Ávarp á 50 ára afmæli kórsins

Ávarp flutt af Elínu Arnoldsdóttur í 50 ára afmælishófi kirkjukórsins 2. mars 1996Ég ætla með nokkrum orðum að fara yfir æviferil afmælisbarnsins, Kirkjukórs Selfoss, sem er 50 ára um þessar mundir. En sá galli er á gjöf Njarðar að eldri fundargerðabækur kórsins eru að líkindum glataðar, eftir því sem næst verður komist. Ég hef reynt að afla mér fanga úr gömlum blöðum og bókum um starf kórsins fyrstu áratugina og er komin, að ég held, með nokkuð heillega mynd frá þessum árum. Það verður að sjálfsögðu stiklað á stóru og reynt að tína úr það helsta.

Aðdragandinn að stofnun kirkjukórsins er sá, að í febrúar 1945 kom Kjartan Jóhannesson, organisti í Stóra-Núpskirkju, að Selfossi og æfði blandaðan kór á vegum Ungmennafélags Selfoss. frú Anna heitin Eiríksdóttir í Fagurgerði æfði síðan þennan kór af og til næstu mánuði, m.a. til að syngja við messu á páskadag. Var það fyrsta messan sem þessi kór söng við.

Fyrir áeggjan frú Önnu og Ingólfs Þorsteinssonar frá Merkilandi, sem síðar varð forsöngvari kórsins, var ákveðið að halda æfingum áfram og aðstoða við messur í Laugardælakirkju og á Selfossi. Það er fyrst og fremst fyrir dugnað og ósérhlífni frú Önnu að þessi kór varð að veruleika. Hún raddæfði kórinn oft við hin erfiðustu skilyrði. Iðulega lagði hún heimili sitt undir söngæfingar og fundi, meðan kórinn hafði ekki í önnur hús að venda. Verður hennar starf seint fullþakkað.

Þar sem kórinn hafði enn ekki verið formlega stofnaður, var leitað til þáverandi söngmálastjóra, Sigurð Birkis. Sendi hann kórnum lög sem æfð voru af kappi næstu vikurnar.

Ingimundur Guðjónsson hafði verið ráðinn söngstjóri kórsins, en frú Anna var organisti eins og áður. hinn 17. mars kom Sigurður Birkis á Selfoss og æfði kórinn í nokkra daga.

kirkjukór Selfoss var síðan formlega stofnaður 19. mars 1946 og voru stofnendur 26 talsins. Í fyrstu stjórn kórsins voru: Ingólfur Þorsteinsson, formaður, Brynjólfur Valdimarsson, gjaldkeri og Karl Eiríksson, ritari. Meðstjórnendur þær Jóhanna Sturludóttir og Ingibjörg Sveinsdóttir.

Þann 22. mars hélt hinn nýstofnaði kirkjukór sína fyrstu tónleika í Selfossbíói. Söng hann 9 lög og var söng hans ágætlega tekið.

Árið 1954 var kjallarinn undir kór Selfosskirkju sem þá var í smíðum, tekinn til notkunar fyrir guðsþjónustur og fékk þá kirkjukórinn varanlegt pláss til æfinga.

Haustið 1955 er ráðinn nýr organleikari og söngstjóri, Guðmundur gilsson, þá nýkominn frá námi í Þýskalandi, en Ingimundur Guðjónsson hafði þá flust burtu og látið af söngstjórn.

Undir stjórn Guðmundar Gilssonar hélt kórinn inn á ótroðnar slóðir í kirkjusöng. Messubók séra Sigurðar heitins Pálssona, vígslubiskups, kom út um þetta leyti og hefur verið stuðst við hana í Selfosskirkju síðan.

Beið nú kirkjukórsins stærsta verkefni hans til þessa, en það var að syngja við vígslu Selfosskirkju. Byrjuðu stífar söngæfingar undir stjórn Guðmundar. Síðan rann stóra stundin upp á pálmasunnudag 25. mars 1956 þegar þáverandi biskup Ásmundur Guðmundsson vígði Selfosskirkju. Er þessi athöfn mér í fersku minni sökum hátíðleika og hversu vel tókst til hjá kirkjukórnum varðandi sönginn.

Í kringum 1960 var farið að huga að alvöru fyrir almennilegu orgeli í kirkjuna, en það hafði lengi verið draumur organistans og kórsins að fá gott orgel. Þessi draumur varð að veruleika fyrir dugnað og framsýni Guðmundar Gilssonar, en hinn 1. nóvember 1964 var 28 radda pípuorgel vígt við hátíðlega athöfn af herra Sigurbirni Einarssyni, þáverandi biskupi. Eftir vígslu orgelsins leysti dr. Páll Ísólfsson það úr læðingi, ef svo má að orði komast, með Toccötu og fúgu í d-moll eftir Bach og fer enn um mann fiðringur þegar hugsað er til þeirrar stundar. Kirkjukórinn söng að sjálfsögðu við þessa athöfn og aðstoðaði þáverandi söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, dr. Róbert Abraham Ottósson, organistann við kórstjórn.

Báðir þessir framangreindu atburðir mörkuðu hvor á sinn hátt tímamót í starfsaðstöðu kirkjukórsins. Kirkjukórinn söng víða fyrir utan reglubundnar messu og athafnir í Selfosskirkju. T.d. við messur í Bessastaðakirkju, Dómkirkjunni og Háteigskirkju, einnig í útvarp og í sjónvarpssal. Margar ferðir voru farnar í Skálholt og sungið við messur og aðrar kirkjulegar athafnir þar.

Guðmundur Gilsson lét af störfum árið 1967. Eftir það urðu orgelleikarar við kirkjuna Abel Roderiques Loretta frá Mexicó og Einar Sigurðsson.

Árið 1973 er ráðinn við kirkjuna sem organisti og kórstjóri Glúmur Gylfason og hefur hann starfað með okkur síðan. Það var mikið lán fyrir kirkjukórinn að fá svo hæfan mann til starfa, en fljótlega fór hann að marka sín spor varðandi sönglíf í kirkjunni. Haustið 1974 hóf kirkjukórinn æfingar af miklum krafti undir stjórn Glúms og var ákveðið að efna til tónleika þar sem fluttar yrðu tvær kantötur eftir Buxtehute, og var önnur þeirra fimmradda. Talsvert af nýju fólki söng með kórnum í tilefni af þessum flutningi, en hætti síðan. Ólafur Sigurjónsson frá Forsæti, sem oft hefur hlaupið í skarðið fyrir Glúm, lék undir allan veturinn á æfingum kórsins án endurgjalds. En aðalvinna hvíldi á herðum söngstjórans, einnig veitti Garðar Cortes góða aðstoð, kom á æfingar og leiðbeindi fólki. Til liðs við kórinn voru fengnir mjög góðir hljóðfæra-leikarar ásamt söngkonunni Sigríði Ellu Magnúsdóttur, sem söng einsöngshlutverkin. Tónleikarnir fóru síðan fram 20. apríl 1975 og var tilefnið 30 ára afmæli kirkjukórsins. Tókust þeir í alla staði mjög vel og voru teknir upp á band, sem útvarpað var af nokkru seinna.

En Glúmur og kirkjukórinn létu ekki staðar numið. Snemma haustið 1975 hófust æfingar og var stefnt að jólatónleikum. Æfð var jólakantata eftir Bach fyrir kór og hljómsveit. Kórinn fékk til liðs við sig Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur, sem þá var nýstofnuð, en stofnandi hennar og stjórnandi var Garðar Cortes. Fullyrða má, að fyrir dugnað og kjark stjórnendanna Glúms og Garðars, tókst þetta starf svo vel sem raun varð á. Tónleikar voru síðan haldnir á þrettándanum 1976. þar komu fram, auk kirkjukórsins og sinfóníuhljómsveitarinnar, einsöngvararnir Sigríður Ella Magnúsdóttir, Halldór Vilhelmsson og Garðar Cortes sem sungu einsöngshlutverkin í kantötunum og einnig annaðist Ólafur Sigurjónsson sérstakan undirleik. Hljómleikarnir tókust mjög vel. Voru þeir síðan endurteknir í kirkju Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík og síðan aftur í Selfosskirkju.

Haustið 1978 var ákveðið að kórinn tæki þátt í jólatónleikum með Karlakór Selfoss og Samkór Selfoss og er það upphafið að hinum reglubundnu tónleikum sem enn eru við lýði.

Í janúar 1983 var hafist handa við æfingar á lokakafla Mattheusarpassíu Bachs og nokkrum hluta framan við hann og gekk þá Samkór Selfoss til liðs við kirkjukórinn. Ef vel átti að vera þurfti einnig einsöngvara, en í þetta sinn var málið leyst með því að Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson, skólastjóri á Þingborg, las texta einsöngvaranna. Eftir stífar æfingar voru svo tónleikarnir haldnir í Selfosskirkju á föstudaginn langa þann 1. apríl og síðar um kvöldið í Skálholtskirkju. Söngstjórarnir Björgvin Þ. Valdimarsson og Glúmur Gylfason gerðu ýmist að stjórna eða leika undir. Þótti frammistaða kóranna býsna góð.

Enn má lengi telja upp. kórinn hefur sungið á mörgum mótum kirkjukórasambands Árnessýslu og kórfélagar hafa tekið þátt í kóra- og organistanámskeiði í Skálholti.

Árið 1992 var kirkjukórunum boðið að taka þátt í flutningi meistarastykkis Händels, Messíasi, en það var liður í Listahátíð það árið. Frumkvöðull að þessu var Jón Stefánsson, sem kenndur er við Langholtskirkju. Skrifaði hann kirkjukórum bréf og hvatti þá til þátttöku og Kirkjukór Selfoss lét ekki á sér standa. Hófust nú miklar og strangar æfingar og í lokin fórum við á þrjár æfingar í Reykjavík ásamt öðrum kórum víðs vegar að af landinu. Þótti þetta vogað af Jóni að ætla að stjórna svo vandasömu verki með samtíningi úr hinum og þessum kórum. En það ótrúlega skeði, honum tókst þetta og stóra stundin rann upp að kveldi hins 5. júní þegar óratórían Messías eftir Georg Friedrich Händel var sungin í Háskólabíói við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Jóns Stefánssonar. Kórinn taldi 220 manns auk 12 einsöngvara. Flutningurinn þótti takast ótrúlega vel, eftir því sem tónlistargagnrýnendur sögðu.  Var þessi stund ógleymanleg öllum sem þátt tóku.

Tvennt verð ég að minnast á áður en ég lýk þessari upptalningu. Það fyrra er, að kirkjukórinn hefur sungið við eina prestsvígslu og eina biskupsvígslu og það merkilega er, að í bæði skiptin átti sami maður í hlut: En það er fyrrverandi sóknarprestur okkar og núverandi vígslubiskup í Skálholti, séra Sigurður Sigurðarson. Séra Sigurður var vígður til Selfossprestakalls 19. desember 1972 af föður sínum, þáverandi vígslubiskupi, og sóknarpresti okkar, séra Sigurði Pálssyni. Athöfnin fór fram í Skálholtskirkju og var mjög áhrifarík, ekki síst vegna þess að það var óvenjulegt að verða vitni að því að sjá föður vígja son sinn til prests. Einnig urðu þáttaskil hjá kirkjukórnum við þessa athöfn því á þessari stundu vorum við að kveðja sóknarprestinn okkar til margra ára, hinn merka klerk og kennimann, séra Sigurð Pálsson, sem við höfðum átt svo gott samstarf við. Organisti og kórstjóri við þessa athöfn var Einar Sigurðsson og þótti kórnum takast vel upp undir hans stjórn. Séra Sigurður var síðan vígður til vígslubiskups í Skálholti þan 24. júlí 1994. var sú athöfn mjög áhrifarík og minnisstæð. Það var með tregablandinni ánægju sem við sungum við þá athöfn ásamt Skálholtskórnum. Vel gátum við unnt séra Sigurði þess að vera kjörinn vígslubiskup, en við söknuðum þess sárlega að missa hann sem sóknarprest, svo vel hafði samstarf við hann og hans ágætu konu gengið.

En maður kemur í manns stað. Og lánssöm höfum við verið hvað varðar prestana okkar. Séra Þórir Jökull hefur sýnt og sannað, að hann er vandanum vaxinn sem prestur okkar og sálusorgari og hefur samstarfið við hann gengið með miklum ágætum.

Það síðara sem ég vildi nefna er veraldlegra. kirkjukórinn hefur farið í tvær utanlandsferðir. Ekki verða þær ferðasögur raktar hér, það yrði of langt mál. En margir hér inni eiga ljúfar og góðar minningar úr þeim ferðum. Hin fyrri var farin til Kúlúsúk á Grænlandi að ég held árið 1987, en ekki er nógu vel greint frá þeirri ferð í starfsskýrslu formanns fyrir 1987 – ’88. En mér skilst að sú ferð hafi verið hin eftirminnilegasta bæði vegna glæfrarlegrar bátssiglingar sem fékk þó farsælan endi og frjósemisdans sem Steini í Geirakoti heillaðist mjög af.

Síðari ferðin var farin hinn 10. júní 1989. Var það þriggja landa ferð. Farið var til Þýskalands, Ungverjalands og Danmerkur. Þetta var söngferðalag og hafði kórinn æft stíft allan veturinn og var hápunkturinn tónleikar í Matthíasarkirkjunni í Hambor. Ekki verður farið nánar út í þetta ferðalag sem var einstaklegt í alla staði.

Nú læt ég staðar numið. Mörgu hefur verið sleppt sem gaman hefði verið að segja frá.

Við kórfélagarnir syngjum við athafnir í Selfosskirkju og höfðum orðið vitni að mikilli gleði en einnig djúpri sorg. Það er hlutverk okkar að aðstoða prestinn við að gera þessar athafnir sem best úr garði. En við erum lífsglöð og upp til hópa skemmtilegt fólk að okkur finnst. Þess vegna lyftum við okkur upp annað slagið, förum í ferðalög, í leikhús og út að borða. Þetta þjappar fólki saman og skapar góðan anda.

Elín Arnoldsdóttir.