóknarpresti þá var hægt að nálgast númer hans í símaskránni með því að fletta upp á „Selfosskirkja“ eða undir hans eigin nafni. Að auki var bent á farsímanúmer hans í talhólfi mínu og svo eru prestar í Árnessýslu þess utan með neyðarsíma sem hægt er að ná í allan sólarhringinn og neyðarlínan, sjúkrahús og lögregla hafa aðgang að. Fráleitt er að halda því fram að símanúmer prestsins í Selfosskirkju hafi eitthvað að gera með aðgengi neyðarlínunnar eða annarra að sóknarpresti og síma hans, eins og látið var í veðri vaka í ræðu sóknarprests á aðalsafnaðarfundi 13. mars sl.“ (Undirritað af ÓHÓ).

Umræður voru um þetta mál og var niðurstaða sú að athuga símamálin og skipulag þeirra nánar.

  1. Rætt var um að heiðra Eygló Gunnarsdóttur við starfslok hennar nú í vor. Stefnt verði að 22. maí.

Fundi slitið kl. 19:30, en þessir sátu fundinn: Eysteinn Ó. Jónasson, Kristinn Ágúst Friðfinnsson, María Kjartansdóttir, Óskar Hafsteinn Óskarsson, Bára Kr. Gísladóttir, Guðmundur Búason, Grímur Hergeirsson, Sigríður Bergsteinsdóttir, Hjörtur Þórarinsson auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar.

Sóknarnefndarfundur 19. apríl 2011
(haldinn á baðstofulofti).

  1. Umræða um hve hljóðbært er á skrifstofu prestanna. Þórður kom með hugmyndir. Þórður og Guðmundur boða verkfræðinga Verkfræðistofu á fund og athuga hvað hægt er að gera.
  2. Jörg ræðir um septembertónleika 2011. Fór yfir kostnað við tónleika 2010 og áætlaðan kostnað núna í september 2011. Umræða um hvort eigi að halda þessum tónleikum áfram. Ákveðið að halda tónleikum áfram. Kostnaður við tónleikana 2010 var um 300.000,- kr. Jörg dró kostnaðaráætlun niður í 126.000,- kr. í ár.
  3. Eygló ræðir um hver muni taka við „sjóðnum góða“ af henni þegar hún lætur af störfum, hjálparstarf kirkjunnar, umsóknir í það á árinu voru 124. Umræða um fyrirkomulag og skipulag á því. Ákveðið að prestar ræði við okkar mann í stjórninni, sr. Svein Valgeirsson. Umræða um að færa „Sjóðinn góða“ yfir á Rauðakrossinn.
  4. Ninna Sif segir frá Æskulýðslandsmóti 28. – 30. október 2011. Búast má við 700 – 800 unglingum.
  5. Gunnþór biður um sláttuvél fyrir kirkjugarðinn. Einnig hljóðnema (þráðlausa) fyrir prestana. Um 175.000,- kr. fyrir 2 hljóðnema og sendi. Umræður urðu um hvort sé hagstæðara að festa kaup á sláttuvél og mann á vélina eða bjóða út starfið. Ákveðið að kanna með útboð á slætti fyrir árið 2012. Kaup á sláttuvél samþykkt.
  6. Óskað er eftir að Nanna Sif verði vígð sem prestur. Samþykkt.
  7. Páska kaffi eftir messu á páskadagsmorgun. Bára verslar, mæting á laugard. 1600 og 700 á páskadag.
  8. Jörg ræðir um að fá nýtt píanó á æfingarloftið. Eysteinn athugar málið við Hjört Þórarinsson (varðandi styrk vegna aðventutónleika).
  9. Björn ræðir um að starfsmenn kirkjunnar hafi sig mikið í frammi á aðalsafnaðarfundi 2011. Umræða um að starfsfólk standi ekki í framíköllum og orðaskaki við fólk sem er í ræðustól á aðalfundum.
  10. Almennar umræður um málefni kirkjunnar.

Fundarritari Bára Kr. Gísladóttir

Fundinn sátu:   Björn Ingi Gíslason, Eygló J. Gunnarsdóttir, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Grímur Hergeirsson, Gunnþór Gíslason, Þórður Stefánsson, sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson, María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Eysteinn Ó. Jónasson, sr. Óskar H. Óskarsson og ritarinn Bára Kristbjörg Gísladóttir.

  1. fundur sóknarnefndar í rislofti safnaðarheimilis 17. maí 2011. Hófst kl. 17:00

Varaformaður Björn Gíslason setti fund í fjarveru formanns.

  1. Bára Gísladóttir ritari síðustu fundargerðar las hana upp og var hún síðan undirrituð.
  2. Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson sagði frá ýmsum þáttum í kirkjustarfinu að undanförnu.
    Eygló Gunnarsdóttir sagði frá því að hún hefir nú fært „sjóðinn góða“ til Rauðakrossins. Fram kom að prestarnir sr. Kristinn og sr. Óskar hafa ákveðið að hafa fasta viðtalstíma til skiptis á ákveðnum tímum til að taka við umsóknum.
    Þá sagði hún frá því að þau Elísabet og Björn Júlíusson hafa fært „Geisla“ tvo kertastjaka að gjöf.
    Gunnþór kirkjuvörður sagði frá ýmsu sem varðar viðhald kirkjunnar.
  3. Rætt bréf frá kirkjukór v/ferðastyrks til organista.
    „Sóknarnefnd telur þetta málefni kórsins.“ Samþykkt samhljóða.
  4. Rætt um samkomu 22. maí nk. – kveðjusamsæti til heiðurs Eygló Gunnarsdóttur djákna sem nú hefir látið af störfum.
  5. Fram kom að Sigríður Bergsteinsdóttir hefir óskað eftir lausn frá störfum í sóknarnefnd. Færist þá 1. varamaður, Erla Rúna Kristjánsdóttir upp.

Önnur mál:

  1. Guðmundur Búason sagði frá því að kominn er upp læstur skápur í skjalageymslunni fyrir kirkjubækurnar. Þá ræddi hann um athuganir á hljóðburði milli skrifstofa. Guðmundi falið að halda málinu áfram og verði þetta lagað.
    Þá sagði Guðmundur frá fjármálum kirkjunnar, en lækkun er um 7 ½ milljón frá árinu 2009 og eru lækkanir yfir 20%. Þá falla greiðslur frá prófastdæminu niður frá 1. júlí nk. þ.e. hluti af launum æskulýðsfulltrúa.
  2. Umræður voru um frétt í síðustu Dagskrá um prestsvígslu Ninnu Sifjar sem er í 50% starfi sem æskulýðsfulltrúi hjá Selfosskirkju. Fram kom að framsetning fréttarinnar er með þeim hætti að valdið hefir misskilningi. Eysteinn formaður mun skýra þetta mál í næstu Dagskrá, en starf Ninnu Sifjar er óbreytt áfram sem æskulýðsfulltrúa.
  3. Sr. Óskar H. Óskarsson lagði fram tillögu að skipulagsskrá fyrir „Tónlistar- og menningarsjóð Selfosskirkju“. Samþykkt samhljóða. (Skipulagsskráin hér neðst).
  4. Samþykkt að greiða kr. 70.000,- til tónlistarfólks við kvöldmessur í vetur.

Fundi slitið kl. 19:10

Eftirtaldir rituðu undir fundargerð auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar: Óskar Hafsteinn Óskarsson, María Kjartansdóttir, Bára Kristbjörg Gísladóttir, Grímur Hergeirsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Björn Ingi Gíslason, Þórður Stefánsson og Guðmundur Búason. (Sjá framhald)

Skipulagsskrá Tónlistar og menningarsjóðs Selfosskirkju sem samþykkt var á fundinum var eftirfarandi.

Tónlistar- og menningarsjóður Selfosskirkju

Sjóðnum er ætlað að styðja við tónlistar- og menningarstarf í Selfosskirkju. Er þá m.a. átt við þátttöku tónlistarfólks í kvöldmessum, á tónleikum og í öðrum viðburðum á vettvangi kirkjunnar. Þá er sjóðnum einnig ætlað að stuðla að og styðja menningarstarfsemi innan veggja kirkjunnar, t.d. með því að efna til sýninga í samstarfi við þar til bæra aðila á sviði bókmennta, myndlistar og ljósmyndunar.

Sóknarnefnd Selfosskirkju skipar þriggja manna sjóðsstjórn til að halda utan um Tónlistar og menningarsjóðinn, marka honum stefnu og ákvarðanir um styrki og úthlutanir úr sjóðnum. Sjóðstjórn skal valin til 1. árs í senn. Gjaldkeri sóknarnefndar úthlutar úr sjóðnum í samræmi við ákvarðanir sjóðsstjórnar.

Sóknarnefnd Selfosskirkju leggur Tónlistar- og menningarsjóðnum stofnfjárframlag. Þá skal stefnt að því að afla sjóðnum tekna með fjarframlögum frá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum.

Samþykkt aðalsafnaðarfundar Selfosssóknar þarf til að leggja sjóðinn niður og skulu þá fjármunir sjóðsins nýttir til safnaðarstarfs í Selfosskirkju.

 

  1. fundur sóknarnefndar á árinu haldinn í rislofti safnaðarheimilis
    16. ágúst 2011. Hófst kl. 17oo.

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund og kynnti dagskrá.

  1. Rætt var um starf Ninnu Sifjar. sr. Óskar og Ninna Sif skýrðu hvað þau töldu æskilegast í því efni. Umræður voru um starfið innan sóknarnefndar. Samþykkt var að leggja til að Ninna Sif verði ráðin áfram sem æskulýðsfulltrúi og verði í 75% starfi frá 1. sept. nk. Gildir það til 1 árs. Framkvæmdin yrði þannig að hún yrði í 100% starfi í 9 mánuði en í fríi í júní, júlí og ágúst. „Samþykkt samhljóða“.
    Ninna Sif mun væntanlega taka prestsvígslu um mánaðarmót sept – okt. nk.

 

  1. Rætt var um barnakórana. „Samþykkt að stefna að gjaldtöku í starfi barnakóranna og er þeim Guðmundi Búasyni og Grími Hergeirssyni falið að ræða það við kórstjórann Edith Molnár.“

 

Fundi slitið kl. 1920 og sátu eftirtaldir fundinn.: Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Björn Gíslason, Bára Kr. Gísladóttir, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Þórður Stefánsson, Grímur Hergeirsson og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis 20. sept. 2011 . Hófst kl. 17:00

Formaður Eysteinn setti fund.

  1. Rætt var um hljóðeinangrun við skrifstofur prestanna. Til að bæta úr því hefir nú verið sett hljóðeingrandi efni á millivegg milli skrifstofa. Ætlunin er að setja síðan þröskulda undir hurðir.
  2. Eysteinn ræddi um þær fregnir að sóknarprestur hefði vísað málum sínum til umboðsmanns alþingis þ.e. ákvörðun biskups frá 11. maí 2010. Sr. Kristinn upplýsti að eftir að umboðsmaður alþingis hefir vísað málinu frá sér hefir sr. Kristinn leitað til úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar sem þegar hefir vísað málinu frá sér. Sr. Kristinn upplýsti að hann hefir nú vísað málinu til áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar. Þá upplýsti hann að hann hefði snúið sér til nýkjörins vígslubiskups í Skálholti.
    Eftir umræður milli sóknarprests og sóknarnefndar varð sr. Kristinn að yfirgefa fundinn.
  3. Björn Gíslason ræddi um útgáfu fréttabréfs kirkjunnar og gerði grein fyrir kostnaði við útgáfuna. Rætt var um að stefna að útgáfu fréttabréfsins í nóvember. Ritnefndinni falið að vinna að málinu.
  4. Sr. Óskar sagði frá starfinu í kirkjunni. Nú liggur fyrir starfsáætlun fyrir allt næsta ár.
  5. Hjörtur Þórarinsson upplýsti að ákveðnir væru tvennir kórtónleikar í kirkjunni þann 3. des. n.k. – aðventutónleikar.

Fundi slitið kl. 19:00

Eftirtaldir undirrituðu fundargerðina: Óskar Hafsteinn Óskarsson, Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Hjörtur Þórarinsson, Björn Ingi Gíslason, Bára Kr. Gísladóttir, Þórður Stefánsson, Grímur Hergeirsson, Páll B. Ingimarsson og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

  1. fundur sóknarnefndar 2011 í eldhúsi safnaðarheimilis 6. október. Hófst kl. 1800 .
  2. Formaður Eysteinn setti fund. Fundarefni er að ræða stöðu mála varðandi kærumál sóknarprests sem rædd voru á síðasta fundi.
    Eftir umræður var eftirfarandi ályktun samþ. samhljóða.

„Með því að vísa málum sínum varðandi stöðu sína við Selfosskirkju til umboðsmanns alþingis, úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar og áfrýjunarnefndar þjóðkirkjunnar er sóknarprestur að reyna að fá hnekkt ákvörðun biskups frá 11. maí 2010 um skiptingu starfa í Selfosskirkju sem skýrt er mörkuð í ákvörðun biskups. Með þessari tilraun sóknarprests, sem gerð er án vitundar sóknarnefndar, sem er beinn aðili að starfsmannafundum í kirkjunni, er sóknarpresturinn að leggjast gegn þeim aðilum sem hann á að vinna með, þ.e. biskupi, prestinum samstarfsmanni sínum í Selfosskirkju, sóknarnefndinni og þeim fjölda sóknarfólks á Selfossi sem mótmælti til biskups með undirskriftum þeirri ákvörðun kirkjuþings að skipa söfnuðinum sóknarprest án þess að söfnuðurinn hefði neitt um það að segja.

Í ákvörðun biskups 11. maí 2010 eru m.a. þessi meginatriði:

  1. Sóknarprestur hefir ekki „stjórnunarvald eða boðvald yfir presti“.
  2. Prestur hefir „umsjón með daglegu kirkjustarfi í Selfosskirkju“.
  3. „Prestur undirbúi starfsmannafundi í samráði við sóknarprest og sóknarnefnd“.

 

Sóknarnefnd telur að biskup hafi skýra og vafalausa heimild til ákvörðunar sinnar og vísar sóknarnefnd í „Starfsreglur um presta“ nr. 735 1998 þar sem segir svo í 43. grein um skiptingu starfa þar sem prestar eru fleiri en einn í prestakalli – að taka skuli mið af eftirfarandi: „Hvernig starf er auglýst og kynnt ef því er að skipta“ – og einnig: „Sérstökum atvikum eða aðstæðum í prestakalli ef því er að skipta sem gera nauðsynlegt að grípa til sérstakra að óvenjulegra ráðstafana.“

Þar sem öllum er ljóst að aðstæður voru mjög óvenjulegar varðandi Selfosssókn telur sóknarnefnd að ákvörðunin standi fullkomlega skv. framansögðu.

  1. Samþykkt að taka þátt í kostnaði vegna áætlaðra ferða Unglingakórs Selfosskirkju fram að áramótum, skv. bréfi frá Edit Molnár.

Fundi slitið kl. 1900 . Eftirtaldir sátu fundinn : Grímur Hergeirsson, Guðmundur Búason, Erla Rúna Kristjánsdóttir, María Kjartansdóttir, Þórður Stefánsson, Eysteinn Ó. Jónasson, Bára Kr. Gísladóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis 18. okt.,  hófst kl. 1700.

Eysteinn formaður setti fund.

  1. Hann sagði frá fundi sem hann ásamt Birni Gíslasyni áttu á þingborg en fundurinn var til undirbúnings kirkjuþings. Björn sagði frá atriðum sem fram komu á fundinum og þá sérstaklega afgreiðslu kirkjuþings á sameiningu Hraungerðis og Selfossprestakalls. Umræður voru á sóknarnefnd um samskipti ríkis og kirkju fjármál ofl.
  2. Gunnþór kirkjuvörður lagði fram hugmynd frá Sláttu- og garðaþjónustu Suðurlands í slátt og beðahreinsun á lóð kirkju og kirkjugarðs fyrir sumarið 2012. „Samþykkt að biðja Guðmund og Gunnþór að skoða málið nánar“. Þá sagði Gunnþór frá því að hann vildi flytja orkukaup til Orkusölunnar hf. frá Hitaveitu Suðurnesja, þar sem hann taldi breytinguna tvímælalaust hagstæða. Samþykkt samhljóða.
  3. Samþ. að fela Gunnþóri og Sigurjóni að gera tillögur um útimálningu á kirkjunni.
  4. Rætt var um að gera þyrfti bækling um frágang leiða í kirkjugarði. (Tillögur til um nýjasta hlutann EÓJ.). Gunnþóri og sr. Óskari falið að gera tillögur.
  5. Rætt var um greiðslur til kirkjukórs. „Samþykkt að ræða við stjórn kórsins“.
  6. Sr. Óskar sagðir frá ýmsu í starfi kirkjunnar.

Fundi slitið kl. 1850 og sátu eftirtaldir fundinn.: Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Bára Kr. Gísladóttir, Björn Ingi Gíslason, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Gunnþór Gíslason, Hjörtur Þórarinsson, Grímur Hergeirsson og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis
  2. nóvember.  Hófst kl. 17:00

 

  1. Eysteinn Ó. Jónasson formaður setti fund og minntist á vel heppnaða samverustund sl. föstudagskvöld í Gesthúsum, en sóknarnefnd og starfsfólk kirkjunnar kom þá saman til kvöldverðar og kvöldvöku. Þakkaði Eysteinn þeim sem að því unnu.
  2. Rætt var um skerðingar á sóknargjöldum. Formanni og guðmundi Búasyni falið að semja bréf um að nótmæla skerðingum, en sóknarnefnd síðan undirrita bréfið. Samþykkt var að fela formanni að leita eftir því við 1. þingmann kjördæmisins að sóknarnefnd fái fund með þingmönnum kjördæmisins.
  3. Samþykkt að kirkjugarðurinn leggi 2 millj. kr. til utanhússframkvæmda framan við kirkju –  hitalögn í stétt o.fl.
  4. Rætt um fyrirhugaða málun á þökum kirkju og safnaðarheimilis. Áætlaðar kostnaðartölur frá Verkfræðistofu Suðurlands liggja fyrir. Verkið verður boðið út á næsta vori ef fjárhagur leyfir.
  5. Erla Rúna Kristjánsdóttir lagði fram bréf frá stjórn Kvenfélags Selfosskirkju þar sem fram kemur að þörf sé á að kaupa nýja uppþvottavél. Erlu Rúnu og Gunnþóri falið að athuga málið nánar.
  6. Gunnþór upplýsti (sbr. 3. lið síðustu fundargerðar) að hann hefði náð samningum við Orkuveitu Suðurnesja um lækkun á rafmagni frá því sem var. „Samþykkt að halda viðskiptum áfram við Orkuveitu Suðurnesja“.
  7. Samþykkt að stefna að fundi með prestum kirkjunnar fljótlega eftir helgina.

Fundi slitið kl. 19:30 og sátu eftirfarandi fundinn: Óskar H. Óskarsson, Eysteinn Ó. Jónasson,  María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Bára Kr. Gísladóttir, Björn Ingi Gíslason, Gunnþór Gíslason kirkjuvörður, Erla Rúna Kristjánsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn í rislofti safnaðarheimilis
  2. nóvember. Hófst kl. 1800
  3. Formaður Eysteinn setti fund og kynnti bréf sem hann hefir sent 1. þingmanni Suðurkjördæmis Björgvin G. Sigurðssyni þar sem sóknarnefnd óskar eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins vegna niðurskurðar hjá kirkjunni sbr. lið 2 í síðustu fundargerð.   Svarbréf hefur komið frá Björgvin þar sem hann ætlar að finna tíma til fundar.
  4. Þá lagði Eysteinn fram bréf frá Kirkjugarðasambandi Íslands þar sem kynnt er breyting á greiðsluformi fyrir prestsþjónustu við útfarir.
  5. Lagt var fram til umræðu „vinnureglur“ sem ber nafnið „Selfosskirkja – vakandi gegn kynferðislegu ofbeldi“. Vinnureglur þessar voru sendar sóknarnefnd og prestum til skoðunar í sl. viku. „Eftir umræður voru vinnureglur þessar samþykktar samhljóða“, og verða settar í fundargerðabók á eftir þessari fundargerð.

Samþykkt var að vinnureglur þessar verði sendar eftirtöldum: Biskupi Íslands, vígslubiskupi í Skálholti og prófasti Suðurprófastsdæmis.

Fundi slitið kl. 19:02

og sátu eftirfarandi fundinn: Óskar H. Óskarsson, Bára Kr. Gísladóttir, María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Eysteinn Ó. Jónasson, Ninna Sif Svavarsdóttir, Þórður Stefánsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Grímur Hergeirsson  og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

Hér er afrit af vinnureglum þeim sem fylgja fundargerðinni í fundargerðarbók. :

Selfosskirkja – vakandi gegn kynferðisbrotum

Starfsfólk og sóknarnefnd Selfosskirkju standa saman gegn kynferðisbrotum. Við viljum tryggja að kirkjan sé öruggur staður og skjól fyrir þau sem þangað koma. Við leggjum áherslu á að kynferðisbrot séu til umræðu innan kirkjunnar og að um þau sé rætt sem veruleika og alvarlegt mein í okkar samfélagi sem þurfi að vinna gegn með öllum tiltækum ráðum. Við viljum að afstaða starfsfólks og sóknarnefndar kirkjunnar til kynferðisbrota komi skýrt fram við foreldra barna sem sækja barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar. Einnig viljum við að kynferðisbrot séu rædd í tengslum við fræðslu í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar. Við viljum sækja okkur fræðslu um kynferðisbrot og viðbrögð gegn þeim með reglubundnum hætti.    Til að framfylgja þessu hafa sóknarnefnd og prestar kirkjunnar sett sér og öðru starfsfólki kirkjunnar vinnureglur. Þannig viljum við halda vöku okkar í Selfosskirkju og taka skýra afstöðu gegn kynferðisbrotum.

Vinnureglur fyrir Selfosskirkju:

  1. Starfsfólk og sóknarnefnd Selfosskirkju standa saman gegn kynferðisbrotum.
  2. Sóknarnefnd Selfosskirkju, í samráði við presta kirkjunnar, athugar áður en fólk er ráðið til starfa við kirkjuna, jafnt í launuð sem og ólaunuð störf, hvort viðkomandi hafi gerst sekur um kynferðisbrot. Snýr það jafnt að brotum er varða landslög og brotum á þeim starfs- og siðareglum sem í gildi eru hjá þjóðkirkjunni og varða kynferðisbrot. Þau sem orðið hafa uppvís að brotum á fyrrnefndum reglum og/eða lögum skulu ekki ráðin til starfa hjá Selfosskirkju og að jafnaði heldur ekki annast athafnir innan veggja hennar, og aldrei nema að fengnu samþykki sóknarnefndar og presta kirkjunnar.
  3. Prestar kynna fyrir fólki sem ráðið er til starfa við kirkjuna þær starfs- og siðareglur sem í gildi eru hjá kirkjunni (sjá lið 6). Sérstaklega skulu kynntar fyrir nýju starfsfólki afstaða og áherslur Selfosskirkju varðandi kynferðisbrot.
  4. Á hverju haustmisseri skal á vettvangi kirkjunnar fara fram fræðsla/umræður fyrir starfsfólk og sóknarnefnd um kynferðisbrot.
  5. Prestar ræða kynferðisbrot og afstöðu Selfosskirkju sérstaklega til þeirra á eftirtöldum stöðum:
  1. a) Á fundum með foreldrum fermingarbarna við upphaf fermingarstarfa.
  2. b) Á fundum með æskulýðsleiðtogum og öðrum þeim sem aðstoða við barna- og æskulýðsstarf við uppaf vetrarstarfs kirkjunnar að hausti.
  3. c) Á starfsmannafundi í Selfosskirkju við upphaf vetrarstarfs.
  4. d) Í fermingarfræðslu og á samverum í barna- og æskulýðsstarfi á haustmisseri.
  1. Að öðru leyti vísast í starfsreglur um presta og sóknarnefndir, siðareglur vígðra þjóna og annars starfsfólks þjóðkirkjunnar og siðareglur fyrir starfsfólk í barna- og unglingastarfi kirkjunnar.
  2. Vinnureglur þessar skulu endurskoðaðar eftir þörfum af sóknarnefnd og prestum kirkjunnar.

 

  1. fundur sóknarnefndar 2011 haldinn 15. desember í rislofti safnaðarheimilis.

Hófst kl. 18:05

Eysteinn formaður setti fund.

  1. Gunnþór kirkjuvörður lagði fram uppdrætti frá „Landform“ um kistugrafreiti, þá lagði hann fram „Nokkur atriði um umgengni og frágang leiða í Selfosskirkjugarði –  til aðstandenda“. Þær tillögur eru frá sr. Óskari og Gunnþóri, en þeim var falið í ágúst sl. að gera tillögur um þetta efni sem aðstandendum verði kynntar. Tillögurnar samþ. samhljóða.    Þá lagði Gunnþór fram viðhaldsóskir 2012 í 9 liðum.
  2. Rætt var um ágóða af aðventutónleikum sem hjálparsjóði kirkjunnar var afhentur.  Samþykkt að upphæðin fari í „Sjóðinn góða“.
  3. Rætt var um tölvupóst biskups Íslands frá 2. des. s.l.   Vegna hans samþykkir sóknarnefnd eftirfarandi: „Biskup Íslands sendi formanni sóknarnefndar í tölvupósti nokkrar línur þar sem hann lýsir ánægju með að sóknarnefnd og prestar marki sér stefnu í kynferðisbrotamálum. Sóknarnefnd þakkar biskupi góð orð og ábendingar.“
  4. „Samþykkt að fela Erlu Rúnu og Gunnþóri að fá smið til að hækka upp uppþvottavélina í eldhúsinu“.

Fundi slitið kl. 19:35 og eftirtaldir undirrituðu fundargerðina.: Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, Björn Ingi Gíslason, Hjörtur Þórarinsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Þórður Stefánsson, Grímur Hergeirsson auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar.