Fundargerðir 2010

Fundur sóknarnefndar fimmtud. 7. jan. 2010 í skrifstofu sóknarprests.
Hófst kl. 18:10 .

Eysteinn Jónasson form. setti fund.

  1. Sr. Óskar H. Óskarsson lagði fram „Starfsáætlun á vormisseri 2010“ sem samþykkt var á starfsmannafundi 5. janúar 2010 . Áætlunin nær til 23. maí nk. sem er hvítasunna. Farið var yfir áætlunina með sr. Óskari. Eftir umræður þar sem sóknarnefnd lýsti ánægju með hana, var áætlunin samþykkt samhljóða.
  2. Sr. Óskar H. Óskarsson lagði fram bréf dags. 7. jan. 2010, sem hann hefir ritað sóknarnefnd um hlutverk sitt og skyldur í Selfosskirkju á tímabilinu frá 1. jan. – 28. febr. 2010, skv. umboði frá biskupi. Þvínæst vék sr. Óskar af fundi.
  3. Eysteinn lagði fram „Viðhaldsóskir 2010“ frá Gunnþóri Gíslasyni kirkjuverði. Þarna eru 12 viðhaldsliðir úti og inni. Ákvörðun frestað.
  4. Rætt var um að halda almennan safnaðarfund sunnud. 24. jan. nk. þar sem á dagskrá verði staða mála í Selfosssókn. Formanni falið að undirbúa dagskrá í samráði við sóknarnefnd. „Samþykkt samhljóða.“
  5. Ákveðinn er fundur sóknarnefndar með sr. Kristni Ág. Friðfinnssyni nk. laugardag kl. 16:00.
  6. Lögð fram kvittun frá Birni Pálssyni fh. Héraðsskjalasafns Árn. fyrir móttöku skjala frá Selfosskirkju, sem ná allt frá tíð sr. Sigurðar Pálssonar.

Fundi slitið kl. 19:50 . Undir fundargerð skráðu : Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Björn Ingi Gíslason, Guðmundur Búason, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

Fundur sóknarnefndar laugardag 9. jan. 2010 haldinn í skrifstofu sóknarprests. Hófs kl. 16:00

Formaður Eysteinn Jónasson form. setti fund og bauð velkominn sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson.

Eysteinn rakti nokkur atriði um stöðu mála frá því að kirkjuþing ákvað sameiningu prestakallanna tveggja, Hraungerðis- og Selfossprestakalls.

Sr. Kristinn kvaðst fagna því að taka við þessu starfi sóknarprests í sameinuðu prestakalli. Þá sagði hann frá starfsferli sínum og fleiru í sínu starfi svo sem sálgæslu. Guðmundur Búason ræddi um þá kröfu að sá prestur, sem nú verður valinn stýri Selfosskirkju og telur að það felist í auglýsingunni. Sigurjón Erlingsson tók undir þá kröfu og lýsti því að sóknarnefnd myndi koma að gerð væntanlegs samstarfssamnings á síðari stigum.

Björn Gíslason taldi að samstarfssamningur þyrfti að vera um stjórn væntanlegs prests í Selfosskirkju.

Sr. Kristinn lýsti því yfir að hann vildi að væntanlegur samningur yrði þannig að „allir gætu vel við unað“.

Sigurður Sigurjónsson taldi að gott væri ef hægt væri að undirbúa gerð samstarfssamnings sem fyrst ekki síst vegna þeirra orða í auglýsingu um starf væntanlegs prests sem á að hafa „sérstakar skyldur við Selfosskirkju“.

Sigríður Bergsteinsdóttir lýsti þeirri skoðun að þessar sérstöku aðstæður kölluðu á sértækar aðgerðir.

Fundi slitið kl. 17:30 og eftirtaldir skrifuðu undir fundargerð:

Kristinn Ágúst Friðfinnsson, Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Guðmundur Búason, Björn Ingi Gíslason, Sigurður Sigurjónsson, Hjörtur Þórarinsson, Sigríður Bergsteinsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

Almennur safnaðarfundur haldinn í safnaðarheimili Selfosskirkju sunnudaginn 24. janúar 2010 að aflokinni messu. Fundurinn hófst kl. 12:30 .

  1. Formaður sóknarnefndar Eysteinn Ó. Jónasson setti fund en til hans var boðað beiðni fjölmargra sóknarbarna til að ræða stöðu mála eftir að ákveðin var á Kirkjuþingi þann 12. nóv. sl. sameining Hraungerðis- og Selfossprestakalla.
    Eysteinn tilnefndi Berg Pálsson (fyrrum bónda í Hólma hjáleigu) fundarstjóra og Sigurjón Erlingsson fundarritara. Síðan hafði Eysteinn framsögu um gang mála varðandi sameininguna og greindi frá ýmsum samskiptum sóknarnefndar, samþykktum og samráðsfundum og er margt um það bókað í síðustu fundargerðum sóknarnefndar.
  2. Sr. Úlfar Guðmundsson fyrrv. prófastur ræddi um sameininguna og að hún hefði borið brátt að. Hann sagði síðan frá ýmsum sameiningum prestakalla sem samþykktar voru á síðasta kirkjuþingi og skýrði þær leiðir sem í boði eru nú um val á prestum.
  3. Jóhann Bjarnason ræddi um þær undirskriftir sem safnað var. Hann sagði að þetta mál snérist ekki um einhverja einstaklinga og það gengi ekki að ganga freklega á rétt fólks.
  4. Sigurjón Erlingsson ræddi um það sem framundan er á næstu vikum. Umsóknarfrestur um prestsembættið í Selfosssókn rennur út á morgun 25. janúar. Þá velur valnefnd prestinn. Síðan gera sóknarprestur og prestur samstarfssamning sem fer til prófasts og sóknarnefndar og síðan til biskups sem gerir erindisbréf. Hann benti síðan á það sem stendur í 43. gr. starfsregla um presta um verkaskipti, en þar segir m.a.: „Við verkaskipti skal taka af því mið:
    C) hvernig starf var auglýst og kynnt…..
    G) sérstökum atvikum eða aðstæðum í prestakalli ef því er að skipta, sem gera nauðsynlegt að grípa til sérstakra eða óvenjulegra ráðstafana.“
    Þar sem í auglýsingu um prestsembættið er fram tekið að hann skuli hafa sérstaka skyldur við Selfosskirkju væri hér góð leið til að presturinn stýrði öllu kirkjustarfi þar.
  5. Sigmundur Sigurgeirsson spurði hvort ekki hefði borist til sóknarnefndar erindi um sameiningar prestakalla. Eysteinn sagði frá gangi þeirra mála og samskiptum við kirkjuyfirvöld og benti honum á að hann hefði ýtarlega greint frá þeim í framsöguræðu sinni. Þá spurði Sigmundur um hvort sr. Kristni hefði verið sendar hugmyndir að samstarfssamningi prestanna fyrirfram. Eysteinn kvað svo ekki vera, enda hafa engar slíkar hugmyndir verið ræddar eða samþykktar af sóknarnefnd. Hann kastaði um leið fyrirspurn til sr. Kristins Á. Friðfinnssonar um það hvort honum hefði borist slíkt frá sóknarnefnd. Sr. Kristinn kvaðst ekki vilja svara því strax, en svara því í lok fundar. (þess má geta hér að það svar kom ekki fram í erindi sr. Kristins í lok fundar , sjá lið 11.)
  6. Ingibjörg Björnsdóttir ræddi um kirkjuna og sagði: „Kirkjan er fyrst og fremst um Krist. Þetta á ekki að snúast um menn.“ Hún vildi að hlustað væri á fólkið. Og sem svar við orðum sr. Úlfars Guðmundssonar þar sem hann bað söfnuðinn um „…að vera til friðs…“ sagði hún „…Jesús Kristur var aldrei til friðs.“

 

  1. Hafsteinn Þorvaldsson lýsti ánægju með stöðu mála. Hann bauð sr. Kristinn velkominn og hvatti til samstöðu. Hann þakkaði fyrir gott starf í Selfosskirkju.
  2. Þórður Árnason þakkaði sóknarnefnd fyrir að hafa boðað til þess fundar og sagði að þeir mættu vera fleiri. Fyrir hönd þess fólks sem stóð fyrir undirskriftum um að sóknarfólk fengi að kjósa sér sóknarprest lagði hann fram eftirfarandi áskorun fyrir fundinn (Áskorun límd í fundargerðarbók og er hér skönnun af því bréfi):

Áskorun til biskups Íslands.

Almennur safnaðarfundur, haldinn í Selfosskirkju 24. janúar 2010, krefst þess að prestur, sem auglýst hefur verið eftir og hafa mun sérstaka skyldur við Selfosskirkju, stýri og beri ábyrgð á öllu kirkjustafi í Selfosskirkju.

Greinargerð: Þann 1. desember sl. tók í gildi ákvörðun Kirkjuþings 2009 um sameiningu Selfossprestakalls og Hraungerðisprestakalls . Sú ákvörðun var tekin án samráðs við sóknarbörn á Selfossi og framkvæmd sameiningarinnar hefur valdið verulegri ólgu innan safnaðarins. Í ljósi þes að ekki var orðið við kröfu almennri prestkostningu telja sóknarbörn í Selfosssókn afar brýnt að prestuninn sem valinn verður á næstu vikum fái skýrar og afgerandi starfsskyldur við Selfosskirkju sem er ein fjögurra kirkna í hinu nýsameinaða prestakalli. Fyrir liggur enda auglýsing um að prestuninn hafi sérstakar skyldur við Selfosskirkju. Starfsreglna um presta þar sem segir að við ákvörðun um skiptingu starfa á milli presta í sama prestakalli beri að hafa hliðsjón af „sérstökum atvikum eða aðstæðum í prestakalli ef því er að skipta sem gera nauðsynlegt að grípa til sérstakra eða óvenjulegra ráðstafana“.

Fundarstjóri kvað áskorunina ver til umfjöllunar fundarmanna, en kosið yrði um hana í lok fundar.

  1. Gísli Geirsson sagðist vona að sr. Óskar H. Óskarsson sem nú er settur prestur í Selfosskirkju yrði valinn prestur en umsóknarfrestur um prestsembættið rennur út á morgun eins og áður hefur fram komið. Gísli hvatti til samstöðu.
  2. Ingimar Pálsson kvaðst hafa átt góðar stundir á Selfossi en hann kvaðst hafa átt hér heima í 10 ár. Hann hvatti til samstöðu og þakkaði fyrir fundinn.

 

  1. Sr. Kristinn Ág. Friðfinnssonþakkaði fyrir þær umræður sem fram hafa farið. Hann las síðan upp yfirlýsingu sem hann óskaði eftir að færð yrði til bókar. Fer hún hér á eftir :

Í kirkjunni er spurt um þjónustu í kærleika, ekki vald. Heillavænlegast er að prestar rækti hugarfar sitt með það að leiðarljósi, virði rétt yfirvöld, ræki skyldur sínar við embættin og þjóni söfnuðum og þeim öðrum sem til þeirra leita í kærleika og trúmennsku.

Ég bið Selfosssókn og samstarfsfólki í kirkjunni blessunar Guðs og handleiðslu í lífi og starfi. Megi samvinna okkar allra verða á friðarvegi heilla og farsældar. Drottinn varðveiti okkur og verði söfnuðum Selfossprestakalls, sóknarnefndum og kirkjuyfirvöldum leiðarljós í lengd og bráð

Selfossi, 25. janúar 2010,

Sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson sóknarprestur Selfossprestakalls.

  1. Þvínæst las Bergur fundarstjóri upp áskorun þá sem Þórður Árnason hafði áður kynnt á fundinum (8) til atkvæða. En þá kvaddi :
    Árni Valdimarsson sér máls ogbenti á að í áskoruninni þyrfti að koma fram að allt færi fram undir handleiðslu sóknarprests. Árni flutti ekki breytingartillögu. Fundarstjóri benti á að áskorunin hefði verið auglýst til umræðu strax eftir flutning og nægur tími gefist til andmæla áður en hún var nú borin upp til atkvæða.
    Áskorunin var síðan borin upp og samþykkt með 64 atkvæðum gegn 10.

Fleiri tóku ekki til máls og slitu þeir Bergur og Eysteinn fundi kl. 14:30. Um 100 manns sátu fundinn.

Fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

Fundur sóknarnefndar haldinn í skrifstofu sóknarprests sunnud. 7. febr. 2010
að aflokinni messu. Hófst kl. 12:40.

  1. Eysteinn Ó. Jónasson formaður setti fund og kynnti dagskrá.
    Fram kom að valnefnd hefir komið einu sinni saman undir forystu sr. Halldóru Þorvarðardóttur. Nefndin mun kalla umsækjendur til viðtals nk. mánudagskvöld.
    Umsækjendur eru um embætti prests:

Ása Björk Ólafsdóttir
Þráinn Haraldsson
Óskar Hafsteinn Óskarsson
Stefán Einar Stefánsson
Ragnheiður Karitas Pétursdóttir.

  1. Tekin fyrir fundargerð byggingarnefndar kirkjunnar frá 4. febr. sl. en nefndarmenn funduðu með aðilum á Verkfræðistofu Suðurlands.
    Samþykkt að byggingarnenfd haldi áfram skv. þeim hugmyndum sem fram koma í fundargerð þeirra: þ.e. að kjallari nýbyggingar falli út og lyfta verði einfaldari að gerð.
  2. Eysteinn lagði fram bréf frá biskupsstofu til sóknarnenfdarformanna dagsett 2. febrúar 2010 þar sem kynntur er undirbúningur að kosningum til kirkjuþings 2010.
  3. Samþykktur ferðastyrkur v. ferðar á æskulýðsmót í Rvk. ca 45 þús. kr.
  4. Rætt um aðfengið listafólk við messur, t.d. þrisvar á ári. Ákveðið að leggja málið fyrir aðalsafnaðarfund.

Fundi slitið kl. 14:40, en eftirfarandi sátu fundinn og undirrituðu í fundargerðarbók:
Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Björn Ingi Gíslason, Guðmundur Búason, Þórður Stefánsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir og Fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

Fundur sóknarnefndar 28. febrúar 2010 haldinn í skrifstofu prests í safnaðarheimili að aflokinni messu. Hófst kl. 12:20.

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund og bauð sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson velkominn en hann tekur við starfi sóknarprests í Selfosssókn og verður sóknarprestur í nýju Selfossprestakalli.

  1. Gunnþór Gíslason kirkjuvörður lagði fram tillögu frá Landform ehf: „Reglur og leiðbeiningar um grafreiti í nýjum kirkjugarði Selfoss“, ásamt reglum um frágang grafreita. Sóknarnefnd samþykkir framkomin gögn með þeirri breytingu að liður 10 í „Reglum um umgengni í kirkjugörðum og frágang grafreita í Selfosskirkjugarði“ breytist að þar sem segir um jarðvegsskipti breytist úr 0,45m í 0,60m (að lágmarkiundirþunga grafsteina EÓJ).
  2. Gunnþór fékk heimild fundarins til að leita eftir verðtilboðum í grafartöku í kirkjugarði en samningur við Valdimar Árnason núverandi verktaka rennur senn út. Þá fékk Gunnþór heimild til að athuga nánar með rafstraum í nýjasta kirkjugarði. Samþykkt var að fækka grenitrjám við götu (sunnan við kirkju) úr 4 í 2. Gunnþór falið að leggja viðhaldsóskir fram við gerð fjárhagsáætlunar.
  3. Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson gerði grein fyrir stöðu mála varðandi gerð samstarfssamnings milli prestanna í Selfossprestakalli. Kvað hann það vilja sinn að þessu verki lyki n.k. þriðjudag.
    Sr. Óskar sagði að unnið væri að samstarfssamningi sem væri á þessu stigi trúnaðarmál. Sr. Kristinn kvaðst hafa lagt fram samningsdrög sl. þriðjudag og fengið athugasemdir við þær frá sr. Óskari.
    Rætt um starfsaðstöðu presta í Selfosskirkju og kom fram að sr. Kristinn óskar eftir starfsaðstöðu í skrifstofu prests.
    Björn Gíslason kvaðst ekki ræða um skrifstofuaðstöðu fyrr en fyrir lægi undirritaður samstarfssamningur milli prestanna.
    Guðmundur Búason kvað þann prest sem nú hefir skrifstofu í Selfosskirkju myndu hafa hana áfram þar til breytingunni væri lokið á húsakynnum þar sem skrifstofum verði fjölgað.
  4. Eysteinn lagði fram „Minnisblað um afnot og umráð af kirkju og safnaðarheimili“ gert af Sigurði Sigurjónssyni lögmanni skv. ósk Eysteins.
    Þar eru rakin lög og reglur um þetta efni þar sem fram kemur að sóknarnefnd hefir full umráð yfir safnaðarheimili. Síðan segir í álitinu: „Þar sem sameining prestakalla í Selfossprestakall hefir borið mjög brátt að hefir ekki á svo skömmum tíma sem raun ber vitni, gefist tími til þess að leysa mál þannig að tveir prestar geti haft hvor sína skrifstofu í Selfosskirkju. Í auglýsingu um prestsembættið á Selfossi er sérstaklega tekið fram að prestur sá er valinn er hafi sérstakar skyldur við Selfosskirkju. Í því ljósi þykir rétt að hann hafi það skrifstofuherbergi sem hann er nú í, í Selfosskirkju. Þá þykir rétt að taka fram að sóknarnefnd hefir upplýssst að fyrirhugað er á komandi sumri að stækka safnaðarheimili Selfosskirkju og í framhaldi af því verða gerðar breytingar á núverandi húsakynnum þannig að skrifstofum verði fjölgað.“ Sóknarnenfd lýsir samþykki við minnisblaði lögmanns.
  5. Eygló Gunnarsdóttir djákni flutti þakkir frá Ninnu Sif æskulýðsfulltrúa fyrir styrk frá Selfosskirkju vegna æskulýðsmóts.
    Eysteinn lagði fram bréf dags. 23. febrúar varðandi umsókn frá Selfosssókn um styrk úr jöfnunarsjóði sókna 2010. Styrkbeiðni er hafnað. Undir bréfið ritar f.h. kirkjuráðs Magnhildur Sigurbjörnsdóttir verkefnisstjór.
  6. Rætt um framboðsmál til kirkjuþings. Björn Gíslason lagði til að Eysteinn Ó. Jónasson yrði boðinn fram sem aðalmaður en Guðmundur Búason varamaður. Samþykkt samhljóða.
  7. Samþykkt var að aðalsafnaðarfundur yrði sunnudaginn 14. mars nk. eftir messu.  Þá yfirgaf sr. Kristinn fundinn.
  8. Þá kynnti Björn Gíslason efni í næsta fréttabréf.
  9. Stefnt skal að því að fundartími sóknarnefndar verði framvegis 3. þriðjudag hvers mánaðar kl. 17.
  10. Eysteini og Gunnþóri falið að ganga frá þeim gögnum í skrifstofu prests og tilheyra sr. Gunnari Björnssyni. Skrásetja þau vandlega og koma fyrir í kjallara.

Eftirtaldir sátu allan fundinn og undirrituðu í fundargerðabók.: Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Guðmundur Búason, Björn Ingi Gíslason, Guðný Ingvarsdóttir, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.   Fundi slitið kl. 14:30.

 

 

 

Fundur sóknarnefndar í skrifstofu prests mánudaginn 8. mars 2010
Hófs kl. 18:15

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund og kynnti dagskrá.

  1. Eysteinn kynnti bréf sem hann ritaði sóknarpresti sr. Kristni Ág. Friðfinnssyni vegna munnlegrar óskar sr. Kristins að fá sameiginlega aðstöðu með núverandi presti í skrifstofunni í safnaðarheimili. Í bréfinu segir m.a.: að farið sé fram á „formlega (skriflega) beiðni um þá ósk með rökstuðningi fyrir því hvers vegna sú aðstaða sem sóknarnefnd hefði nú um skeið boðist til að láta útbúa á efri hæð safnaðarheimilis komi ekki til greina sem aðstaða sóknarprests í okkar kirkju“. Þá las Eysteinn upp svarbréf sr. Kristins frá 6. mars þar sem fram kemur m.a. sú tillaga hans að sóknarprestur hafi viðveru tvo morgna í viku en prestur tvo á tímanum kl. 10:30 – 12:00 í núverandi skrifstofu. Sr. Kristinn var mættur á fundinum og skýrði frekar erindi sitt.
    Til máls tóku Björn Gíslason og dró í efa þá skyldu að leggja sóknarpresti til skrifstofu í Selfosskirkju.
    Sigurjón Erlingsson áréttaði að sóknarnefnd hefði fyrir sl. áramót óskað eftir því við biskup að prestur þjónaði Selfosskirkju þar til prestur hefði verið valinn og hefði það verið á forræði biskups.

    Guðmundur Búason taldi það góðan kost að sóknarprestur fengi strax skrifstofu á efri hæð sem honum er boðin. Málið var rætt um stund og tóku ýmsir til máls. Um skrifstofumálin var eftirfarandi samþykkt: „Sóknarnefnd samþykkir að athuga málið nánar“.

  2. Sr. Kristinn var spurður um stöðu samstarfssamnings milli prestanna tveggja. Sr. Kristinn svaraði að „prófastur sé að taka við málinu“.
    Hér yfirgaf sr. Kristinn fundinn.
  3. Guðmundur Búason gjaldkeri lagði fram reikninga Selfosskirkju og fór yfir ýmsa lið þeirra og skýrði fyrir fundarmönnum.
  4. Eysteinn lagði fram gögn um verðtilboð sem leitað verður eftir um grafartöku. Gögnin eru dags. 5. mars 2010 undirrituð af Gunnþóri Gíslasyni.
    „Verðtilboðsblað samþykkt af sóknarnefnd.“
  5. Erla Kristjánsdóttir flutti ósk frá Edith Molnár að sett yrði hurðarpumpa á hurð milli anddyri safnaðarheimilis og sals safnaðarheimilis (jarðhæð). Samþykkt að fela Þórði Stefánssyni og Gunnþóri kirkjuverði að framkvæma verkið.
  6. Gerð voru drög að framkvæmdaáætlun kirkju og kirkjugarðs.

Fundi slitið kl. 21:15  Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Guðmundur Búason, Þórður Stefánsson, Björn Gíslason, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

 

Aðalsafnaðarfundur fyrir árið 2009 haldinn í safnaðarheimili Selfosskirkju 14. mars 2010 að lokinni messu. Fundur hófst kl. 12:45.

  1. Eysteinn Ó. Jónasson formaður sóknarnefndar setti fund.
  2.      Gerði tillögu um Jóhann Bjarnason sem fundarstjóra og Sigurjón Erlingsson sem fundarritara.
  3. Sigurjón Erlingsson ritari sóknarnefndar las fundargerð síðasta aðalsafnaðarfundar sem var 8. mars 2009. Sr. Úlfar Guðmundsson gerði athugasemd við lið 2 í fundargerðinni þar sem sagt er frá því í skýrslu formanns þegar sr. Gunnar Björnsson var settur í leyfi frá störfum í maíbyrjun 2008. Þá er þess ekki getið í fundargerðinni að sr. Úlfar leysti hann af í maímánuði, en sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson í júní. Síðan tók sr. Guðbjörg Jóhannsdóttir við fram að áramótum eins og fram kemur í fundargerðinni – o.s.frv.
  4. Eysteinn Ó. Jónasson gerði grein fyrir starfsemi og rekstri ársins 2009. Hér kemur sá hluti sem hann skráði niður:

Skýrsla formanns á aðalsafnaðarfundi 14. mars 2010.

Kæri söfnuður. Ég ætla hér að rekja það helsta sem gerðist á árinu 2009, en það var þó það viðburðaríkt að hér eru engin tök á að vera með tæmandi lýsingu á öllu.

Á fyrsta fundi síðasta árs, eða 2. janúar var sr. Óskar H. Óskarsson sérstaklega boðin velkominn til starfa í Selfosskirkju, en sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir sem leysti sóknarprest okkar af í 5 mánuði gaf ekki kost á sér nema til áramóta. Sr. Óskar var hins vegar á lausu vegna óvæntra aðstæðna og gat hlaupið í skarðið með stuttum fyrirvara og tekið við undirbúningi fermingarbarna. Hann komst á ótrúlega stuttum tíma inn í öll þau störf sem hér þurfti að sinna á miðju vetrarstarfi í Selfosskirkju. Örlögin höguðu því síðan þannig að hann leysti af í rúmt ár eða til lok febrúar s.l. að hann var valinn prestur í hið nýja sameinaða prestakall sem kirkjuþing ákvað að demba yfir okkur. Það er skemmst frá því að segja að störf sr. Óskars hafa verið sérstaklega vel metin af söfnuðinum og kirkjusókn aldrei verið meiri en í hans tíð og átti það einnig við yfir sumartímann. Starfsemi 2ja barnakóra og unglingakórs undir stjórn Edit Molnár blómstraði og barna- og unglingastarf var með mesta móti undir ötulli stjórn Herdísar Styrkársdóttur fram á vorið en Ninna Sif Svavarsdóttir tók síðan við því starfi í lok júlí. Ekki er ég hér með skráðan fjölda athafna á s.l. ári en djákni og prestur mun flytja okkur tölulegar upplýsingar hér á eftir og e.t.v. aðrir starfsmenn. Nokkrar svokallaðar léttmessur voru haldnar á árinu og komu þar við sögu ýmsir þekktir söngvarar og hljóðfæraleikarar. Ein fjölsótt útimessa var haldin á grasbalanum norðan við kirkjuna eitt júlíkvöldið og kunnu þátttakendur vel að meta þá yndislegu samverustund sem þóttist heppnast mjög vel.

Aðalsafnaðarfundur var að venju haldinn fyrripart marsmánaðar 2009 eða 8. mars. Þá hafði sóknarnefnd ekki borist umbeðnar hugmyndir kirkjuráðs varðandi tilhögun umræddrar sameiningar Hraungerðis- og Selfossprestakalla. Af þeim sökum var málið ekki auglýst til umræðu né afgreiðslu á fundinum. Björn Gíslason sóknarnefndarmaður bar hins vegar upp ályktun um að fresta öllum hugmyndum um sameiningu en…..“stefnt að samstarfssamningi sókna í prófastdæminu um störf prestanna og gagnkvæmar afleysingar“ Þessi ályktun var samþykkt samhljóða enda sóknarprestar Eyrarbakka-, Selfoss- og Hraungerðisprestakalla búnir að leggja nokkra vinnu í þessa hugmynd sem kom frá þáverandi prófasti okkar. Héraðsfundur var síðan haldinn í Þingborg 28. mars og þar urðu þó nokkrar umræður um samstarf prestanna og tillögu sr. Kristins Ág. Friðfinnssonar varðandi aukið samstarf presta í þáverandi prófastsdæmi í stað sameiningar, borin upp og samþykkt samhljóða.

Helgina áður, eða 22. mars héldum við hátíðarmessu þar sem vígslubiskup sr. Sigurður Sigurðarson predikaði en eftir athöfn í kirkju var afhjúpaður minnisvarði um heiðurshjónin sr. Sigurð Pálsson fyrsta prest í Selfosskirkju og konu hans Stefaníu Gissurardóttur. Veislukaffi var síðan veitt í safnaðarheimili og margir sem minntust þeirra hjóna með fögrum orðum.

Og í mars kom mat viðlagatryggingar á tjóninu í jarðskjálftanum sem þeir mátu upp á tæpar 10. milljónir.

Já margt gerðist í þessum mars mánuði því að auk fyrrgreindra atriða þá kom bréf frá biskupsstofu dagsett 23. mars, sem kvað á um það að þar sem niðurstaða í hæstarétti í máli sr. Gunnars Björnssonar teldust ekki brjóta landslög, að þá tæki hann aftur við embættinu frá og með 1. maí. Strax í kjölfarið bárust mótmæli frá Æskulýðsráði Þjóðkirkjunnar um að það sem þó kæmi fram og væri viðurkennt í dómnum bryti samt í bága við siðarnefnd Kirkjunnar og vildu að málinu yrði vísað til Úrskurðarnefndar kirkjunnar.

Um sama leyti felldi siðanefnd presta þann dóm hjá sér að sömu atriði og æskulýðsráð taldi upp, væru brot á siðareglum presta. Dróst því málið í höndum Úrskurðarnefndar fram í miðjan októbermánuð sem varð til þess að biskup ákvað að færa sr. Gunnar Björnsson úr starfi sóknarprests á Selfossi í sérverkefni hjá Biskupsstofu.
Strax og þetta var ljóst fengum við bréf frá kirkjuráði dagsett 16. október (föstud. í tölvupósti eftir venjulegan vinnutíma) þar sem kynnt er tillaga um sameiningu Hraungerðis- og Selfossprestakalla. Óskað eftir því að málið verði kynnt á auka-héraðsfundi (að kvöldi 20. október, þriðjudag) og umsögn skilað til biskupafundar fyrir 20. október nk. (fyrir sama dag og fundur átti að verða). Mér var falið af sóknarnefnd að fylgja eftir á þeim aukafundi, ítrekun mikilvægi þess að Selfosssöfnuður fengi sem fyrst að velja sér nýjan prest til að hefja uppbyggingu í söfnuðinum og skapa traust eftir 16 mánaða óvissu í prestamálum okkar. Við töldum að aðeins á þeim grunni yrði hægt að hefja umræður um mögulega sameiningu prestakallanna síðar meir. Tillaga þar að lútandi var samþykkt samhljóða af sóknarnefnd. Auka-héraðsfundur samþykkti líka samhljóða að tillögur frá héraðsfundi í mars stæðu.

Þrátt fyrir þetta fóru mál eins og alþjóð nú þekkir og sitjum við uppi með þá niðurstöðu þrátt fyrir miklar umræður um aukið lýðræði í kirkjunni fáum við ekki að hafa áhrif á jafn mikilvæg mál í okkar sókn.             Starfsreglur um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 1026/2007

  1. gr. ………………… Tillögur um breytingar á skipan sókna og prestakalla skulu fá umsögn á aðalsafnaðarfundum viðkomandi sókna og því næst bornar upp á héraðsfundi, sem sendir þær biskupafundi. Hann býr málið til kirkjuþings.

Það er því ekki að furða að ofangreind mál hafi heimtað marga fundi hjá sóknarnefnd auk annarra nefnda skipaðra af henni. Mér telst til að haldnir hafi verið 21 bókaðir sóknarnefndarfundir á árinu. Þess fyrir utan hélt byggingarnefnd fjölda funda með bæjaryfirvöldum og arkitektum. Sama má segja um Sigurjón Erlingsson sem hélt utan um uppbyggingu nýs kirkjugarðs, en lokaúttekt á þeim framkvæmdum fór fram 2. október.

Ómældar stundir fóru síðan í fyrrgreind sameiningarmál og í framhaldi af því prestamál og fl. sem ekki er enn búið að útkljá, en þar sem áhugasamir geta flett upp á öllum fundargerðum Sóknarnefndar Selfosskirkju á heimasíðu kirkjunnar: selfosskirkja.is og þar undir flipanum Sóknarnefnd má sjá fundargerðir frá 1953 til þessa dags, ætla ég ekki að tjá mig frekar um þau málefni hér.

Mig langar að biðja sr. Óskar sem starfaði sem sóknarprestur umrætt ár djákna og Ninnu Sif að segja okkur frá annarri starfsemi kirkjunnar.

Sr. Óskar H. Óskarsson flutti skýrslu um starfið á sl. ári. Þar kom m.a. fram að messur voru milli 60 og 70. Skírnir voru 71, fermingar 92ja barna og útfarir 20. Þá gat hann um fræðsluerindi sem flutt voru af starfsfólki kirkjunnar. Hann þakkaði sóknarnefnd gott samstarf.

Þvínæst flutti Ninna Sif Svavarsdóttir æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju skýrslu um starfið en hún hóf störf 1. sept. sl. með 60% stöðugildi í Selfosssókn, en 40% fyrir Árnesprófastdæmi sem var. Verksvið hennar er umsjón barna og unglingastarfi í kirkjunni sem er sunnudagaskóli, (40 – 50 manns) kirkjuskóli fyrir 1. – 4. bekk, TTT-starf 10 til 12 ára starf og æskulýðsfélaginu, sem er fyrir unglingana í 8. – 10. bekk.

Eygló Gunnarsdóttir djákni flutti ágrip af starfi sínu sl. ár. Hún er í samstarfi við Ninnu Sif í æskulýðsstarfinu, hefir aðstoðað prestinn sr. Óskar H. Óskarsson í messunni og leitt guðsþjónustur nokkrum sinnum. Hún sér um foreldramorgna einu sinni í viku, heimsækir Dagdvöl aldraðra, sér um 12-spora andlegt ferðalag í kirkjunni ásamt Margréti Scheving og Þorvaldi Halldórssyni. Þá hefur Eygló umsjón með tíðasöng á morgnana, fjóra morgna í viku og margt fleira.

  1. Guðmundur Búason gjaldkeri las og skýrði reikninga.
    Rekstrarreikningur Selfosskirkju:                          Tekjur:43.878.745,-kr.
    Gjöld.   43.749.379,-kr.
    Tekjuafgangur með fjármunartekjum                   4.357.547, – kr.
    Efnahagsreikningur:                                     Eignir alls:            325.017.556,kr.
    Þar af eru bankainnistæður og sjóðir                      43.664.725,-kr.

    Rekstrarreikn. Hjálpasjóðs Selfosskirkju                              Tekjur:      307.553,-kr.
    Gjöld :        230.000, kr.
    Efnahagsreikn. Hjálparsjóðs.                    Eignir alls :           3.946.771,-kr. (Bankainnist.)

    Rekstrarreikn kirkjugarðs:                                         Tekjur:8.766.256,-kr.
    Gjöld : 22. 861.913,kr.  Þar af vegna stækkunar á kirkjugarði 16.025.916,- kr.                               Gjöld umfr. tekjur: 11.162.214,-kr.
    Efnahagsreikningur kirkjugarðs = bankainnistæður og sjóðir     20. 657.717,-kr.
    Reikningar áritaðir af kjörnum skoðunarmönnum, : Kristínu Pétursdóttur og Guðmundi Theódórssyni. Auk þeirra undirritaði sóknarnefnd reikningana.

Umræður um reikninga: Sr. Úlfar Guðmundsson rifjaði upp þá tíma þegar hann hóf störf sem prestur, þá voru kirkjurnar tekjulitlar og miklar breytingar hefðu orðið til hins betra á síðari árum í fjárhagsmálum. Þá sagði sr. Úlfar að Selfosskirkja hefði ótvírætt forystuhlutverk í prófastsdæminu.

Eysteinn Ó. Jónasson taldi fjárhagsstöðuna góða og aldrei væri framkvæmt nema eiga fyrir framkvæmdakostnaði.

Ingimar Pálsson þakkaði fyrir góða framsetningu reikninga, sem væru til sóma.
Síðan voru reikningar bornir upp og samþykktir samhljóða.

  1. Starfsemi héraðsnefndar og héraðsfunda. Eysteinn Ó. Jónasson lagði fram og skýrði fundargerð Héraðsfundar Árnesprófastsdæmis frá 28. mars 2009. Fundargerðin er 8 blaðsíður.
  2. Ákvörðun um framkvæmdir og framtíðarskuldbindingar. Guðmundur Búason lagði fram framkv. áætlun fyrir 2010. Framkvæmdir í kirkjugarði 13. millj. Viðhald og endurbætur v. kirkju 3.600.000,- Nýframkvæmdir við kirkju 25.000.000,-kr.
    Sigurjón Erlingsson ræddi um framkvæmdir. Sagði að nýi kirkjugarðurinn væri tilbúinn til notkunar. Í honum eru tæplega 1000 grafarstæði auk um 200 duftreita. Eftir er að leggja slitlag á akstursbraut, hlaða lágan grjótvegg á langhlið ármegin, setja upp bekki ofl. þá ræddi hann um röðun á framkvæmdum við nýbyggingu við safnaðarheimili og síðan innanhúsbreytingar.
    Framkvæmdaráætlun samþykkt samhljóða.
  3. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga. Endurkjörin voru þau Kristín Pétursdóttir og Guðmundur Theódórsson.
  4. Önnur mál.
    Sólrún Guðjónsdóttir þakkaði sóknarnefnd fyrir vinsemd í sinn garð, en hún var beðin að teikna kort fyrir kirkjuna. Tvö kort voru valin til prentunar. Þá benti hún á að opnanlegan glugga vantaði í skrúðhúsið og fjölga þyrfti bílastæðum.

    Jóhanna Guðjónsdóttir flutti eftirfarandi ræðu sem hún óskaði bókunar á í heild. Fer hún hér á eftir:

Ég er ósátt við vinnubrögð og framkomu sóknarnefndar Selfosskirkju eins og ég les mér til um þau á vefsíðu kirkjunnar og í héraðs- og landsmálablöðum. Miðað við starfsreglur þjóðkirkjunnar er verið að brjóta lög og leggja sóknarprestinn hér í einelti í þessari helgu sóknarkirkju minni. Sóknarprestur gegnir ótvíræðu forystuhlutverki og hann á að hafa forystu um verkaskiptingu á milli prestanna og hann á samkvæmt skýru ákvæði (5. gr.) starfsreglna um presta (nr. 735 frá 1998) að hafa forustu um starf kirkjunnar. Þar segir orðrétt: „Sóknarprestur skal vera í fyrirsvari um kirkjulegt starf (safnaðarstarf) í sóknum prestakalls síns og hafa forystu um mótun þess og skipulag.“ Að auki gilda ein lög um stöðu, stjórn og starfshætti kirkjunnar og þau er nr. 78/1997. Það er augljóst hverjum sem les fundargerðirnar á netinu að sóknarnefndin hefur kosið að líta fram hjá því að hingað er kominn er sóknarprestur með forystuhlutverk að lögum og ver að fá hefðbundna starfsaðstöðu og vera sóknarfólki tiltækur með hefðbundnum hætti. Ég hef unnið með börnum, unglingum og ungu fólki og veit því mæta vel hvað einelti og ofbeldi er. Mér finnst ég lesa í gegnum fundargerðir og yfirlýsingar formanns sóknarnefndar í blöðum að augljóst einelti er í gangi gegn sóknarpresti okkar. Það er mjög alvarlegt mál. Sóknarnefnd sem hagar sér með þessum hætti á að segja af sér þegar í stað.

Ég hef haft samband við Ragnhildi Benediktsdóttur skrifstofustjóra á Biskupsstofu og beðið hana að útskýra frasann í auglýsingunni um prestsstarfið: prestur hafi sérstakar skyldur við Selfosskirkju. Hennar svör eru skýr, það að prestur hafi sérstaka skyldur við Selfosskirkju þýðir að meiri áhersla sé lögð á þjónustu við íbúa Selfosssóknar vegna þess hve fjölmenn hún er miðað við íbúafjölda sveitanna sem tilheyra nú prestakallinu. Að sjálfsögðu gildir nákvæmlega hið sama um störf sóknarprestsins. Hann þarf líka að hafa í huga fjölmennið í bæjarfélaginu og fámennið í sveitinni. Þeir þurfa saman, sóknarprestur og prestur, að huga að öllum sóknarbörnum sínum þó augljóslega hljóti mestur tími að fara í stærstu sóknina.

Mitt mat er að vegna slælegra vinnubragða sé sóknarnefnd ekki hæf til að halda áfram störfum. Eftir lestur fundagerða sóknarnefndar á vefsíðu kirkjunnar hef ég komist að þeirri niðurstöðu að innan nefndarinnar hafi í raun, með árunum, orðið til sterkt samstarf um rangar áherslur og lokað samfélag sem lifir í allt öðrum hugarheimi en hinn almenni borgar hér á Selfossi. Samstarfið hefur að mínum dómi ekki falið í sér gagnrýna umræðu nefndarmanna auk þess sem áherslu hefur skort á hvað sé sókninni og hennar sóknarbörnum fyrir bestu. Samstarfið hefur greinilega farið að snúast um vald og nú virðist aðalsmerki nefndarinnar vera valdníðsla og einelti sem á ekkert skylt við kristið þjónustuhlutverk þjóðkirkjunnar.

Spurningar mínar til þessa fundar eru eftirfarandi:

  1. Af hverju er vefsíða Selfosskirkju uppfærð vikulega en það er ekki uppfært að við höfum eignast nýjan sóknarprest og nýjan prest?
  2. Af hverju eru fundargerðir sóknarnefndar skráðar með mismunandi hætti (6. des., 13. des. og 14. des.) þ.e. sumar eru skráðar með stóru letri á meðan aðrar eru skráðar með hefðbundnu letri? Er sá sem skráir fundargerðirnar með þessu að lýsa eigin háherslum og mati?
  3. Eftir hvaða lögum fer Björn Gíslason sóknarnefndarmaður þegar hann segist, þann 28. feb. ekki ætla að ræða um starfsaðstöðu prestanna fyrr en búið er að skrifa undir samstarfssamning?
  4. Í hvaða starfsreglum kemur fram að undirritun samstarfssamning sé forsenda þess að sóknarprestur fái starfsaðstöðu í kirkjunni?
  5. Af hverju hefur Björn ekki gert sömu kröfur til nýs prests – þ.e. að hann hafi undirritað samstarfssamning áður en hann fær afhenta starfsaðstöðu sóknarprests:
  6. Hvernig getur Guðmundur Búason ákveðið, málefnalega og kristilega, að aðeins annar prestanna, hinn nýi prestur, sé þess verður að hafa afnot að hinni hefðbundnu starfsaðstöðu sem hefur mjög skýran sess í hugum Selfyssinga?
  7. Hvernig getur sóknarnefnd komið svona misjafnlega fram við nýju prestana okkar? Gerir hún ekki ráð fyrir að þeir séu Guðs þjónar sem geti unnið saman og deilt húsakynnum þar til aðrar framtíðarlausnir leysa vandann?
  8. Hvers vegna ákveður sóknarnefnd þann 28. feb nýjan framtíðarfundartíma fyrir sóknarnefndina án samráðs við nýjan sóknarprest?

Í rauninni gæti ég spurt margra fleiri spurninga um framgöngu sóknarnefndar á liðnum vikum og mánuðum. Ég trúi að aðrir verði til þess að draga margt fram í dagsljósið sem ég kem ekki inn á hér á næstu vikum. T.d. þarf að athuga vel hvert samband afleysingaprestsins, sr. Óskars, sem nú er orðinn prestur, hefur verið við þá ótrúlegu atburðarás sem við okkur hefur blasað.

Ég óska eftir að þetta álit mitt og allar spurningarnar verði færðar til bókar.

Magnús Axelsson ræddi um stöðu mála í Selfosssöfnuði. Hann kvaðst hafa verið í Fríkirkjunni í Reykjavík en væri nýlega fluttur til Selfoss. Hann skoraði á prestana að skapa einingu í sókninni.

Guðmundur Búason ræddi um skrifstofumál prestanna vegna ummæla Jóhönnu Guðjónsdóttur í 4. lið spurninga hennar. Sagði að ákvarðanir um starfsaðstöðu prestanna væru teknar sameiginlega af sóknarnefnd. Hann einn hefði ekkert sjálfstætt vald í þessu efni frekar en öðru.

Sólrún Guðjónsdóttir gagnrýndi Jóhönnu fyrir málflutninginn. Kvaðst aldrei hafa séð hana, hvorki fyrr né síðar í kirkju eða kirkjustarfi.

Björn Gíslason ræddi um skrifstofumálin vegna spurningar Jóhönnu í 3. lið spurninga í ræðu hennar. Björn skýrði sína afstöðu.

Þórður Árnason lýsti stuðningi við sóknarnefndina og spurði síðan um samstarfssamning milli prestanna.

Sr. Úlfar Guðmundsson taldi að sum orð sem fallið hefðu væru óheppileg. Vinna þyrfti úr málum og treysta því að allt fari vel.

Sr, Óskar H. Óskarsson sagði að samstarfssamningur væri kominn til prófasts.

Sigurjón Erlingsson gerði athugasemdir við ræðu Jóhönnu Guðjónsdóttur og mótmælti fullyrðingum um einelti af sinni hálfu í garð sóknarprests, en fullyrt er að sóknarnefnd hagi sér þannig.

Valgeir Jónsson gagnrýndi að formaður sóknarnefndar og kirkjuvörður væru svilar og kirkjukórsmenn ættu ekki að vera í sóknarnefnd. Það væri ekki í lagi „að fámennir aðilar í kirkjunni ráði.“

Ingimar Pálsson saknaði þess að ekki var bókað á síðasta almenna safnaðarfundi meira af því sem sr. Úlfar Guðmundsson sagði þar. Þá lagði hann til að tímamótaræða sr. Kristins Ág. Friðfinnssonar í kirkjunni fyrr um daginn yrði sett á vefsíðu kirkjunnar. Bað einnig um að lög og reglur séu virtar.

Kjartan Björnsson kvaðst vona að með þessum umræðum verði loftið hreinsað. Þetta væru erfiðið tímar. Sækja verður fram kirkjunni okkar til heilla.

Hafsteinn Þorvaldsson taldi ekki rétt hjá Jóhönnu Guðjónsdóttur að um einelti gegn sóknarpresti væri að ræða. Hún hefði með málflutningi sínum „kastað sprengju inn á fundinn.“ Ná yrði saman um öflugt kirkjustarf.

Sólrún Guðjónsdóttir tók undir það sem Hafsteinn sagði og bað guð „að hjálpa því fólki sem aldrei lætur sjá sig hér en kemur svo með þessi leiðindi.“

Guðmundur Búason ræddi um að taka þyrfti ákvörðun um hvort ræður prestanna yrðu settar á vef kirkjunnar. Kvað hann að „tímamótaræður“ sem Ingimar Pálsson minntist á heyrðu sóknarbörn Selfosssafnaðar um hverja helgi. Síðan ræddi hann um sameiningar prestakalla og að grundvallarmunur væri á sameiningunni hér og annars staðar þar sem í sameiningu hér fælist enginn sparnaður.

Margrét Scheving lagði til að ræða sr. Kristins færi inn á vefinn. Fundarstjóri bar síðan undir atkvæði hvort ræður prestanna verði birta á vefnum og var það samþykkt samhljóða af fundarmönnum. (Auka athugasemd EÓJ: fram kom þó að það væri að sjálfsögðu mál prestanna hvort þeir gerðu slíkt en ekki fundarins.)

Eysteinn Ó. Jónasson svaraði 2. lið í spurningum Jóhönnu Guðjónsdóttur um hvers vegna væri mismunandi leturstærð á fundargerðum sóknarnefndar á vefsíðu kirkjunnar. Hann kvaðst sjá um innfærslur fundagerða á vefinn og væri allt skráð með sama letri. Þjónustufyrirtækið sem sér um grunninn uppfærði grunninn vegna tapaðra gagna og við nýja uppfærslu varð eitthvað um breytingar leturstærða.

Fleiri tóku ekki til máls og sleit fundarstjóri fundi kl. 16:00

 

Fundur sóknarnefndar 15. mars 2010 í fundarherbergi sóknarnefndar og skrifstofu prests, hófst kl. 18:15.

Formaður sóknarnefndar Eysteinn Ó. Jónasson setti fund.

Fundarefni: Skrifstofumála prestanna með vísun til 1. liðar í fundargerð sóknarnefndar frá 8. mars sl. þar sem segir: „Sóknarnefnd samþykkir að athuga málið nánar.“

„Sóknarnefnd ítrekar það tilboð sitt til sóknarprests að hann fái skrifstofu í rishæð safnaðarheimilis, en minnir á fyrirhugaðar breytingar á jarðhæð þar sem prestarnir hafi hvor sína skrifstofu“ Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 19:50

Allir aðalfulltrúar sóknarnefndar voru mættir og fundarritari var Sigurjón Erlingsson.

Þess má geta að í viðræðum við sóknarprest var einnig boðið upp á aðstöðu þar sem nú er skrúðhús, en ákveðið var að ráðast í framkvæmdir við vinnuherbergi presta strax að fermingum loknum og þá yrði núverandi aðstöðu prests lokað á meðan á þeim framkvæmdum stæði. Þó vonandi ekki nema í ca. 3 vikur og eftir það  hefðu báðir prestar aðstöðu hlið við hlið á jarðhæð safnaðarheimilis.  Með því að veita sóknarpresti aðstöðu í okkar kirkju auk þeirrar sem biskupsstofa hefur í áratugi veitt honum (hér á Selfossi) við hans heimili vonumst við til þess að þjónusta við sóknarbörn Selfosssóknar muni aukast um helming þar sem þeir geta þá báðir verið þeim til þjónustu a.m.k. 4 morgna í viku hverri eins og undanfarna áratugi hjá starfandi sóknarpresti.   Auðvitað hefur alltaf verið hægt að nálgast þeirra þjónustu þess fyrir utan á neyðarstundu í gegnum farsíma þeirra. (Innskot EÓJ umsjónarmanns vefsíðu).

 

Fundur sóknarnefndar 20. apríl 2010,
haldinn í skrifstofu prests í safnaðarheimili. Hófs kl. 17:00

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund og óskaði eftir því að starfsmenn sem mættir eru á fundinn segðu frá starfi sínu.

  1. Ninna Sif Svavarsdóttir taldi að æskulýðsstarfið hefði gengið vel og sagði frá ýmsum þáttum þess bæði á Selfossi og í prófastdæminu.
    Edit Molnár kórstjóri sagði frá starfsemi barna og unglingakóranna en 87 eru nú starfandi í þeim. Starfið hefði gengið vel.
    Jörg Sondermann organisti sagði frá kórstarfinu og m.a. að mætingar alls í kórstarfinu væru um 126 á árinu.
    Eygló Gunnarsdóttir djákni sagði frá starfi sínu og vitnaði í ársskýrslu sína frá síðasta aðalsafnaðarfundi.
    Gunnþór Gíslason kirkjuvörður ræddi um að þörf væri á að endurnýja messuklæði. Þá sagðist hann vera að vinna að sléttun leiða í kirkjugarði í samráði við aðstandendur..
    Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson benti á að þegar hugað er að kaupum á nýjum messuklæðum væri ástæða til að athuga að kaupa frekar íslensk klæði.
  2. Eysteinn, ásamt Guðmundi Búasyni form. bygg. nefndar kynnti framlagða fundargerð byggingarnefndar kirkjunnar frá 9. apríl sl. en fundargerðinni fylgdi teikning af fyrirhuguðum innanhússbreytingum að gera tvö skrifstofuherbergi fyrir prestana. „Sóknarnefnd samþykkir framkomnar hugmyndir byggingarnefndar og að stefnt skuli að því að fá Þórð Stefánsson til að framkvæma verkið, enda sé það ekki af þeirri stærðargráðu að ástæða sé til útboðs.“
  3. Eysteinn las bréf frá biskupi Íslands dags. 5. febr. 2010. Efni: Átak um skil skjala sóknarnefnda til héraðsskjalasafna.
  4. Sigurjón Erlingsson lagði fram skrá sem hann hefir gert um gjafir framkvæmdir og annað sem Selfosskirkju hefir bæst frá því að síðasta skrá varð gerð 25/3 2001.
  5. Eysteinn spurðist fyrir um það hjá sóknarpresti hvað liði samstarfssamningi prestanna. Sr. Kristinn sagði að málið væri nú í höndum sr. Jóns Baldvinssonar vígslubiskups á Hólum og niðurstöðu væri vonandi að vænta sem fyrst.
  6. Samkomulag var gert milli ritara, sóknarnefndar og sóknarprests um að út falli hluti setningar í fundargerð 8. mars sl.

Fundi slitið kl. 19:35 og eftirfarandi undirrituðu fundargerð: María Kjartansdóttir, Eygló Jóna Gunnarsdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Kristinn H. Friðfinnsson, Guðmundur Búason, Björn Ingi Gíslason, Jörg E. Sondermann, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Eysteinn Ó. Jónasson, Sigríður Bergsteinsdóttir.

Séra Óskar H. Óskarsson Þórður Stefánsson og Gunnþór Gíslason urðu að víkja af fundi skömmu fyrir fundarlok. Þá véku Ninna Sif og Edit Molnár af fundi eftir að hafa gert grein fyrir starfi sínu.

Fundarritari var Sigurjón Erlingsson.
 

Fundur sóknarnefndar í rislofti safnaðarheimilis 18. maí 2010. Hófst kl. 17:00.

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund. Hann sagði frá :

  1. Gjafabréfi fyrir altarisklæði sem Sveitarfélagið Árborg afhenti á 50 ára afmæli Selfosskirkju. Gjöfin hefir enn ekki verið afhent. Þá var lagt fram gjafabréf til minningar um heiðurshjónin sr. Sigurð Pálsson og Stefaníu Gissurardóttur frá 50 ára fermingarbörnum hans frá 8. maí 1960. Bréfinu fylgja kr. 27.000,-kr. sem Björn Gíslason afhenti fh. gefenda.

Edith Molnár þakkaði fyrir stuðninginn vegna ferðalags unglingakórsins og færði fundinum konfektkassa.

  1. Eysteinn las bréf frá prófasti Halldóru J. Þorvarðardóttur um þátttöku prófastdæmisins í launakostnaði æskulýðsfulltrúa sem er 40%. Héraðssjóður mun greiða skv. þessu til maíloka ársins 2011.
  2. Þá las Eysteinn upp „Ákvörðun biskups um skiptingu starfa í Selfossprestakalli.“ sem fer hér á eftir.:

Ákvörðun biskups um skiptingu starfa í Selfossprestakalli.

Sóknarprestur og prestur eru samstarfsmenn í sóknum prestakallsins og ber að haga þjónustu sinni og samstarfi í samræmi við það. Báðir lúta þeir tilsjón prófasts og biskups.

Sóknarprestur er í fyrirsvari um kirkjulegt starf í sóknum prestakallsins og hefur forystu um mótun þess og skipulag. Í fyrirsvari og forystu sóknarprests felst ekki stjórnunarvald eða boðvald yfir presti.

Sóknarnefnd er ásamt sóknarpresti í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórnvöldum og einstökum mönnum og stofnunum.

Séu prestar fleiri en einn í prestakalli skulu þeir undir forustu sóknarprests skipta með sér störfum í samræmi við almennar starfsreglur þar að lútandi.

Í samræmi við starfsreglur um presta hefur prófastur hlutast til um að sóknarprestur og prestur í Selfossprestakalli skipti með sér verkum. Samkomulag um skiptingu starfa prestanna mun liggja fyrir í aðalatriðum en ágreiningur er um umsjón með daglegu kirkjustarfi við Selfosskirkju.

Þar sem ekki hefur náðst samkomulag þar að lútandi hef ég ákveðið:

– að prestur hafi umsjón með daglegu kirkjustarfi í Selfosskirkju samkvæmt árlegri áætlun um safnaðarstarfið og á grundvelli samkomulags um skiptingu starfa

– að prestur undirbúi starfsmannafundi í Selfosskirkju í samráði við sóknarprest og sóknarnefnd.

Miðað við fólksfjölda og skiptingu sóknarbarna milli sókna í prestakallinu er eðlilegt að prestarnir hafi báðir skrifstofu í safnaðarheimili Selfosskirkju.

Reykjavík, 11. maí 2010

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands

 

Sr.

Óskar tjáði sig um úrskurð biskups og hvernig hann hyggst rækja þær skyldur sem ákvörðun biskups felur í sér.

Sr. Kristinn tók einnig til máls um úrskurðinn.

Umræður voru síðan um úrskurð biskups, kirkjustarfið og blaðaskrif að undanförnu.

  1. Gunnþór kirkjuvörður kynnti ýmsa liði sem í framkvæmd eru í viðhaldi húsa og lóðar, skv. samþykktri fjárhagsáætlun.
  2. Þórður Stefánsson sagði frá stöðu framkvæmda við breytingar á skrifstofuhluta safnaðarheimilis en Þórður vinnur verkið ásamt öðrum verktökum í hinum ýmsu greinum. Búið er að saga dyraop að skrifstofurými og fjarlægja vegghluta þar framan við. Hringstigi í horni hefir verið fjarlægður og veggur kringum hann. Búið að bora fyrir tveimur burðarsúlum niður á klöpp, undir steyptan vegg sem kemur kringum nýjan brunastiga.
  3. Opnun tilboða 3. maí sl. á skrifstofu kirkjuvarðar í grafartöku og duftreiti. Viðstaddir: Gunnþór Gíslason, Sigurjón Erlingsson og bjóðandi Heimir Ólafsson.

    Tilboð 1. G.B.S. gföfuþjónusta (Guðm. Sigurðsson) gröf 42.500,-kr Duftreitur 25.000,- kr.
    Tilboð 2. Heimir Ólafsson gröf 160.000,- kr. Duftreitur 60.000,- kr.
    Allar tölur með vsk. Gengið var að tilboði G.B.S. gröfuþjónustu.

Sr.Kristinn yfirgaf fundinn skömmu fyrir fundarlok og skrifaði því ekki undir, en aðrir fundarmenn voru: Óskar Hafsteinn Óskarsson, Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Björn Ingi Gíslason,  Gunnþór Gíslason, Þórður Stefánsson, Sigurlín Guðný Ingvarsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir.

 

 

Fundur sóknarnefndar á baðstofulofti safnaðarheimilis 18. ágúst 2010.
Hófst kl. 17:00.

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund.

  1. Rætt um starfsmannafundi í kirkjunni. Samþykkt að stefna að fundi sóknarnefndar með starfsfólki kirkjunnar sem fyrst.
  2. Umræður voru um framkvæmdir við kirkju og safnaðarheimili sem nú standa yfir.
    Byggingarnefnd kirkjunnar þeir Guðmundur Búason, Þórður Stefánsson og Sigurjón Erlingsson lögðu fram fundargerðir 13. – 18. fundar nefndarinnar, sem haldnar voru á tímabilinu 6. maí – 12. ágúst. Þar kom m.a. fram: Á fundi 9. júní var ákveðið að auglýsa útboð á nýbyggingu milli turns og safnaðarheimilis. Á fundi 5. júlí voru tilboð lögð fram þau voru.:
  3. Vörðufell – Valdimar Bjarnason                         Kr. 7.018.750,-
    2.      Smíðandi                                                           –     8.015.613,-
    3.      Selárbyggingar ehf. – Hákon Gunnlaugsson-             8.998.230,-
    4.      Selhús – Baldur Pálsson                                     –     9.193.875,-
    5.      T.A.P. – Agnar Pétursson                                   –     9.738.401,-
    6.      Byggingafélagið Laski ehf.                                   –   11.984.505,-

Kostnaðaráætlun Verkfræðistofu Suðurlands er     –            9.367.300,-
Samþykkt að taka tilboði Vörðufells sem er um 75% af kostnaðaráætlun. Skiladagur verksins er 20. ágúst 2010. Í verkinu er gröftur, fylling og uppsteypa.

Á fundi 23. júlí voru samþykkt húsgagnakaup í skrifstofur kr. 1.777.635,- .

Verkstaða 18. ágúst: Nýbygging – verið er að fylla í undir steypingu gólfplötu.

Skrifstofuálma: Eftir er að leggja parket á gólf og setja í hurðir, en afhending hurða tefst til næstu mánaðarmóta þar sem nýsmíðaðar hurðirnar brunnu í verkstæðisbruna Selós í sumar og verður að smíða nýjar. Verðtilboð eru að koma inn í;  glugga, hurðir, gler og þakgerð nýbyggingar.

Fundinn sátu: Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Björn Gíslason, Þórður Stefánsson og Sigurjón Erlingsson fundarritari. Fjarverandi voru vegna ferðalaga: Erla Kristjánsdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir og Sigríður Bergsteinsdóttir.

Fundur sóknarnefndar með presti og sóknarpresti ásamt starfsfólki Selfosskirkju í lofti safnaðarheimilis 26. ágúst 2010. Hófst kl. 19:05

  1. Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund og kynnti síðan og las upp, „Ákvörðun biskups um skiptingu starfa í Selfossprestakalli frá 11. maí 2010.
  2. Samþykkt að hafa sameiginlegan kvöldverð (grill) í félagsheimili hestamanna föstud. 3. sept. nk.
  3. Samþykkt að stefna að septembertónleikum og leita eftir stuðningi við þá. Ákveðið er að hafa aðventutónleika 2. sunnud. í aðventu.

Fundinn sátu: Eysteinn Ó. Jónasson, Hjörtur Þórarinsson, Óskar Hafsteinn Óskarsson, Kristinn Á. Friðfinnsson, Friðsemd Eiríksdóttir, Björn Ingi Gíslason, Sigríður Bergsteinsdóttir, Sólrún Guðjónsdóttir, Kristinn Pálsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Jörg E. Sondermann, Gunnþór Gíslason, S. Guðný Ingvarsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

Fundi slitið kl. 19:25

Fundur sóknarnefndar í rislofti safnaðarheimilis 19. sept. 2010.
Hófst kl. 12:20.

Fundarefni er skipting á þeim tveimur skrifstofum sem nú eru tilbúnar í safnaðarheimili.

Sóknarnefnd samþykkti samhljóða að halda sig við þær teikningar sem gerðar voru og samþykkta í september 2009, þar sem ákveðið er að prestur hafi sína skrifstofu í suðurenda skrifstofuálmu, en sú skrifstofa sem merkt var djákna verði skrifstofa sóknarprests.

Fundi slitið kl. 13:00

Eftirtaldir sátu fundinn: Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Þórður Stefánsson, Björn Ingi Gíslason, Sigurlín Guðný Ingvarsdóttir auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar.

 

 

Fundur sóknarnefndar 23. sept. 2010 í rislofti safnaðarheimilis. Hófst kl. 17:00

Form. Eysteinn Ó. Jónasson setti fund. Hann sagði frá því að sl. þriðjudag voru prestunum tveimur afhentar skrifstofur sínar í safnaðarheimili. Síðan bað hann starfsfólk að segja frá starfi sínu.

  1. Ninna Sif Svavarsdóttir sagði frá æskulýðsstarfinu, barnastarfinu í kirkjunni, kirkjuskóla ofl. Þá óskaði hún eftir styrk frá Selfosskirkju til ferðar til Akureyrar á æskulýðsmót þar sem þátttakendur yrðu 30 – 40.
  2. Samþykkt samhljóða styrkur kr. 2.500,- til hvers þátttakanda.
  3. Jörg Sondermann sagði frá tónlistar- og söngmálum í kirkjunni. Fyrirhugað er að barnakór frá Berlín komi 17. október og verði með tónleika í kirkjunni. Tími tónleika verði athugaður nánar.
  4. Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson sóknarprestur dreifði á fundinum bækling: „Siðareglur þjóðkirkjunnar“. Síðan fór hann af fundi.
  5. Þórður Stefánsson sagði frá gangi mála í nýbyggingu. Verið er að slá upp fyrir útitröppum og þakefni er nær tilbúið.
  6. Eygló Gunnarsdóttir sagði frá starfi því sem hún hefur umsjón með.
  7. Sr. Óskar H. Óskarsson lagði fram starfsáætlun fyrir haustmisserið 2010 en hún er niðurstaða af 3 starfsmannafundum að undanförnu. Áætlunin nær til næstu áramóta. Sr. Óskar kynnti síðan vetrarstarfið nánar.

Fundi slitið kl. 18:00   Undir fundargerð skrifuðu: Eysteinn Ó. Jónasson, Hjörtur Þórarinsson, Óskar Hafsteinn Óskarsson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir, Gunnþór Gíslason, Jörg E. Sondermann, Þórður Stefánsson og fundaritari Sigurjón Erlingsson.

Eygló Gunnarsdóttir djákni sat einnig allan fundinn, sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson hvarf af fundi eins og nefnt hefur verið og Ninna Sif Svavarsdóttir fór er hún hafði lokið sínu erindi.

 

 

Þ I N G M Á L A F U N D U R

Kirkjuþingsfulltrúar 9. kjördæmis á kirkjuþingi, Suðurprófastsdæmi, boða hér með til þingmálafundar í Víkurskála í Vík í Mýrdal laugardaginn 25. september nk. kl. 13.30.

Á fundinum verða kynnt og rædd fyrirhuguð þingmál á kirkjuþingi, sem kvatt hefur verið saman 13. nóvember 2010. Um er að ræða mál, sem flutt verða á þinginu af hálfu kirkjuráðs, forsætisnefndar kirkjuþings og þingfulltrúa kjördæmisins.

Þingmálafundir eru nýjung í starfi kirkjuþingsfulltrúa. Þeir eru til þess ætlaðir að áhugamönnum um störf og stefnumörkun þjóðkirkjunnar gefist tækifæri til að kynna sér og ræða fyrirhuguð þingmál og hafa þannig áhrif á framsetningu þeirra og framgang á kirkjuþingi. Til þessa þingmálafundar eru sérstaklega boðaðir allir prestar og sóknarnefndarmenn Suðurprófastsdæmis en fundurinn er jafnframt opinn öðrum.

Kaffiveitingar verða á þingmálafundinum.

Með góðri kveðju og von um að sjá sem flesta.
sr. Baldur Kristjánsson, Þorlákshöfn
Margrét Jónsdóttir, Syðra-Velli I
Pétur Kr. Hafstein, Stokkalæk

 

Þingmálafundur í Vík í Mýrdal laugardaginn 25. september 2010.

Þetta var 1. þingmálafundurinn á landinu, en eins og fram kemur í fundarboðinu hér að ofan eiga þeir að gefa áhugamönnum um störf og stefnumörkun þjóðkirkjunnar tækifæri til að hafa áhrif á framsetningu þingmála kirkjuþings, en næsta þing hefur verið kvatt saman 13. nóvember n.k.

Tveir fulltrúar sóknarnefndar Selfosskirkju mættu á fundinn, þau Eysteinn Ó. Jónasson og Sigríður Bergsteinsdóttir. Hvorugur prestur prestakallsins sá sér fært að koma á fundinn og aðeins örfáir leikmenn Suðurlandsprófastsdæmis.

Eftir að sr. Kristján Björnsson sóknarprestur í Vestmannaeyjum sem situr í kirkjuráði hafði útskýrt tillögur um breytingar á þingsköpum sem leggja á fyrir þingið bað Sigríður Bergsteinsdóttir um orðið og benti á lagagreinar sem hún taldi að hefðu verið brotnar á síðasta kirkjuþingi þegar þingið ákvað sameiningu Hraungerðisprestakalls og Selfossprestakalls. Þessar spurningar vöktu nokkur viðbrögð og voru tilefni sumra breytinga kirkjuráðs einmitt settar fram vegna þessara atriða sem Sigríður benti á. Nokkur tækifæri buðust Eysteini og Sigríði til að skýra mál Selfosssóknar og var greinilegt að fundarmenn voru flestir á sama máli og fram kom í þeirra flutningi.

Tillögur kirkjuráðs eiga, ef þær ná fram að ganga á þinginu, að koma í veg fyrir sömu mistök og urðu á þinginu í nóvember 2009.

EÓJ.

 

Fundur sóknarnefndar 3. október 2010 í skrifstofu djákna í Selfosskirkju.
Hófst kl. 10:00

  1. Rædd voru ýmis mál í starfi Selfosskirkju. Framkvæmdir innan og utanhúss.
  2. S. Guðný Ingvarsdóttir lagði áherslu á að lýsing kirkjunnar utanhúss yrði bleik að lit í október. [Innskot EÓJ.: „Kom í ljós að búið var að setja bleiku „filterana“ á af krabbameinsfélaginu, en deginum öryggi höfðu slegið út kvöldinu áður. Var því snarlega kippt í liðinn].
  3. Samþykkt að greiðslur til kirkjukórs verði athugaðar í samræmi við fyrri samþykktir

Fundi slitið kl. 10:55 en fundinn sátu
Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Guðmundur búason, Sigurlín Guðný Ingvarsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir, og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

 

  1. fundur sóknarnefndar 19. október 2010 í rislofti safnaðarheimilis.
    Hófst kl. 17:00

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund.

  1. Staða byggingaframkvæmda. Guðmundur Búason lagði fram og kynnti stöðu fjármála varðandi framkvæmdir og stöðu rekstrarreiknings í október 2010.

Nýbygging og skrifstofur: Kostnaður 2009 7.281.342,-
Kostnaður í október 2010                  30.350.379,-
Samtals.: 38.117.325,-

Umræður voru um framkvæmdir. Stefnt er að því að nýbygging verði tekin í notkun síðar í haust.

Fundi slitið kl. 18:30

Þessir sátu fundinn: Sigríður Bergsteinsdóttir, Óskar Hafsteinn Óskarsson, Eygló J. Gunnarsdóttir, Eysteinn ó. Jónasson, Guðmundur Búason, María Kjartansdóttir, Björn Ingi Gíslason, Þórður Stefánsson  og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

 

 

  1. fundur sóknarnefndar í rislofti safnaðarheimilis 16. nóvember 2010.
    Hófst kl. 1700

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson setti fund. Sóknarprestur sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson boðaði forföll.

  1. Staða framkvæmda við býbyggingu. Guðmundur Búason gerði grein fyrir stöðu mála. Byggingin er nú fokheld og búið að saga þau 5 dyraop sem við eiga. Lagðar voru fram 19. – 25. fundargerð byggingarnefndar kirkjunnar. Rætt var um að stefna að því að taka nýja húsnæðið í notkun fyrsta sunnudag í aðventu 28. nóvember nk. þótt það sé ekki að öllu fullgert.
  2. Sr. Óskar H. Óskarsson sagði frá ýmsu í starfi kirkjunnar. Heimsóknir gesta, tónleika og starfið framundan.
  3. Rætt var um undirbúning að fjárhagsáætlun næsta árs. Eysteini, Guðmundi og Sigurjóni falið að athuga málið, þ.á.m. starfsmannahald ofl.

Fundi slitið kl. 1820 en eftirfarandi undirrituðu fundargerð.: Eysteinn Ó. Jónasson, Óskar Hafstein Óskarsson, María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Friðsemd Eiríksdóttir, Eygló Jóna Gunnarsdóttir, Björn Ingi Gíslason, Jörg E. Sondermann, Þórður Stefánsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

 

  1. fundur sóknarnefndar í rislofti safnaðarheimilis 16. nóvember 2010
    hófst kl. 17:00

Form. Eysteinn Ó. Jónasson setti fund. Sóknarprestur sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson boðaði forföll.

  1. Staða framkvæmda við nýbyggingu. Guðmundur Búason gerði grein fyrir stöðu mála.   Byggingin er nú fokheld og búið að saga þau 5 dyraop sem við eiga. Lagðar voru fram 19. – 25. fundargerð byggingarnefndar kirkjunnar. Rætt var um að stefna að því að taka nýja húsnæðið í notkun fyrsta sunnudag í aðventu, 28. nóvember nk. þótt það sé ekki að öllu fullgert.
  2.      Sr. Óskar H. Óskarsson sagði frá ýmsu í starfi kirkjunnar. Heimsóknir gesta, tónleika og starfið framundan.
  3. Rætt var um undirbúning að fjárhagsáætlun næsta árs. Eysteini, Guðmundi Búasyni og Sigurjóni falið að athuga málið. Þar á með tal starfsmannahald og fleira.

[Eftirfarandi innskot EÓJ um umræður eftir fund.
Þegar fundi var að ljúka um kl. 18 kom Björn Ingi Gylfason á fundinn og bar upp fyrirspurn um framkvæmd tónleikahalds á „*
Frostrósir“ sem rætt var um í lok fundar fyrir mánuði, en mönnum þótti að þarna væri kominn nýr flötur á tónleikahaldi í kirkjunni. Stefna Selfosskirkju hefur ætíð verið sú að styðja undir tónleikahald fyrir kóra úr héraði fyrir sóknarbörn og taka ekki meiri gjöld af flytjendum en bæri  við kostnaði þrifa og frágang kirkjuvarðar eftir slíkar athafnir. Þótti fundarmönnum að nú væri komið fram yfir þann þröskuld sem miðað hefði verið við og að nú þyrfti að huga hvort ekki þyrfti að setja kirkjuverði ákveðnari kosti varðandi slíkar uppákomur. Voru menn sammála um að nú yrði sóknarnefnd að koma sér saman um ákveðnara skipulag varðandi greiðslur og annað það sem að húsnæði snérist. Ákveðið að koma saman hið fyrsta og ákveða fyrirkomulag slíkra athafna.]

Fundi slitið kl. 18:20

Fundargerð undirrituðu :   Eysteinn Ó. Jónasson, Óskar Hafstein Óskarsson, María Kjartansdóttir, Guðmundur Búason, Friðsemd Eiríksdóttir, Eygló Jóna Gunnarsdóttir, Björn Ingi Gíslason, Jörg E. Sondermann, Þórinn Stefánsson, Erla Rúna Kristjánsdóttir, Sigríður Bergsteinsdóttir og fundarritari Sigurjón Erlingsson.

 

 

  1. fundur sóknarnefndar 21. desember 2010 í sal safnaðarheimilis. Hófst kl. 1705
  2. Eysteinn Ó. Jónasson form. sagði frá vígslu tengibyggingar milli turns og kirkju sem fram fór strax eftir messu og innsetningu prestanna fyrsta sunnudag í aðventu 28. nóvember. Þar sá prófastur suðurprófastdæmis sr. Halldóra Þorvarðardóttir um innsetningu og prédikun. Einnig sá hún um vígslu tengibyggingar eftir að yngri barnakór hafði sungið undir stjórn Edit Molnár.
    Formaður sóknaarnefndar flutti síðan stutt ávarp og rakti í örfáum orðum tilurð og gang framkvæmdanna. Loks tók Valdimar Bjarnason frá Vörðufelli til máls, sem sá um framkvæmdirnar, og gaf hann kirkjunni veggklukku sem nú hangir uppi í tengibyggingunni. Fjöldi kirkjugesta var viðstatt athöfnina og þáði síðan kaffi og meðlæti, sem verktakarnir buðu upp á.
  3. Við messu sl. sunnudag gáfu þau hjón Guðni Andersen og Björg Óskarsdóttir kirkjunni viðhafnarstól (antik).
  4. Eysteinn sagði frá viðræðum við starfsfólk sbr. fundargerð síðasta fundar.
  5. Rætt var um framlag Selfosskirkju í „sjóðinn góða“ sem er á vegum Rauða krossins. Samþykkt að úthluta sjóðnum úr hjálparsjóði Selfosskirkju 1% af tekjum, eða um 400 þús. kr. Einnig var samþ. að úthluta hjálparsjóði Kirkjunnar 1% af tekjum eða um 400 þús. kr.
  6.      Sr. Kristinn Ág. Friðfinnsson færði Eygló Gunnarsdóttur djákna sérstakar þakkir fyrir frábært starf við úthlutun úr hjálparsjóðum og tóku fundarmenn undir þær þakkir. Þá kom fram að ræða þyrfti frekar með hvaða hætti úthlutun úr þessum sjóðum fer fram í framtíðinni.
  7. Sr. Óskar skýrði frá því að Kristinn Jósepsson sem rekur útfararþjónustuna „Fylgd“ hefði boðist til að sjá um blóm á altari kirkjunnar í boði fyrirtækisins.

Formaður Eysteinn Ó. Jónasson flutti fundarfólki þakkir fyrir samstarfið á liðnu ári.

Fundi slitið kl. 18:01 og auk fundarritara Sigurjóns Erlingssonar sátu eftirtaldir fundinn. :

Eysteinn Ó. Jónasson, María Kjartansdóttir, Kristinn Ág. Friðfinnsson, Guðmundur Búason,
Sigríður Bergsteinsdóttir, Eygló J. Gunnarsdóttir og Friðsemd Eiríksdóttir.