Fundargerðir 1976-1989

Sóknarnefnd Selfosssafnaðar kom saman til fundar 19
mars 1976

að Hörðuvöllum 6.

Á fundi þessum var samþykkt að kirkjugarðssjóður legði fé til kaupa á innbúi í
kjallara kirkjunnar að upphæð 100 þús. krónur.

Samþykkt var einnig að styrkja Sunnudagaskólann, er starfar hvern Sunnudag allan
veturinn með allt að 35 þúsund króna framlagi. Sóknarnefnd ákvað einnig að greiða halla á tónleikahaldi kirkjukórs
Selfoss veturinn 1975 – 1976.

Þá ályktaði sóknarnefnd að beina þeim eindregnu tilmælum til Bjarna Pálssonar
byggingarfulltrúa að hann ljúki hið fyrsta frumdrögum að teikningu af
viðbyggingu við kirkjuna skv. fyrirliggjandi uppkasti, þannig að gera megi
líkan af byggingunni.

Formaður sóknarnefndar tók að sér að koma þessari orðsendingu á framfæri.

Fleira var ekki rætt á fundi þessum og var því fundi slitið. Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

Ár 1976 29. sept.

hélt sóknarnefnd Selfosskirkju fund í kirkjunni. Aðallega var rætt um hvenær hentugast þætti að hafa aðal – safnaðarfund.

Samþykkt var að fundur yrði boðaður 17. okt. að lokinni guðsþjónustu í Selfosskirkju.

Formaður sóknarnefndar Jakob Havsteen upplýsti á fundi þessum að hann hefði haft tal af Bjarna Pálssyni byggingarfulltrúa og hefði hann lofað að koma með frumdrög að tein. af viðbyggingu við kirkjuna eigi síðar en í lok Október 1976.

Samþykkt var á fundi þessum að leggja fé í girðingu meðfram gangstétt kirkjunnar, sem liggur frá Selfossvegi að aðaldyrum.

Það
skal tekið fram að beiðni um fjárframlag til þessara framkvæmda kom frá
Kvenfélagi Selfosskirkju.

Eins og fyrr segir var það einróma samþykkt. Fundi var síðan slitið. 

                                                                            ritari

Guðbjörg Sigurðardóttir.



Aðalsafnaðarfundur haldinn í Selfosskirkju eftir messu
17. október 1976.

Form. Jakob Havsteen setti fundinn og bað Guðm.
Jónsson að vera fundarstjóra og Bjarna Dagsson rita fundargerð.

Þetta gerðist á fundinum:

1.    Karl
Eiríksson las upp og skírði reikninga Selfosskirkju og kirkjugarðsins
1975. Reikningar þessir voru
endurskoðaðir og áritaðir af sóknarprestinum sr. Sig. Sigurðarsyni og gildir
það sama og fundarsamþykkt. Fundarmenn
gerðu engar athugasemdir við reikningana.

2.    Kosning. Hugborg Benediktsdóttir og Jakob Havsteen
áttu að ganga úr sóknarnefnd. Voru þau bæði endurkosin sk. uppástungu
fundarstjóra.

3.    Önnur mál.

Jakob Havsteen tók til máls og ræddi nokkuð byggingu safnaðarheimilis og
turns. Taldi hann von á teikningum sem
hægt væri að gera líkan eftir, frá Bjarna Pálssyni innan tíðar.

       Gísli
Hallgrímsson minntist á upphitun kirkjunnar. Gerði hann að tillögu sinni að sóknarnefnd athugaði hvort hitaveitan á
Selfossi vildi ekki láta kirkjunni í té hita án endurgjalds. Taldi hann að nokkur mundu dæmi þess
annarsstaðar frá að hitaveitur gerðu slíkt.

Guðmundur Jónsson talaði um að Sandvíkurbæir ættu að vera í þessari sókn hér.

Jakob Havsteen kvað sóknaarnefndina mundu athuga bæði þessi atriði.

Sr. Sigurður Pálsson sagði að fólk á Sandvíkurbæjum þyrfti að óska eftir að
færa sig í Selfosssöfnuð og Stokkseyrarsókn að samþykkja það.

Fleira ekki rætt. Fundi slitið.             Bjarni
Dagsson fundarritari.

Hér virðist ekki
hafa verið haldinn fundur í rúmt ár samkvæmt fundargerðarbók. 
(EÓJ)

Sóknarnefndarfundur var haldinn 8. nóv. (´77)

í húsnæði Iðnaðarbankans við Austurveg.

Á fundi þessum voru mættir auk formanns sóknarnefndar
3 nefndarmenn. Hugborg Benediktsdóttir tilkynnti forföll. Safnaðarfulltrúi var einnig mættur.

Tilefni fundar þessa var að ræða um hvenær unnt yrði
að hafa Aðal – safnaðarfund.

Eftir nokkrar umræður var ákveðið að halda skyldi
safnaðarfund 20. nóv. ´77 að lokinni messu í Selfosskirkju

Fleira var ekki rætt á fundi þessum.             Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.



Aðalsafnaðarfundur haldinn í Selfosskirkju eftir messu
20. nóv. 1977.

Formaður sóknarnefndar Jakob Havsteen setti fundinn og
tilnefndi fundarstjóra Guðmund Jónsson fyrrverandi safnaðarfulltrúa.

Í upphafi fundarins minntist form. á þær gjafir
sérstaklega, sem kirkjunni bárust á síðastliðnu ári. Voru það tveir veglegir kertastjakar úr
smíðajárni, er smíðaðir voru af Guðmundi Halldórssyni rennismið á
Selfossi. Gefendur voru konur úr
saumaklúbb á Selfossi, sem kalla sig „Gamli Saumaklúbburinn“ en í honum eru
eftirtaldar konur.:

Anna Eiríksdóttir, Áslaug Stephenssen, Ástríður Sigurðardóttir, Kristjana Guðmundsdóttir,
Elínborg Sigurðardóttir, Kristín Guðmundsdóttir og Laufey Lilliendalh.

Hin gjöfin var frá Kvenfélagi Selfosskirkju sem afhenti sóknarnefndinni
gjafabréf fyrir handriði, sem félagið lét gera frá bílastæði kirkjunnar
ármegin, meðfram gangstíg og tröppum, til öryggis fyrir kirkjugesti og þá ekki
hvað síst fyrir börnin, sem fjölmenna í sunnudagaskólann oft í slæmu veðri og
hálku.

Pétur Sigurðsson gaf 10,000 þús. í ljóskrosssjóð.

Formaður þakkaði þessum aðilum fyrir sýnt örlæti og
hlýhug í garð kirkjunnar.

Þessu næst vakti formaður athygli fundarmanna á
líkani, sem gert hefur verið af fyrirhugaðri nýbyggingu, sem sýnir útlit
kirkjunnar, eins og það mun verða samkvæmt tillögu uppdrætti Bjarna Pálssonar,
sem sóknarprestur og sóknarnefnd hafa fyrir sitt leiti samþykkt. Var líkan þetta til sýnis og umfjöllunar á
fundinum. 

Formaður gat þess að fljótlega á næsta ári yrði
haldinn safnaðarfundur og leitað álits og samþykkis safnaðarins fyrir framkvæmd
þessari.

Gjaldkeri kirkjunnar, Karl Eiríksson, las upp rein.
síðastliðins árs og voru þeir einróma samþ.

Önnur mál:

Stefnía Gissurardóttir kvaddi sér hljóðs og fór þess á
leit við sóknarnefndina að hún hækkaði sóknargjöldin, þar sem hún teldi þó vera
of lág. 

Mál þetta er í athugun hjá sóknarnefnd.

Fleira kom ekki fram á fundi þessum.         Fundi
slitið.     ritari Guðbjörg
Sigurðardóttir.

Eftir fund þennan kallaði formaður Jakob Havsteen
sóknarnefnd saman og tjáði henni að sökum mikilla anna sæi hann sér ekki fært
að gegna formannstöðu lengur.

Að beiðni sóknarnefndar verður hann áfram í
nefndinni. Var honum þakkað
formannsstarfið sem var vel og dyggilega af hendi leyst.

Bjarni Dagsson var einróma kosinn formaður
sóknarnefndar, en hann er sem kunnugt er í nefndinni, fundi slitið            ritari Guðbjörg Sigurðardóttir.



Fundur var haldinn í sóknarnefnd Selfoss að
Hlaðavöllum 12, 6/12 1977.

Mættir voru form. Bjarni Dagsson og ritari Guðbjörg
Sigurðardóttir. Skúli B. Ágústsson
rafvirkjameistari var einnig mættur á fundi þessum.

Vegna auglýsinga sóknarnefndar um að ekki verði
heimilað að hafa lýsingu á leiðum í kirkjugarðinum um jólahátíðina, tekur Skúli
B. Ágústsson það fram, að til sín hafi verið leitað allmargir, er óski eftir
slíkri lýsingu þar sem ástæðan fyrir auglýsingunni var sú, að sóknarnefndin
taldi öryggi mjög ábótavant við uppsetningu og frágang á ljósunum.

Skúli B. Ágústsson tekur fram að hann sé reiðubúinn að
sjá um að fyllstu öryggiskröfum þetta varðandi verði fullnægt. Af hálfu sóknarnefndar er að sjálfsögðu þá ekkert
því til fyrirstöðu. að ljós verði sett á leiði í kirkjugarðinum.

Fundi slitið,

samþykkur: Bjarni Dagsson, Skúli B. Ágústsson. (Eiginhandarundirskriftir)

                        Guðbjörg
Sigurðardóttir.

Framhald.     Formaður getur þess, að hann hafi kynnt sér að fjarstaddir
sóknarnefndarmenn séu ofangreindu sammála og munu staðfesta það síðar með
undirskrift sinni.

Samþykk ofanrituðu:
María Kjartansdóttir,   Karl
Eiríksson.

27. nóvember 1977. (Hér
er ekki rétt röð dagsetninga í bók, þar sem fundur hér að ofan er skráður í
desember þetta ár.)

Formaður sóknarnefndar Bjarni Dagsson boðaði
sóknarnefnd á fund í Selfosskirkju 27. nóv. 1977. Einn nefndarmaður var forfallaður, Hugborg
Benediktsdóttir auk safnaðarfulltrúa Gunnars Jónssonar.

Form. bar fram tillögu þess efnis, að opnaðir yrðu
hlaupareikningar í Landsbanka Íslands og Iðnaðarbanka Íslands, þar sem mönnum
er gefin kostur á að láta eitthvað af hendi rakna til styrktar kirkju
sinni. Þar sem sóknargjöld hafa ekki
gert meira en að standa undir árlegum útgjöldum, er fjárhagur því ekki til
stórræða.

Var þessi tillaga formanns einróma samþykkt.

Einnig var rætt um að reynt yrði að koma í jólablöð
Þjóðólfs og Suðurlands, mynd af kirkjunni eins og hún er í dag, ásamt mynd af
líkani fyrirhugaðra nýbyggingu kirkjunnar, sem sýnir útlit hennar eins og það
mun verða samkv. tillöguuppdrætti Bjarna Pálssonar, sem sóknarprestur og
sóknarnefnd hafa samþykkt fyrir sitt leiti.

Töldu fundarmenn að kynning þessi myndi vekja áhuga
fólks á kirkju sinni og hvetja það til umsagnar um fyrirhugaða byggingu.

Að loknum umræðum um þessi mál tók form. að sér að
koma þessu í framkvæmd.

Að þessu loknu var rætt um lýsingu í kirkjugarðinum um
Jólahátíð. Var sérstök samþykkt gjörð
þar að lútandi, sem sést hér að framan, bl. 6.
(í fundargerðarbókinni, þ.e. hér
ofar á síðunni.)

Fundi slitið,     ritari
Guðbjörg Sigurðardóttir.

Sóknarnefndarfundur, haldinn í Selfosskirkju 21.
janúar 1978.

Form. Bjarni Dagsson setti fundinn. Á fundi þessum var mætt María Kjartansdóttir,
sem varamaður Hugborgar Benediktsdóttur nefndarm., sem var forfölluð.

Úr byggingarnefnd var mættur Sverrir Andrésson. Rætt var á fundi þessum að fara fram á að
Selfosshreppur veitti fjárframlag til Selfosskirkju út af fyrirhuguðum
byggingarframkvæmdum við kirkjuna.   Af
þessu tilefni var sent bréf til Selfosshrepps er hljóðar þannig:

Sóknarnefnd
Selfosssóknar hyggst nú á þessu ári hefjast handa við fyrirhugaða viðbyggingu
kirkjunnar s.kv. teikningu Bjarna Pálssonar.

Ljóst er að mikils fjár þarf að afla til framkvæmdanna. Óskum við eftir að Selfosshreppur sem áður
veitti kirkjunni árlegan styrk, taki nú upp þráðinn að nýju með verulegu
framlagi til hennar auk annarrar aðstoðar, meðan á framkvæmdum stendur. Sóknarnefnd telur æskilegt að sem fyrst fari
fram viðræður milli nefndarinnar og fulltrúa Selfosshrepps t.d. oddvita,
sveitarstjóra auk eins eða fleiri fulltrúa varðandi erindi þetta. 

Sóknarnefnd hafði borist til eyrna að í Alþingi séu
fyrirhugaðar breytingar á skattalögum þess efnis að gjafir til menningar og
líknarmála verði framvegis ekki frádráttarbærar við álagningu skatts. 

Af þessu tilefni sendi sóknarnefndin bréf til
þingmanna suðurlandskjördæmis þess efnis:

„Sóknarnefnd Selfoss hefur frétt að fyrirhugað sé að
breyta skattalögum á þann veg, að gjafir til menningar og líknarmála verði
framvegis ekki frádráttarbærar við álagningu skatts.“

Sóknarnefndin telur þetta fráleita fyrirætlan og
leyfir sér að mælast til þess við yður hr. þingmaður, að þér beitið yður gegn
öllum tillögum er fram koma á Alþingi er ganga í þessa átt.

Þessu næst skýrði form. frá því að keyptar hefðu verið
sálmabækur í kirkjuna og voru þær fyrst notaðar á Jólum 1977.

Samþykkt var á fundi þessum að keypt yrði ryksuga í
kirkjuna þar sem sú er fyrir var orðin ónothæf.  Kvenfélag Selfosskirkju tekur þátt í þeim kaupum
ásamt kirkjunni. Að síðustu var samþykkt
að haldinn skyldi safnaðarfundur eftir messu 29/1 . Á þessum fundi verður tekin endanleg ákvörðun
um fyrirhugaða viðbyggingu kirkjunnar, fundi slitið.

                        ritari
Guðbjörg Sigurðardóttir.



Safnaðarfundur haldinn í Selfosskirkju 29/1 ´78 að
lokinni messu.

Bjarni Dagsson form. kvaddi til fundarstjóra Guðm.
Jónsson fyrrverandi safnaðarfulltrúa. Formaður setti fundinn og kynnti eina málið, er var á dagskrá, stækkun
Selfosskirkju.

Fundarstjóri gaf orðið frjálst.

Bjarni Pálsson byggingarfulltrúi tók fyrstur til máls
og lýsti viðbyggingunni í stórum dráttum og gat þess einnig að hér væri um 1900
rúmmetra byggingu að ræða. Lauslega
áætlaði Bjarni að kostnaður að grunni allrar byggingarinnar væri um 5 millj.,
þó væri erfitt að slá því föstu að svo komnu máli. 

Séra Sigurður Sigurðarson kvaddi sér hljóðs og
útskýrði fyrir fundarmönnum brýna þörf á stækkun kirkjunnar.

Hafsteinn Þorvaldsson tók síðan til máls og lýsti
ánægju sinni yfir þessum fyrirhuguðu framkvæmdum.

Einar Sigurðsson fyrrv. organisti kirkjunnar tók
síðastur til máls á fundi þessum og þakkaði áræði sóknarnefndar fyrir að ráðast
í þessar framkvæmdir og óskaði henni heilla í starfi.

Á fundi þessum var til sýnis líkan af kirkjunni og
viðbyggingunni sem sýnir útlit hennar eins og það mun verða samkvæmt
tillöguuppdrætti Bjarna Pálssonar.

Var tillaga þessi samþykkt með öllum greiddum atkvæðum
jundarmanna og ákveðið að hefjast handa við byggingu þessa í vor.

Eftirtaldir menn voru kosnir í
byggingarnefnd:      Sigurður
Ingimundarson

Hafsteinn
Þorvaldsson

Valdimar
Þórðarson

Stefán
Jónsson Tryggvagötu 22

Steingrímur
Ingvarsson.

Þess skal getið að Sverrir Andrésson er
áður var í byggingarnefnd gaf ekki kost á sér.

Fleira kom ekki fram á fundi þessum, og var því fundi
slitið.          Guðbjörg Sigurðard.
ritari.

Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 4. maí
1978.

Formaður Bjarni Dagsson setti fundinn. Til umræðu var stækkun kirkjunnar eða
safnaðarheimilis. Lögð var fram
teikning, sem þótti er grannt var skoðuð ekki fullnægjandi. Stækkun sú er fundarmenn voru sammála um var
einróma samþykkt.

Einnig var samþykkt að kaupa Orgel, er verið hefur í
Hrayngerðiskirkju í Kapellu nýja spítalans á Selfossi.

Þá var einnig samþykkt að kaupa allt að 20 stóla, í
kapellu spítalans. Kaupverð orgelsins er
600.000,- kr.

Fleira var ekki rætt á fundi þessum. Fundi slitið, ritari Guðbjörg Sigurðardóttir.



Sóknarnefndarfundur var haldinn í Selfosskirkju að
lokinni messu 16. Júlí 1978

Form. Bjarni Dagsson setti fundinn.

Aðalefni fundarins var ráðning nýs
kirkjuhaldara.Magnús Jónasson sem um árabil hefur haft umsjón með kirkjunni
bæði sem meðhjálpari og umsjónarmaður kvaðst sökum heilsubrests ekki öllu
lengur geta gengt því starfi. Þetta
starf hefur hann rækt af stakri trúmennsku og umhyggju.

Karl Eiríksson gjaldkeri kirkjunnar var kjörinn í hans
stað. Fyrst um sinn munu þeir hjálpast
að, eða skipta með sér verkum. Fleira
kom ekki fram á fundi þessum.

Mættir voru á fundinn auk formanns, séra Sigurður
Sigurðarson, Karl Eiríksson, Guðbjörg Sigurðardóttir.   Hugborg Benediktsdóttir og Jakob Havsteen
vouru forfölluð. María Kjartansdóttir
mætti sem varamaður.                     Guðbjörg Sigurðardóttir.

Fundur í Sóknarnefnd Selfosskirkju haldinn 24. sept.
1978.

Samþykkt var að fá lán úr kirkjugarðssjóði til greiðslu
á málningarvinnu og málningu og til byggingarnefndar vegna viðbyggingarinnar, 2
milljónir í hvorn stað eða alls 4 millj. úr sjóðnum.

Unnið var að viðhaldi Selfosskirkju í ágúst og sept.
síðastliðinn. Skal hér nefnt það
helsta.:

Þak kirkjunnar neglt að nýju með sverari þaksaum,
þakið skrapað og tvímálað dökkgrátt. Settar voru nýjar þakrennur, rennubönd og niðurföll, allt málað fyrir
uppsetningu. Allar útihurðir skrapaðar
og lakkaðar utan og innan. Gluggar
málaðir utan og krossinn á kirkjunni málaður. Í forstofu var lakkað gólfið og málaður innri veggur.

Inni í kirkjunni voru allir bekkir skrapaðir og
lakkaðir, einnig lakkaður stigi á söngloft.

Páll Árnason málarameistari Selfossi sá um málningarvinnu.

Smiður var Tómas Magnússon Sandvík á vegum Guðmundar Sveinssonar
byggingarmeistara Selfossi.

Skal þeim þökkuð vel unnin störf.

Kostnaður við vinnu og málningu: 1.094.889,- kr.

Þess skal getið að Steingrímur Ingvarsson form.
byggingarnefndar er gjaldkeri byggingarsjóðs.

Jólakort hafa verið prentuð að upplagi 5.000 st. til
ágóða fyrir kirkjubyggingum.

Á kortunum er mynd af talk (?) Svövu. „Móðir og barn.“



 

Laugardaginn 16. sept. 1978 kl. 10 fh.

komu saman við Selfosskirkju í fegursta veðri,
sóknarnefnd og byggingarnefnd kirkjunnar ásamt Bjarna Pálssyni
byggingarfulltrúa, Guðmundi Sveinssyni byggingarmeistara,

Sr. Sigurður Sigurðarsyni og Sr. Sigurði Pálssyni vígslubiskupi.

Tilefnið var að hefja framkvæmdir við byggingu
Safnaðarheimilis og Turns við kirkjuna.

Safnaðist fólkið saman við norðvesturhorn væntanlegs safnaðarheimilis. 

Voru prestar klæddir messuskrúða og bar Sr. Sigurður
Sigurðarson sóknarprestur kross fyrir fólkinu. Sr. Sigurður Pálsson hélt stutta ræðu um nauðsyn byggingarinnar, las úr
ritningunni og flutti bæn. Á eftir sungu
viðstaddir sálminn „Son guðs ertu með sanni.“

Þá bað Sr. Sigurður Pálsson form. byggingarnefndar
Steingrím Ingvarsson að taka fyrstu skóflustunguna að byggingunni.

Að því loknu kom stór grafa og tveir vörubílar frá
Selfossbæ og byrjað var að grafa fyrir.

Prestfrúin Arndís Jónsdóttir bauð viðstöddum til
kaffidrykkju á heimili prestshjónanna að Norðurbæ.

Aðalsafnaðarfundur haldinn í Selfosskirkju að
aflokinni messu. 18. okt. 1978.

Formaður Bjarni Dagsson setti fundinn og útskýrði
fyrir fundarmönnum hina nýju viðbyggingu. Gat hann þess einnig að form. byggingarnefndar Steingrímur Ingvarsson
teiknaði járnateikninguna.

Síðan las Karl Eiríksson reikninga kirkjunnar fyrir
árið 1977 og voru þeir einróma samþykktir. Að því loknu fóru fram umræður um hækkun sóknargjalda. Séra Sigurður Sigurðarson tók til máls og
taldi að við ættum að viða okkar sóknargjöld við það sem gerist í Reykjavík því
margar sóknir þar eru jafnstórar Selfosssókn.
Var síðan samþykkt með öllum greiddum atkv. að fela sóknarnefnd að
ákveða á næsta fundi sínum hækkun sóknargjalda.

Orðið var gefið laust og bað Guðmundur Jónsson um
orðið. Sagði hann það alltaf hafa verið
sitt brennandi áhugamál, turn við kirkjuna og hljómmiklar kirkjuklukkur.

Taldi Guðmundur það kjörið tækifæri fyrir stóru fyrirtækin á staðnum, að leggja
eitthvað fé af hendi í þær framkvæmdir.

Ólafur Jónsson frá Lækjartúni tók einnig til
máls. Spurðist hann fyrir um hvort ekki
væri möguleiki á því að þeir sem byggju út á Árbæ, yrðu áfram í
Selfosssöfnuði. En sem kunnugt er hafa
nokkrir úr Selfosssöfnuði flust út að Árbæ, sem tilheyrir Ölfushreppi og á sá
hreppur kirkjusókn að Kotströnd.

Bjarni Dagsson svaraði því til að hann hefði rætt
þetta við biskup en það yrðu þá allir sem einn sem búa á þessu svæði að sækja
um inngöngu í söfnuðinn.

Fleiri tóku ekki til máls og var því fundi slitið.          Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.



Sóknarnefndarfundur í Selfosskirkju 6. des. 1978.

Aðalefni fundarins var að ákveða sóknargjöldin.

Eftirfarandi var samþykkt:

1.    Sóknarnefnd
Selfoss sækir hér með um leyfi til að hækka sóknargjöld fyrir árið 1978 3000
kr. pr. mann.

2.    Sóknarnefnd
Selfoss, fer þess á leit við Bæjarstjórn Selfossbæjar að sóknargjöld fyrir árið
1979 verði innheimt samhliða og útsvör bæjarins.

3.    Sóknarnefnd
ákvað á fundi að kr. 5.000.000,- af fé kirkjugarðssjóðs skuli varið til
fyrstandandi byggingarframkvæmda.

Fleira kom ekki fram. Fundi slitið.    Guðbjörg
Sigurðardóttir ritari.

Sóknarnefndarfundur haldinn 3. febr. 1979.

Formaður Bjarni Dagsson kallaði sóknarnefnd saman að
heimili sínu Víðivöllum 21. Allir
sóknarnefndarmenn voru mættir nema Karl Eiríksson enda var tilefni fundarins að
ræða um að hækka kaup Karls Eiríkssonar sem kirkjuvarðar, er starf þetta
erilsamt og bindandi. Var samþykkt að
kaupið yrði 50.000 þús. á mánuði og er varla hægt að kalla það mikla upphæð,
aðeins sem þóknun.

Fundi slitið að afloknum kaffiveitingum hjá
húsfreyjunni Valgerði Guðmundsdóttur.

ritari Guðbjörg Sigurðardóttir.

Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 16. okt.
1979.

Tilefni fundarins var að ræða hvenær
aðalsafnaðarfundur skyldi haldinn. Umræður um hækkun sóknargjalda var einnig á dagskrá og komu fram
tillögur um að gjaldið skyldi hækkað úr 3.500,-kr. í 5.000,- kr.

Samþykkt var að aðal – safnaðarfundur skyldi haldinn
21. okt. að aflokinni messu og safnaðafundur myndi skera úr um hækkun
sóknargjalda.

Fundi slitið.     Guðbjörg
Sigurðardóttir ritari.



Aðalsafnaðarfundur haldinn 21. okt. 1979 að aflokinni
messu.

Formaður sóknarnefndar Bjarni Dagsson setti fundinn og
kvaddi til fundarstjóra Guðmund Jónsson.

Formaður útskýrði fyrir fundarmönnum framkvæmdir við
viðbyggingu kirkjunnar (þ.e. safnaðarheimilið). Bar hann fram innilegt þakklæti til hinna fjölmörgu sem lögðu fram fé og
vinnu í þær framkvæmdir sem af eru.

Gat formaður þess að kirkjugólf var lakkað og verkið
var unnið af Oddi Einarssyni málar, sem gaf alla sína vinnu.

800 þús. krónur komu frá Kirkjubyggingasjóði. Allt þetta er ómetanleg hjálp sagði formaður að lokum.

Næst á dagskrá voru reikn. kirkjunnar og
kirkjugarðs.

Karl Eiríksson las upp reikningana og voru þeir einróma samþykktir.

Formaður bygginganefndar Steingrímur Ingvarsson skýrði reikn. í sambandi við
byggingu safnaðarheimilisins.

Því næst skýrði formaður fundarmönnum frá því að
sóknarnefnd hefði rætt um hækkun á kirkjugjaldi úr 3.500,- í 5.000,- bað hann fundarmenn að tjá sig um hækkun þessa. Var einróma samþykkt að gjaldið skyldi vera
5.000,- kr.

Guðmundur Jónsson kvaddi sér hljóð og sagði sitt
hjartans mál vera að Selfosskirkju í Selfosskirkju kæmu sem allra fyrst
veglegar kirkjuklukkur, þar sem þær sem fyrir eru, eru vægast sagt
óviðunandi. Bar Guðmundur fram þá ósk að
leitað yrði til stóru fyrirtækjanna í bænum svo sem Mjólkurbús Flóamanna og
Kaupfélaganna.

Að loknu máli Guðmundar tók séra Sigurður Sigurðarson
til máls. Þakkaði Sigurður öllum aðilum
sem staðið hafa að framkvæmdum við bygginguna og bað þeim guðs blessunar.

Fundarstjóri bað fundarmenn að taka til máls og tjá
sig um mál kirkjunnar.

Enginn kvaddi sér hljóðs og má því segja að allir hafi
upp staðið ánægðir.

Fundi slitið.     Guðbjörg
Sigurðardóttir.

Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 20. maí
1980.

Sóknarnefndarmenn voru allir mættir nema Jakob
Havsteen er var forfallaður. Hans í stað
var mætt María Kjartansdóttir varamaður og auk þess var mættur sóknarpresturinn
Sigurður Sigurðarson.

Aðalmál fundarins voru áframhaldandi framkvæmdir í
sambandi við viðbyggingu kirkjunnar. Rætt var um hvort heldur ætti að leggja áherslu á turninn yrði byggður
fyrst eða safnaðarheimilið, eða hvort tveggja samtímis.

Ráðlegt þótti að leggja þetta fyrir bygginganefnd og yfirsmiðinn Guðmund
Sveinsson.

Séra Sigurður tjáði nefndarmönnum að hann hefði fengið
frí frá störfum í eitt ár til náms og væri förinni heitið til Ameríku. Við störfum hans tæki séra Erlendur
Sigmundsson. Óskuðu nefndarmenn séra
Sigurði og hans fjölskyldu allra heilla og blessunar og góðrar heimkomu.

Formaður sóknarnefndar ákvað að ræða við
byggingarnefnd um framkvæmdir áframhaldandi og fjárhagsáætlun.

Fundi slitið.     Guðbjörg
Sigurðardóttir ritari.

Aðalsafnaðarfundur haldinn 26. okt. 1980 að aflokinni
messugjörð.

Formaður sóknarnefndar setti fundinn og tilnefndi Óla
Þ. Guðbjartsson sem fundarstjóra. Allir
nefndarmenn voru mættir nema Jakob Havsteen sem var forfallaður. María Kjartansdóttir varamaður sat fundinn í
hans stað.

Formaður Bjarni Dagsson bauð sérstaklega velkominn
séra Erlend Sigmundsson sem gegnir nú prestsstörfum í fjarveru sóknarprestsins
okkar sér Sigurðar Sigurðarsonar, sem nýfarinn var í ársfrí með fjölskyldu sína
til náms í Ameríku.

Formaður skýrði í stórum dráttum byggingu
safnaðarheimilisins. Einnig minntist
hann á samskot kóranna á Selfossi sem héldu tónleika. Fyrir það fé sem inn kom var keypt píanó og
píanóbekkur, í þetta lögðu einnig Kirkjukvenfélagið og er það ekki í fyrsta
skiptið að það leggur kirkju sinni lið.

Hallgrímur Jón Ingivaldsson gaf fjóra ljóskastara til
flóðlýsingar. Lýsa kastarar þessir upp
kirkjuna á skammdegiskvöldum og er til hinnar mestu prýði. Formaður gat þess einnig að gefin hafa verið
út Jólakort með mynd af kirkjunni.

Kar. Eiríksson las reikninga kirkjunnar og voru þeir
einróma samþykktir.

Næstur tók til máls Steingrímur Ingvarsson form.
bygginganefndar og útskýrði fyrir fundarmönnum byggingarframkvæmdir sem af er
árinu.

Karl Eiríksson átti að ganga úr sóknarnefndinni en var
einróma endurkjörinn.

Frú Stefanía Gissurardóttir afhenti gjaldkera áheit að
upphæð 50.000,- kr. frá Ólöfu Jónsdóttur.

Bjarni Dagsson gat þess að Guðmundur Jónsson og
Jóhanna Ólafsdóttir hefðu gefið fjárupphæð til minningar um hjónin Björn
Sigurbjarnarson og Önnu Eiríksdóttur. Anna var um árabil organisti Selfosskirkju.

Guðmundur Jónsson kvaddi sér hljóðs og skoraði á
fundarmenn og bað um að heita á Selfosskirkju og láta það berast vítt og breitt
eins og hann orðaði það, því að fenginni reynslu gæfi það góða raun.

Eftirfarandi tillögur komu fram á fundinum.:

Almennur safnaðarfundur haldinn í Selfosskirkju
sunnudaginn 26. október 1980 beinir þeim tilmælum til sóknarnefndar og
byggingarnefndar safnaðarheimilisins, að sérstakt átak verði gert til
fjáröflunar í þágu byggingar safnaðarheimilisins, t.d. með eftirtöldum hætti.

1.    Leitað
verði eftir alm. fjárframl. á öllum vinnustöðum á Selfossi t.d. um andvirði
tveggja vinnustunda frá hverjum starfsmanni er styðja vildi málefnið.

2.    Leitað
verði eftir aðstoð allra starfandi þjónustuklúbba á Selfossi um samkomuhald til
fjáröflunar í þessu skyni.

3.    Kjörin verði
fjáröflunarnefnd til að hafa forgöngu um þessa skyndisöfnun nú í haust. Fulltrúar gætu t.d. verið frá Kvenfélagi
Selfosskirkju, frá byggingarnefnd, frá sóknarnefnd og 2 frá Æskulýðsfélagi
kirkjunnar.

Að tillögum þessum samþykktum var fundi slitið.    Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

Aðalsafnaðarfundur haldinn eftir messu Sunnudag 18.
okt. 1981

1.    Form.
sóknarnefndar Bjarni Dagsson tók fyrstur til máls og lýsti hann í stórum
dráttum framkvæmdum við kirkjuna á síðastliðnu ári. Það kom fram hjá formanni að sjálfboðavinna
við kirkjuna á síðasta ári voru jafnmargir tímar og á árinu áður, nálægt 415
tímar. Formaður gat þess einnig að
gjafir og háheit hafa verið óvenjumiklar á þessu ári, einnig að sími væri
kominn í kirkjuna sem er mikil þægindi bæði fyrir sóknarprest og
sóknarbörn. Form. bað Óla Þ.
Guðbjartsson að stjórna fundi.

2.    Næsta mál
voru reikningar kirkjunnar. Karl
Eiríksson gjaldkeri las reikningana og voru þeir einróma samþykktir.

3.    Næst á
dagskrá fundarins voru kosningar. Úr
stjórn áttu að ganga Guðbjörg Sigurðardóttir og Bjarni Dagsson form. Þar að auki varam. María Kjartansdóttir og
Safnaðarfulltrúinn Gunnar Jónsson.

Gunnar Jónsson baðst eindregið undan endurkosningu.

Kosningar fóru þannig að endurkosin voru Guðbjörg, Bjarni og María.

Stungið var upp á Óla Þ. Guðbjartssyni sem safnaðarfulltrúa og var hann einróma
kosinn.

4.    Síðan var
orðið gefið laust. Sóknarpresturinn séra
Sigurður Sigurðarson kvaddi sér hljóðs. Þakkaði hann öllum sem að byggingunni hafa unnið. Bað hann öllum guðsblessunar sem höfðu lagt
kirkjunni lið fyrr og síðar með fjárframlögum, vinnu og góðum óskum. Sérstakar þakkir færði hann formanni Bjarna
Dagssyni fyrir hans óeigingjarna starf í þágu kirkjunnar.

Fyrirspurn kom frá Óla Þ. Guðbjartssyni um næstu áform í safnaðarheimilinu.

Bjarni Dagsson svaraði því til að ekki væri nein áform um það enn. Taldi hann æskilegast að vinna áfram að
safnaðarheimilinu áður en byrjað yrði að byggja upp turninn.

Fleiri tóku ekki til máls og var fundi slitið.    Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.



Sóknarnefndarfundur var haldinn í Selfosskirkju

að aflokinni æskulýðsmessu 7. mars 1982.

Byggingarnefnd kirkjunnar boðaði til þessa
fundar. Tilefni fundarins var að ræða
hvað yrði næsta skref í framkvæmdum við kirkjuna, form. Byggingarnefndar Steingrímur
Ingvarsson hafði orð fyrir fundarmönnum.

Bað hann fundarmenn að láta í ljós skoðun sína á hvort leggja skyldi áherslu á
að halda áfram framkvæmdum við safnaðarheimilið sjálft í næsta áfanga eða að
byrja á turninum við kirkjuna.

Rætt var um þessi mál og skipst á skoðunum. Almennt voru fundarmenn sammála að ljúka
skyldi við safnaðarheimilið þ.e.a.s. fyrst og fremst hæðina og síðar risið áður
en hafist yrði handa við turninn.                           Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

Miðvikudaginn 11. ágúst 1982 kl. 18

var fundur haldinn í sóknarnefnd Selfosskirkju með
biskupi Pétri Sigurgeirssyni auk þess voru á fundinum vígslubiskup sr. Sigurður
Pálsson og Pétur sonur biskups sem ritari hans.

Með þessum fundi lauk biskup visiteringu Árnesprófastdæmis en 20 ár eru liðin
frá visiteringu Sigurbjarnar fyrrverandi biskups.

Formaður sóknarnefndar Bjarni Dagsson setti fundinn og bauð biskup og aðra
gesti velkomna og bauð síðan biskupi að stjórna fundi.

Biskup þakkaði og mælti nokkur orð. Lýsti hann viðhorfi því er við blasti og óskaði
heimamönnum til hamingju með starfið.
Síðan bað hann sr. Sigurð Sigurðarson að lesa upp lýsingu á kirkjunni og
eignum hennar. Lýsinguna gerða af Sr.
Sig. Sigurðarsyni og Bjarna Pálssyni höfðu sóknarnefndarmenn hjá sér og gátu
fylgst með. Tekið var fram hverjir hefðu
gefið kirkjunni varanlegar eignir.

Biskup spurði um samvinnu prests og safnaðar og var það talið gott af báðum
aðilum, presti og sóknarnefndarmönnum.

Biskup sagði frá fyrirhuguðu leikmannanámskeiði t.d.
næsta sumar í Skálholti og auknu leikmannastarfi innan kirkjunnar.

Sr. Sigurður Sigurðarson tilhögun kirkjustarfsins í
stórum dráttum.

Biskup spurði hvort hugsanlegt væri að messa á hverjum sunnudegi.

Ekki var tekin afstaða til þess.

Biskup ásamt öðrum fundarmönnum skoðuðu byggingarframkvæmdir
safnaðar heimilisins og lauk biskup miklu lofsorði á framkvæmdina, síðan var fundi slitið.

Kl. 20:30 var messað og var fjölmennt við
athöfnina. Í lok messu talaði
sóknarprestur nokkur orð og þakkaði biskupshjónunum komuna.

Þess má geta að bæjarstjórn Selfossbæjar bauð biskupi og fylgdarliði til
hádegisverðar í Hótel Selfoss (Gagnfræðaskólanum). Þar voru mættir auk biskupshjóna,
prófasturinn Sveinbjörn Sveinbjörnsson og frú, vígslubiskup sr. Sigurður Pálsson og frú, sr. Eiríkur Eiríksson og frú, sóknarprestur
Sigurður Sigurðarson og frú, Karl
Eiríksson og frú, form. sóknarnefndar
Bjarni Dagsson og frú auk gestgjafanna forseta bæjarstjórnar Selfoss Óla Þ.
Guðbjartsyni og frú og bæjarstjóra Stefáns Ó. Jónssonar.                (G.S)



Aðal – safnaðarfundur haldinn að messu lokinn
sunnudaginn 7/11 ´82

Formaður sóknarnefndar Bjarni Dagsson kvaddi Óla Þ.
Guðbjartsson til fundarstjórnar og Jakob Havstee til að rita fundargerð og gaf
Bjarna Dagssyni orðið, sem flutti skýrslu sóknarnefndar og sagði frá heimsókn
biskups svo sem að framan greinir, bl. 22, 23 .

Orðið var gefið laust um skýrslu formannsins en engar
umræður voru um hana.

Karl Eiríksson gjaldkeri las og skýrði reikninga
kirkju og kirkjugarðs en þeir höfðu verið endurskoðaðir og fundnir réttir af
Sigurði Sigurðarsyni sóknarnpresti

Engar umræður urðu um reikningana, er bornir voru undir atkvæði og samþykktir
samhljóða.

Næst á dagskrá voru kosningar.

Form. Bjarni Dagsson tók til máls og
skýrði frá því að kjörtímabil þeirra Hugborgar Benediktsdóttur og Jakobs
Havsteen væri á enda.

Lagði Bjarni til að Jakob H. yrði endurkjörinn en María Kjartansdóttir kosin í
stað Hugborgar B. sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs enda flutt í aðra
sókn.

Var þetta samþykkt samhljóða. Friðsemd
Eiríksdóttir var kosin varamaður í sóknarnefnd.

Önnur mál:

Sr. Sigurður Sigurðarson tók til máls og þakkaði sérstaklega störf þeirra er að
byggingunni hafa unnið, sem og annarra og fundarmönnum fyrir að koma á
fundinn. Gat hann þess að safnaðarfundir
þyrftu að vera betur sóttir. og gerði nokkra grein fyrir hlutverki
safnaðarfunda. Varpaði fram þeirri
hugmynd að e.t.v. væri rétt að reyna að efla fundina og þá með sérstakri
dagskrá. Betra væri að fleiri létu sig
varða þessi mál.

Ítrekaði sr. Sigurður þakkir til þeirra er að því hafa starfað að safnaðarlíf
megi vera sem öflugast.

Stefanía Gissurardóttir gat þess að laga þyrfti hlið
og girðingu um kirkjugarðinn. Ennfremur
gat hún þess að lýsa þyrfti veginn að því hliði kirkjugarðsins sem öll vinnu –
umferð fari um. Þakkaði fórnfúst starf
að kirkjumálum og gat sérstaklega rafvirkjans.

Ernst Sigurðsson spurði um jólakort og upplýsti að
hugmyndir væru uppi um útgáfu jólaumslaga vegna Selfoss. Rynni hluti tekna til kirkjubyggingarsjóðs,
en væri annars kostnaðarlaus fyrir kirkjuna. Óskaði Ernst heimildar til að nota gamla klisju með mynd af kirkjunni
(fyrir viðbyggingu) og brúnni.

Bjarni Dagsson taldi gott að hafa sem víðast myndir af kirkjunni og taldi
sjálfsagt að verða við erindi Ernst Sigurðssonar.

Erindi E.S. ekki borið undir atkvæði, en engin mótmæli
komu fram.

Sr. Sigurður Sigurðarson lagði til að sóknargjöld hér
yrðu ákveðin í samræmi við það sem tíðkaðist í Reykjavík og í samráði við
kirkjumálaráðuneytið, var þetta samþykkt samhljóða.

Ernst Sigurðsson spurðist fyrir um viðhald leiða og
annars í kirkjugarðinum. Taldi hann að
sitthvað í kirkjugarðinum þyrfti lagfæringar við.

Sr. Sigurður Sigurðarson svaraði Ernst Sigurðssyni
fáum orðum. Gat hann þess að séð væri um
að garðurinn væri sleginn, en yfirleitt sæju aðstandendur um hirðingu
leiða. Upplýsti að nú í haust hefði
kirkjugarðurinn orðið fyrir allharðri ásókn ær nokkurrar sem hefði verið
sérdeilis aðgangshörð. Tók hann fram að
ær þessi væri nú horfin, (Óupplýst hvernig stæði á hvarfi hennar, aths.
ritara). Nefndi að fljótlega þyrfti að
taka meiriháttar ákvarðanir varðandi kirkjugarðinn.

Fleiri kvöddu sér ekki hljóðs og sleit þá fundarstjóri
fundi með þökkum til fundarmanna og annarra áhugamanna um málefni kirkjunnar.          Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

Guðjón Kristjánsson

Kumbaravogi Stokkseyri, áður
til heimilis að Smáratúni 12 Selfossi.

Guðjón andaðist 23. janúar 1983. Arfleiddi hann Selfosskirkju að eftirlánum
eigum sínum með erfðaskrá.

Eftir að greiddir höfðu verið reikningar vegna útfarar
o.fl. og 5% erfðarfjárskattur, var eftir nettó erfðafé, 40.096,40 kr.

Þessa upphæð lagði sóknarnefndin inn á
byggingarreikning Safnaðarheimili Selfosskirkju.

                                                                       Selfossi
15. mars 1983           Bjarni Dagsson

Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 5. okt.
1983.

Formaður Bjarni Dagsson setti fundinn sem hann hafði
boðað til.

Á fundinn mættu auk formanns, Karl Eiríksson, Guðbjörg
Sigurðardóttir, María Kjartansdóttir. Jakob Havsteen var fjarverandi.

Tilefni fundarins var meðal annars að ræða laun organistans Glúms Gylfasonar,
sem nefndarmönnum fannst of lág.

Fram kom tillaga um að hækka laun hans úr 47,1% af 19. launaflokki í 56% (af
sama launafl.), munu þá mánaðarlaun hans verða 10.135,- kr.

Var þetta einróma samþykkt.

Einnig var samþykkt að panta fleiri jólakort af
Selfosskirkju og hugsanlega að gefa út nýja gerð af kortum til dæmis með mynd
sem tekin er inni í kirkju. Er þetta í
athugun hjá sóknarnefndinni.

Fleira var ekki rætt og sleit formaður fundi.                        Guðbjörg Sigurðardóttir
ritari.

Aðalsafnaðarfundur haldinn í Selfosskirkju eftir messu
20. nóv. 1983.

Bjarni Dagsson form. sóknarnefndar setti fundinn og
kvaddi til Óla Þ. Guðbjartsson safnaðarfulltrúa sem fundarstjóra.

Formaður sóknarnefndar tók fyrstur til máls og skýrði
frá í stórum dráttum framkvæmdir við kirkjuna á árinu 1983. Ræddi hann meðal annars það mikla og
óeigingjarna starf sem kvenfélag kirkjunnar hefur innt af hendi.

Einnig þakkaði hann Gunnari sem hefur unnið mikið og gott starf í raflögnum við
safnaðarheimilið. Bjarni gat þess einnig
að Guðjón Kristjánsson frá Stokkseyri hefði arfleitt kirkjuna að eignum sínum
eftir sinn dag (vísað til blaðs. 26 í fundargerðabók).

Næstur tók til máls Steingrímur Ingvarsson form.
byggingarnefndar. Upplýsti Steingrímur
að 412 þús. kr. hefðu farið í bygginguna 1982. Ræddi hann síðan um bygginguna og framkvædir sem komnar eru langt á veg.

Taldi Steingrímur það ekki óhóflega bjartsýni að taka salinn inn í
safnaðarheimilið fyrir jól.

Karl Eiríksson gjaldkeri las síðan reikn. kirkjunnar
og kirkjugarðsins og voru þeir einróma samþykktir.

Síðan tók til máls Óli Þ. Guðbjartsson
safnaðarfulltrúi. Vakti hann athygli
fundarmanna á eftir að gjaldkeri las upp reikn. að það væri óvenjulegt á þessum
tímum að kirkjan með rúmar 5 millj. í eign og ekki nema 70 þús. í skuld og
standa í þessum miklu framkvæmdum, væri mjög athyglisvert og lofsvert.

Óli gat þess einnig að þessi safnaðarfundur væri
óvenjulegur að því leiti að þetta væri fyrsti Aðal – safnaðarfundur er sr.
Sigurður Pálsson situr eftir að hann lét af vígslubiskupsembætti. Þakkaði Óli séra Sigurði sérstaklega allan
hans góða og mikla þátt í safnaðarstarfinu.

Næstur kvaddi sér hljóðs Sigurður Sigurðarson
sóknarprestur. Bar hann fram þakkir til
kirkjukvenfélagsins, fyrir mikið og gott starf. Einnig þakkaði hann form. byggingarnefndar og byggingarnefnd, form.
sóknarnefndar og gjaldkera kirkjunnar. Bar hann fram sérstakar þakkir forystu þessara manna svo og allra þeirra
mörgu sem lagt hafa vinnu og fjármuni í framkvæmdir þessar.

Séra Sigurður Pálsson tók til máls og  (þakkaði)
góð orð sér til handa. Séra Sigurður
sagðist gleðjast yfir hvað starfið væri í góðum höndum. Að lokum bað hann öllum guðs blessunar og
hamingju í starfi.

Bjarni Dagsson sagði frá héraðsfundi er hann sat sem
haldinn var í Skálholti í haust.

Spurning kom fram á fundinum hvað liði turnbyggingu.

Steingrímur Ingvarsson svaraði því til að ekki væri úr
vegi að byrja framkvæmdir á sumri komanda. 

Með þessum orðum var fundi slitið.             Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 9. maí
1984.

Tilefni fundarins var nýtt frumvarp til laga um
kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi og fleira. Eldri lögin um skipun sóknarnenda og
héraðsnefnda eru frá árinu 1907.

Samþykkt var á fundi þessum að fela formanni, sóknarpresti og Jakobi Havsteen
sóknarnefndarmanni að lesa saman lögin og senda til umsagnar til
Menntamálanefndar.

Einnig var til umræðu kaup hjá kirkjuverði og samþykkt
að hækka það úr 2.400,- kr á mánuði í 4.000,- kr.

Til umræðu var einnig kirkjugarðurinn eða stækkun hans
og var mat manna að betra væri að athuga um það fyrr en seinna.

Ákveðið var að hittast eftir stuttan tíma að aflokinni
athugun og umsögn.

Fundi slitið.                 ritari Guðbjörg Sigurðardóttir.



 

Sóknarnefndarfundur haldinn í safnaðarheimili Selfosskirkju
28. ágúst 1984.

Mættir voru á fund þennan, ásamt sóknarnefndarmönnum,
sóknarpresturinn séra Sigurður Sigurðarson og stjórn kirkjukvenfélagsins.

Formaður Bjarni Dagsson setti fundinn og las upp bréf
sem borist hafði til formanns.

Megininnihald bréfsins var að sendandinn Jón Helgi Hálfdánarson hefur fest kaup
á bíl, sem hann hefur í hyggju að nota mætti við líkflutninga, ennfremur býður
hann fram vinnu við hreinsun og snyrtingu kirkjugarðsins.

Annað mál fundarins.

Séra Sigurður Sigurðarson kvaddi sér hljóðs og skýrði frá því að einn meðlimur
í A.A. samtökunum hér á Selfossi hafi komið að máli við sig og leitast eftir
húsnæði í kirkjunni eða safnaðarheimilinu fyrir fundi samtakanna þar sem
húsnæði það sem samtökin hafa haft til afnota væri ekki lengur falt vegna þess
að fjölbrautarskólinn þyrfti á því að halda.

Engin ákveðin afstaða var tekin til þessara mála, er
fram komu á fundinum. Þess í stað var
kosin nefnd til að fjalla um þau og ákveða hver yrðu endalok þess.

Í nefndina voru skipuð:

Séra
Sigurður Sigurðarson sóknarprestur.

Arndís Jónsdóttir frá kirkjukvenfélagi.

Bjarni Dagsson form. sóknarnefndar.

Valgerður Guðmundsdóttir form. kirkjukvenfélags.

Jakob Havsteen frá sóknarnefnd.

Fundi slitið.     ritari Guðbjörg Sigurðardóttir.

Aðalsafnaðarfundur haldinn í safnaðarheimili
Selfosskirkju

16. nóv. 1984 að aflokinni messu.

Bjarni Dagsson form. sóknarnefndar setti fundinn og
kvaddi til fundarstjóra Hjört Þórarinsson. 

Formaður skýrði frá framkvæmdum á árinu. Kom fram í máli hans þakklæti til allra er
stutt hafa byggingu safnaðarheimilisins með fjárframlögum og vinnu. Sérstakar þakkir færði hann
kirkjukvenfélaginu fyrir þeirra ómetanlegu störf.

Einnig bar formaður fram sérstakt þakklæti til Gunnars M. Einarssonar rafv. sem
gefið hefur alla vinnu við raflögn í safnaðarheimilið. 

Einnig skýrði Bjarni frá því að Bjarni Sigurgeirsson,
Guðrún Sigurgeirsdóttir, Sigurgeir Höskuldsson og Sigrún Arnbjarnardóttir, öll
ættuð frá (Fossi á) Selfossi, hefðu gefið kirkjunni land sem notað verður til
stækkunar á kirkjugarði, voru þeim öllum færðar einlægar þakkir fyrir
rausnarlega gjöf.

Einnig kom það fram í máli formanns að fatasöfnun á
vegum hjálparstofnunar kirkjunnar hafi tekist með ágætum.

Er formaður hafði lokið máli sínu tók til máls
Steingrímur Ingvarsson og skýrði frá byggingarmálum kirkjunnar. Kom fram í máli Steingríms að framkvæmdir
hefðu tafist verulega vegna sífelldrar krafna frá brunavörnum.

Karl Eiríksson las upp reikninga kirkjunnar og voru
þeir einróma samþykktir.

Séra Sigurður Sigurðarson var næstur er tók til máls.

Bar hann fram einlægar þakkir til allra er stóðu að
því að bjóða prestum, konum þeirra og fleiri gestum til kvöldverðar í
safnaðarheimilinu.

Tilefnið var að yfir stóð prestastefna á Þingvöllum. Að boðinu stóðu bæjarstjórn Selfoss,
Kirkjukvenfélagið og sóknarnefnd. Var
þessi stund og frábær matur og öll framreiðsla öllum til mikils sóma.

Einnig þakkaði séra Sigurður sérstaklega byggingarnefnd fyrir frábæran dugnað.

Að lokum tók Guðm. Jónsson til máls og kvaðst hann
ekki vera ánægður með að ekki væri byggt handrið við kirkjutröppurnar
austanmegin, án handriðs væri óhæft að fikra sig upp tröppurnar í hálku og roki
sem oft vill verða á vetrum í okkar kalda landi eins og hann orðaði það.

Fleira var ekki rætt á fundi þessum og var því fundi
slitið. 

Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

29. des. 1984 var haldinn sóknarnefndarfundur í
Safnaðarheimili Selfosskirkju.

Mætt var frú Halla Haraldsdóttir listamaður frá Keflavík. Hún var með sýnishorn af steindum gluggum,
sem hún er búin að gera í kirkjuna og kórinn hér hjá okkur.

Táknmyndir á steindu – gluggunum eru þannig í
aðalatriðum að öðrumegin eru tákn – árstíðanna, hinum megin táknmyndir um
mannlífið og í kórnum tákn um festingu himinsins (Himingeyminn).

Allar voru myndirnar að dómi viðstaddra mjög
álitlegar, en sr. Sigurður kvaðst heldur óska eftir helgimyndum í kórinn. Kostnaður við þessa framkvæmd yrði ca. 1 – 1
½ milljón króna. Minnst var á að stofna
sjóð fyrir þetta málefni, en ekki mætti það þó tefja aðrar framkvæmdir.

Listamaðurinn taldi sig geta beðið þar til við værum tilbúin að skipta um
gluggana.

Frú Halla vinnur í sambandi við stórfyrirtæki í V-Þýskalandi á þessu sviði.

Mættir voru á fundinum: Sr. Sigurður Sigurðarson, María
Kjartansdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir, Óli Þ. Guðbjartsson, Bjarni Dagsson.

Jakob Havsteen kom í lok fundarins og sá myndirnar í
svip.

                                               Bjarni
Dagson var fundarritari.



Aðalsafnaðarfundur Selfosssafnaðar var haldinn í

Safnaðarheimili Selfosskirkju sunnudaginn 3. nóv. 1985.

að lokinni messu.

Áður en fundur hófst buðu kvenfélagskonur upp á
molakaffi.

Dagskrá
fundarins:

1. Fundur settur.

2. Skýrsla formanns.

3. Lesnir reikningar.

4. Kosningar.

5. Önnur mál.

Formaður Bjarni Dagsson setti fundinn og bauð gesti
velkomna. Hann bað Óla Guðbjartsson að
vera fundarstjóra og Maríu Kjartansdóttur að rita fundargerð.

Óli þakkað traustið og gaf síðan orðið.

Formaður lýsti byggingarframkvæmdum og sagði frá
starfi kvenfélagsins.

Skýrði formaður frá því að næsta verkefni væri að koma einangrunarhurðinni á
milli kirkjunnar og safnaðarheimilisins fyrir svo hægt væri að vinna í
safnaðarheimilinu þótt athöfn væri í kirkjunni. Formaður las upp bréf frá Glúmi Gylfasyni til sóknarnefndar þar sem
Glúmur fer þess á leit við sóknarnefnd að hún leiti eftir styrk frá Bæjarstjórn
Selfoss kr. þrjú hundruð þúsund til kaupa á flygli í safnaðarheimilið.

Bjarni form. og Jakob Havsteen urðu við þessum tilmælum Glúms og rituðu bréf
til bæjarstjórnar.

Formaður sagði frá stækkun kirkjugarðsins, það var keyrt mikið af mold í garðinn
og einnig sáð í hann. Ennþá vantar samt
mikið af mold í hann og svo þarf að girða og planta.

Formaður sagði frá tillögu Höllu Haraldsdóttur um steinda glugga í kirkjuna.

Börn Guðna Þorsteinssonar gáfu kr. 10.000,00 til
stillingar á orgelinu.

Búið er að kaupa ljósritunarvél og er hún frá
Landsbankanum á Húsavík. Hún kostaði tíu
þúsund krónur sem er varla meir en hálfvirði.

Formaður þakkaði þar næst öllum sem unnið hefðu fyrir kirkju og safnaðarheimili
og nefndi meðal annars Gunnar Einarsson rafvirkja fyrir vinnu sem Árvirkinn gaf
og Guðmundi Bjarnasyni sem smíðaði fatahengi og gaf alla vinnu við það.

Þarnæst las Karl Eiríksson upp reikninga
byggingarinnar.

Fundarstjóri bar síðan upp skýrslu formanns og
reikninga og var hvorutveggja samþykkt.

Síðan var gengið til kosninga og var kosið eftir nýju
lögunum, en með tilkomu þeirra fjölgar í sóknarnefnd úr fimm í sjö og
jafnmargir varamenn.

Eftirtaldir voru einróma kosnir.

Sóknarnefnd:

Aðalmenn.

Bjarni Dagsson

Guðbjörg Sigurðardóttir

Karl Eiríksson

Jakob Havsteen

María Kjartansdóttir

Friðsemd Eiríksdóttir

Steingrímur Ingvarsson.

Varamenn.

Erla
Kristjánsdóttir

Steingrímur Jónsson

Gunnar Á. Jónsson

Hjörtur Þórarinsson

Jón Ólafsson

Gissur Ingi Geirsson

Aldís Bjarnadóttir.

Endurskoðendur:

Gunnar
Einarsson bankamaður

Ólafur Ólafsson bæjarstarfsmaður.

Vara endurskoðendur:

Sigfús
Þórðarson bankamaður.

Bjarni Jónsson endurskoðandi.

Safnaðarfulltrúi.:        Óli
Þ. Guðbjartsson

Varasafnaðarfulltrúi:Halldór
Magnússon.

Að loknum kosningum tók til máls sér Sigurður
Sigurðarson.  Hann byrjaði að þakka allt
sem gert hefur verið fyrir kirkju og safnaðarheimili þar næst bauð hann
velkomna nýja sóknarnefnd til starfa og taldi rétt að aðalmenn og varamenn sætu
allir fundi. Einnig talaði hann um
líknarmál og taldi það starf kristins safnaðar.

Séra Sigurður sagði frá því að oft kæmi til sín fólk, sem ætti við ýmsa
örðugleika að etja og nefndi meðal annars fjárhagsörðugleika svo sem í sambandi
við útfarir og veikindi. Hann sagðist
reyna að hjálpa þessu fólki með því að leita til stofnana og sjóða.

Minntist séra Sigurður á bókagjöf séra Eiríks Eiríkssonar og talaði um hve
mikill menningarauki hún væri fyrir Selfoss.

Talaði hann einnig um að þörf væri á að stofna deild um hagnýta guðfræði í
samráði við héraðsbókasafnið og söfnuðurinn ætti að vera eigandi þessarar
stofnunar.

Að lokum flutti hann eftirfarandi tillögu.:

Safnaðarfundur
Selfosssafnaðar haldinn 3. nóv. 1985 felur sóknarnefnd, eða nefnd sem hún kann
að skipa, að kanna möguleika á að stofna hjálparsjóð Selfosssafnaðar.

Óli Þ. Guðbjartsson upplýsti að búið væri að ákveða í
bæjarstjórn stækkun safnahússins og þá mundi opnast möguleiki að koma fyrir
safni séra Eiríks.

Fundarstjóri bar síðan upp tillögu séra Sigurðar og
var hún samþykkt.

Jóhanna Þórðardóttir gerði fyrirspurn um Æskulýðsstarf
á Selfossi. 

Séra Sigurður sagði Æskulýðsfélag hefði verið
starfandi, en svo hefði það eins og hann orðaði það, dáið út. Sagðist hann vera farinn að tala við elstu
börnin í Sunnudagaskólanum til að reyna að koma æskulýðsstarfi á ný.

Arndís Jónsdóttir upplýsti að næsta verkefni
kirkjukvenfélagsins væri að koma upp gluggatjöldum og ljósum í
safnaðarheimilið, fyrir aðventukvöldið 8. des. og óskaði eftir fundi með
byggingarnefnd.

Óli Þ. Guðbjartsson sagði frá Héraðsfundinum sem
haldinn var í Hruna og á Flúðum. Óli Þ.
mætti þar ásamt presthjónunum Arndísi og séra Sigurði. Fundurinn var með hefðbundnum hætti.

Í Hruna sagði Prófasturinn frá helstu kirkjuathöfnum.

Á Flúðum hélt fundurinn áfram og þar skýrðu safnaðarfulltrúar frá
safnaðarstarfi hver í sinni sókn. Að
lokum þakkaði fundarstjóri góðan fund og síðan var fundi slitið.

Sóknarnefndarfundur haldinn sunnud. 1. des. 1985.

Mætt var á fundinn frú Halla Haraldsdóttir glerlistamaður
frá Keflavík. Var hún með nýjar tillögur
að steindum gluggum í kór kirkjunnar, 6 að tölu.

Mynd no.        1. sem táknar fæðingu frelsarans.

2. sem táknar Páskar.

3.  sem táknar Hvítasunnan.

4. sem táknar María mey.

5. sem táknar Heilaga þrenningu.

6. sem táknar Jóhannes skírari.

Grunnur allra myndanna er í sama lit, sem gaf þeim
fallegan samræmdan blæ.

Í stuttu máli voru allir viðstaddir mjög ánægðir með þessar myndir og samþykktu
samhljóða að fela frú Höllu að vinna að gerð þeirra óbreyttra.

Svo ætlar hún að vinna að nýjum tillögum mynda í kirkjuna sjálfa. Gaf hún skýringu á þeim í stórum dráttum, sem
séra Sigurður og fl. samþykktu og við munum sjá síðar.

Frú Halla sagði að við mættum haga framkvæmdum
algjörlega eftir okkar ástæðum hvað snerti tímalengd þar til hafist væri handa
t.d. 3 – 6 ár ca. ½ ár tæki að útbúa myndirnar eftir að byrjað væri á
framleiðslunni.

Ekki var rætt um verð að svo stöddu.

Mættir á fundinn: Sr. Sigurður Sigurðarson, Steingrímur Ingvarsson, María Kjartansdóttir,

Erla
Kristjánsdóttir, Friðsemd Eiríksdóttir,
Jakob Havsteen, Hjörtur Þórarinsson,

Karl Eiríksson, Gunnar Á. Jónsson, Bjarni Dagsson.

(G.S).



Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 18. sept.
1986.

Form. Bjarni Dagsson setti fundinn.

Tilkynnti hann fundarmönnum að organisti kirkjunnar Glúmur Gylfason hefði komið
að máli við sig og óskað eftir að fá frí frá störfum í 9. mánuði, þar sem hann
hefði hug á frekari menntun í organleik á Ítalíu. Ráðgert væri að hann fari utan ásamt fjölskyldu
sinni um miðjan desember.

Fundarmenn samþykktu einróma að leysa Gúm
frá störfum þessa 9 mánuði og greiða honum full grunnlaun, sem hann er frá starfi.

Næsta mál var umræða um að klæða
kirkjubekkina. Mörgum hefur fundist þeir
full harðir að sitja þá. Engin ákvörðun
var tekin í máli þessu, þar sem fundarmenn voru ekki á einu máli um efnisval
eða með hvaða hætti ætti að klæða þá.

Frú Arndís Jónsdóttir sýndi teikningar af
ljósum, sem ráðgert er að komi í salinn í safnaðarheimilinu.

Einnig var ákveðið að ráða konu til að sjá
um ræstingar í safnaðarheimilinu, en konur úr kirkjukvenfélaginu hafa hingað
til séð um það.

Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum,
fundi slitið.   ritari Guðbjörg
Sigurðardóttir.

Aðalsafnaðarfundur haldinn í Selfosskirkju 16. nóv.
1986 að aflokinni messu.

Formaður Bjarni Dagsson setti fundinn og
skýrði frá því að nú væri lokið við að steypa turninn og lengja kirkjuna um 4
metra fram, en turninn er 24 metrar á hæð, sperrur voru reistar í júní í sumar
og síðan unnið að yfirgerð.

Þá gat formaður þess einnig að síðan
aðalsafnaðarfundur er haldinn var í nóv. á síðasta ári (1985) hefur kvenfélag
kirkjunnar sett upp gluggatjöld í sal safnaðarheimilisins og forstofu,
sömuleiðis hefur kirkjukvenfélag tilkynnt að það ætti að gefa bæði veggljós og
loftljós í salinn og er þegar búið að ákveða gerð ljósanna. Færði form. kvenfélaginu hjartans þakkir í
nafni safnaðarins.

Einnig greindi formaður frá því að 14.
nóv. 1985 var keyptur flygill í safnaðarheimilið og kirkjuna. Hann er þýskur og heitir Scimmel og talinn góð
tegund. Flygillinn kostaði 419.000,-kr.
+ 8.000,- kr flutningsgjald frá R.V.K.

Selfossbær veitti styrk til kaupanna eða 250.000,- kr. sem dreifist á tvö
ár. 1986 – 1987,

125 þús. hvert ár. Píanó sem kirkjan
átti var selt Tónlistarskóla Árnessýslu á 110.000,- kr. sem fór upp í flygilinn
sömuleiðis gekk ágóði af jólatónleikum kóranna á Selfossi 80.000,- kr. upp í
kaupin líka og er nú Flygillinn að fullu greiddur.

Frú Halla Haraldsdóttir glerlistakona kom
í des. síðast liðinn (1985) með nýjar tillögur að steindum gluggum í kirkjuna.   Á sóknarnefndarfundi þá var samþykkt að hún
gerði glugga samkv. þeim tillögum til að byrja með í kór kirkjunnar.

Eins og fram hefur komið áður í
fundargerð var samþykkt að veita Glúmi Gylfasyni 9 mán. frí frá miðjum des. 1986
til sept. 1987. Í hans stað hefur verið
ráðinn Ólafur Sigurjónsson frá Forsæti, er hann okkur að góðu kunnur í því
starfi. Þá hefur Gunnar Á. Jónsson tekið
að sér að vera meðhjálpari í forföllum Halldórs Magnússonar.

Ræstingakona kirkjunnar hefur nú tekið að
sér ræstingu í safnaðarheimilinu.

Frá því að farið var að nota safnaðarheimilið hefur kvenfélag kirkjunnar annast
ræstingu þess án endurgjalds.

Samkór Selfoss fékk aðstöðu til
söngæfinga hér uppi í baðstofunni í fyrravetur og eins nú í vetur.

Selfosskirkja var 30 ára í vor, hún var
vígð á Pálmasunnudag þann 25. mars 1956.

Af tilefni afmælisins færði kvenfélag
kirkjunnar henni að gjöf hökul og stólu sem ofið er af Ingibjörgu Styrgerði
Haraldsdóttur.

Er formaður Bjarni Dagsson hefði lokið-
skýrslu sinni sagði hann:

„Ég vil fyrir hönd safnaðarins þakka öllum sem hafa minnst kirkjunnar með
gjöfum og áheitum þakka starfsmönnum og kirkjusmiðum og síðast en ekki síst
prestinum góð störf og biðja guð að vera með okkur í verki, hér eftir sem
hingað til.“

Safnaðarfulltrúi Óli Þ. Guðbjartsson tók
til máls og þakkaði sóknarnefnd, formanni, gjaldkera og byggingarnefnd vel
unnin störf.

Óli vakti máls á því að fólk sem væri hér á ferð í bænum sérstaklega erlendir
ferðamenn og reyndar allir, sem inn í kirkjuna koma og skoða hana er starsýnt á
hinar fallegu helgimyndir, sem prýða þetta guðshús og máðar af listakonunni
Grétu Björnsson.

Óli taldi að þar, sem afar fáir geta útskýrt tákn myndanna og síst á erlendum
tungumálum væri nauðsynlegt að bæta úr því.

Séra Sigurður upplýsti að til væru
íslenskar útskýringar á helgimyndunum, en vinna þyrfti að því að færa þær yfir
á erlend tungumál og hafa á aðgengilegum stað í kirkjunni.

Voru allir einhuga um þessa tímabæru
ábendingu Óla Þ. Guðbjartssonar.

Næst kvaddi sér hljóðs Sigurður
Sigurðarson sóknarprestur, þakkaði hann öllum, em starfað hafa við kirkjuna og
lagt henni lið með vinnu gjöfum og áheitum.

Vék séra Sigurður næst að máli sem hann sagðist vera búinn að hugsa lengi og
vera ofarlega í hans huga og það er að stofnaður verði hjálparsjóður, er skyldi
heita „Hjálparsjóður Selfosskirkju.“ Sjóðnum væri einkum ætlað að mæta neyð, sem verður við óvænt og ótímabær
dauðsföll. Sjóðurinn skuli vera hluti af
safnaðarsjóðnum og peningar lagðir til hliðar til þessara þarfa innan
safnaðarins, sem sjóðurinn sinnir og hver sem er getur lagt fram fé í þennan
hjálparsjóð.

Síðan sagði séra Sigurður. „Stundum hófum við leitað til
Hjálparstofnunar kirkjunnar þegar þannig aðstæður hafa komið upp – það liggur í
eðli kristins safnaðar að bregðast við neyð náungans og gef fólki tækifæri að
gefa fjármuni til slíks. Það eru margir
sem vilja styrkja svona málefni og þá þurfa þeir að hafa vettvang til
þess“ sagði Sigurður ennfremur.

Tillaga Sigurðar um stofnun sjóðsins féll
í góðan jarðveg hjá fundarmönnum.

Rætt var um hvernig staðið yrði að
fjáröflun í þennan sjóð. Tillaga kom frá
Karli Eiríkssyni að andvirði, sem inn kæmi fyrir sölu minningarkorta kirkjunnar
yrði látin renna í hjálparsjóðinn og einnig skyldi ákveðinn einn söfnunardagur
á ári hverju og það fé sem safnaðist kyldi renna til sjóðsins. Þetta var einróma samþykkt.



Að þessu loknu bar séra Sigurður upp
tillögu um stofnun sjóðsins og efni tillögunnar, sem er í fimm liðum.

1.    Sjóðurinn
er eign Selfosskirkju og í vörslu féhirðis hennar. Þannig er sjóðurinn ekki sjálfstæð stofnun,
heldur sé um að ræða þá fjármuni safnaðarins sem sérstaklega eru fráteknir til
hjálparstarfs safnaðarins og lagðir fram af gefendum í því augnamiði.

2.    Sóknarprestur,
sóknarnefndarformaður og safnaðarfulltrúi mynda nefnd er sjái um úthlutun á
sjóðnum eftir umsóknum eða eigin frumkvæði og eftir ábendingum safnaðarfundar
og starfsmanna kirkjunnar.

3.    Úthlutun
úr sjóðnum skal fyrst og fremst vera í sambandi við slysfarir og þörf sem
verður við óvænt og ótímabær dauðsföll, nema að sjóðurinn vaxi svo að
safnaðarfundi þyki rétt að útvíkka starfssvið hans. 

4.    Halda
skal sérstakan söfnunardag fyrir sjóðinn árlega.

5.    Halda
skal reikning sjóðsins sérstaklega og skal hann endurskoðaður með
kirkjureikningum og borinn undir safnaðarfund á sama hátt.

Að lokum var tillagan borin
undir atkvæði og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum og þar með var Hjálparsjóður Selfosskirkju stofnaður,
enginn var á móti tillöguninni.

Fundarmenn voru eins og einn
maður í þessari góðu tillögu.

                        Guðbjörg
Sigurðardóttir ritari.

Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 4. mars
1987.

Form. Bjarni Dagsson kallaði saman
sóknarnefndarfund og kom það fram í máli formanns að mjög brýnt væri að
fjárfest væri í kirkjuklukkum í turn Selfosskirkju. Þar sem mjög lítið væri í klukknasjóði var
ákveðið að leita til fyrirtækja í bænum um framlög til þessarar mikilvægu
framkvæmda.

Samþykkt var á fundi þessum að senda bréf til sem flestra, reyndar allra
fyrirtækja í bænum, og treysta á og vona að þessari beiðni yrði vel tekið. Kemur hér á eftir efni þess bréfs sem
samþykkt var að senda út og hljóðar þannig:

„Nú er að verða lokið byggingu
kirkjuturns Selfosskirkju og þá kemur að því að kaupa nýjar kirkjuklukkur. Í samráði við Hauk Guðlaugsson söngmálastjóra
þjóðkirkjunnar hefur verið ákveðið að kaupa 3 klukkur með tilheyrandi búnaði
frá Noregi. Umboð Kirkjuhúsið í
Reykjavík.

Tillögur Hauks eru þannig:

                                                    1
klukka 100 kg.    kr. 150.000,-

1
klukka 170 kg.    kr. 200.000,-

1
klukka 240 kg.    kr. 230.000,-

Rafbúnaður           kr. 200.000,-

                                                                       Alls:     kr. 780.000,-

Þar sem kostnaður við turnbygginguna
og aðrar framkvæmdir við kirkjuna er mikill á okkar mælikvarða, þá förum við
þess á leit við fyrirtæki yðar, hvort það myndi vilja styrkja okkur við kaup á
klukkunum.

                                                    Með
kærri kveðju

                                                    f.h.
sóknarnefndar Selfosskirkju

                                                    Bjarni
Dagsson formaður.“

Fleira kom ekki fram á fundi þessum
og var honum slitið.   ritari Guðbjörg
Sigurðardóttir.

Sunnudaginn 24. maí 1987

var haldinn aðalsafnaðarfundur í
safnaðarheimilinu eftir messu.

Form. setti fundinn og nefndi til
fundarstjóra Jakob Havsteen. Form. las
starfskýrslu. Minntist hann á sem gerst
hafði frá síðasta aðalfundi.

Gjaldkeri Karl Eiríksson las upp
reikninga kirkjunnar og kirkjugarðs. Reikningar boru bornir upp og samþykktir samhljóða.

Séra Sigurður Sigurðarson minntist á
að fundur skyldi fremur vera haldinn að vori til og væri það heppilegra en
fundir að hausti, þakkaði hann
sóknarnefnd og byggingarnefnd störfin.

Þá voru kosningar samkv. lögum frá
1985.

Á sóknarnefndarfundi til undirbúnings
kosninganna voru dregin út nöfn þriggja sóknarnefndarmanna sem ganga skyldu úr
nefndinni. Þau voru Guðbjörg
Sigurðardóttir, Bjarni Dagsson og Jakob
Havsteen. Voru þau samkv. uppástungu
endurkosin í sóknarnefnd til næstu fjögra ára. Þá var Sigurjón Erlingsson kosinn til 4 ára varamaður í sóknarnefnd í
stað Steingríms Jónssonar sem fluttur er úr sókninni. Þau Erla Kristjánsdóttir og Gunnar Á. Jónsson
voru endurkosin samkv. útdrætti varamenn í sóknarnefnd næstu fjögur ár.

Bjarni Dagsson las upp bréf frá
hjálparstofnun kirkjunnar um starfsemi og framtíðaráform stofnunarinnar.

Fundi slitið.                 Fundargerð
form. B.D. endurskrifuð Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

Hér fer á eftir starfskýrsla formann Bjarna Dagssonar
á aðalsafnaðarfundi 24. maí 1987. :

Góðir
fundarmenn, ég bið ykkur öll velkomin á þennan aðalsafnaðarfund. Nú er fundurinn haldinn að vori, en ekki að
hausti eins og jafnan áður, en þá var verið að bíða eftir innheimtu
sóknargjalda, en nú þarf þess ekki lengur.

Ég vil
byrja á að minnast á byggingarframkvæmdir. Þegar aðalfundur var haldinn á síðastliðnu hausti, var lokið við að
steypa upp turninn, og framlengingu kirkjunnar, og yfirgerðin komin klædd með
þakpappa. Ennþá er eftir að setja stálið
á þökin, en efnið er lögnu komið búið að reisa stillansa, svo ekki mun langt að
bíða þess að þökin verði fullfrágengin. Annars hefur verið unnið stanslaust við
bygginguna í betur og vor.

Byrjað var
á að ganga frá neyðarútgangi úr baðstofu, brotin voru op á plötuna og útvegginn
og lokaður af hringstigi niður að nýjum útidyrum.

Slökkviliðsstjóri var mjög ánægður með framkvæmdina.

Guðmundur Sveinsson smíðaði skápa á vegginn við neyðarútganginn (í suðurstofu)
fyrir fermingarkirtlana, eru þeir eins og annað hjá Guðmundi fyrsta
flokks. Þá lauk Guðmundur við frágang á
baðstofu og setti þar parket á gólfið. Síðan klæddi Tuðmundur loft og það sem með þurfti í herbergið yfir
eldhúsi. Einnig setti hann parket á
gólfið og litla eldhús – aðstöðu með skápum í herbergið. Sömuleiðis var sett parket á suðurstofugólfið
svo að nú vantar aðeins borð og stóla og gardínur í þessi herbergi svo þau séu
tilbúin til notkunar.

Eins og
sjá má er kominn kross á turninn. Krossinn er úr riðfríu stáli smíðaður af Skúla Magnússyni Miðtúni
12. Er smíðin gefin af Skúla sem áheit.

Þá er búið
að ganga frá miðstöðvar- og vatnslögnum úr kjallara safnaðarheimilisins í turn
og framlengingu kirkju og tengja miðstöðvarofna. Heitt og kalt vatn er leitt upp í herbergi
kirkjukórs á bak við orgelið. Gísli
Guðjónsson vann þetta verk fljótt og vel.

Þá er að
minnast á múrverkið. Í des. síðastliðinn
var samið við Helga Þorsteinsson í Hveragerði að hann tæki að sér að múra
turninn að innan. Í vetur hafa menn frá
Helga, þeir Ólafur Eyjólfsson frá Selfossi og tveir handlangarar unnið við
þetta verk. Einangrun, setja net og múra
var unnið í tímavinnu.

Um miðjan
maí var samið við Helga um það sem eftir er ómúrað verði unnið samkv.
uppmælingu, en það eru tröppur og gólf og rásir vegna pípulagna.

Magnús
Sveinbjörnsson múrarameistari og uppmælingamaður yfirleit verkið. Það sem eftir er og mun svo mæla upp þegar
lokið er.

Það er
ekki áhlaupaverk að múra turninn að innan. Margir litlir fletir aðstaða óhæg vegna þrengsla, mikill og erfiður
burður á efni, þar sem ekki er hægt að koma hífi-tækjum við.

Sigurjón
Erlingsson múrari mun í sumar pússa turninn og framlengingu kirkju að utan hvað
sem meira verður.

Í
kirkjugarðsviðbótina hefur í vetur verið ekið yfir 600 bílhlössum og sand-blendingu
úr grunni væntanlegrar lögreglustöðvar. Einnig var gerður vegur norður í garðinn vegna þessa
moldarflutnings. Nú er eftir að lagfæra
meðfram þessum vegi og jafna, með ýtu moldina í garðinum og sá grasfræi og
áburði.

Þá vil ég
minnast á kirkjuklukkur. Haft var
samband við Hauk Guðlaugsson söngmálastjóra þjóðkirkjunnar um klukkur. Hann tók vel í að aðstoða okkur og að hans
tillögum var haft samband við Kirkjuhúsið í R.V.K og ákveðið að panta 3 klukkur
frá norsku fyrirtæki O. Olsen og søns Klokke – stöperi Tonesberg.

1 klukka
240 kg. cís.

1 klukka 170 kg. dís.

1 klukka 100 kg. fís.

ásamt
tilheyrandi búnaði til hringingar, verðið er alls ca. 800 þús.

Otto
Michelsen forstj. I.B.M sem á hlut í kirkjuhúsinu er með þetta mál. Telur hann að um þrír mánuðir geti liðið þar
til klukkurnar koma.

Við höfum
skrifað fyrirtækjum á Selfossi og beðið um fjárstyrk til þessara kaupa og hafa
þau yfirleitt verið jákvæð í svörum.

Borist
hafa rúmlega 200 þús. kr. í klukknasjóð þar af 75 þús. kr. frá Kaupfélagi
Árnesinga og 75 þús. kr. frá Mjólkurbúi Flóamanna, vil ég færa þeim sem nú
þegar hafa gefið í sjóðinn bestu þakkir.

Þá vil ég
minnast fáum orðum á gjafir er kirkjunni hafa borist frá síðasta safnaðarfundi
í haust leið og eru hér í safnaðarheimilinu.

Þann 7.
des. 1986 afhenti Guðrún Guðbrandsdóttir kirkjunni að gjöf mynd af
kvöldmáltíðinni. Þetta er falleg mynd og
listavel gerð saumuð af Guðrúnu.

11. Jan.
1987 afhenti Steingrímur Ingvarsson forseti Bæjarstjórnar og frú Hildur
Hákonardóttir kirkjunni að gjöf listaverk ofið af Hildi er nefnist „Sköpunin“
sem hefur verið hér í safnaðarh. undanfarin ár. Það er listaverkasjóður Selfossbæjar og frú Hildur sem sameiginlega gefa
verkið. Hildur gefur sinn hlut til
minningar um föður sinn Hákon Guðmundsson yfirborgardómara Reykjavík.

18. febr.
s.l. var kirkjunni færð mynd að gjöf, „Í
nausti“, eftir Sigurð Sólmundarson Hveragerði. Gefendur eru bræðurnir Smári og Reynir Ársælssynir. Þeir bræður gefa myndina til minningar um
foreldra sína þau Hólmfríði Jóhannesdóttur og Ársæl Jóhannsson.

12. apríl
færði kvenfélag kirkjunnar henni að gjöf 60 fermingarkirtla sem notaðir voru
við fermingarnar í vor. Áður í vetur
hafði kvenfélagið gefið 100 þús. krónur upp í nýju ljósin í safnaðarh. Nokkuð af ljósunum voru sett í safnaðarh. í
sjálfan aðalsalinn, önnur eru komin í suðurstofu og anddyri.

Loftljósin
eru ennþá í kassa í anddyrinu og verður að hafa samband við seljandann um
festingar, en hann hefur verið erlendis. Gunnar rafvirki mun sjá um þetta eins og annað, sem rafmagni.

Ég vil
fyrir hönd sóknarnefndar þakka af alhug þessar rausnarlegu gjafir og allar
gjafir sem borist hafa kirkjunni. Að
lokum vil ég þakka Ólafi Sigurjónssyni organista kærlega samstarfið í vetur,
sem hefur verið með ágætum.

Þakka einnig prestunum samstarfið.

Þann 8.
nóv. ´86 voru gamlar sóknargjaldabækur gamlar reikningabækur kirkjunnar látnar
á nýstofnað Skjalasafn Árnessýslu. Kristinn Júlíusson fyrrv. bankastjóri veitti bókum þessum viðtöku fyrir
hönd safnsins.

Lýkur hér
með greinargóðri skýrslu Bjarna Dagssonar formanns,

endurskrifað af ritara. Guðbjörgu
Sigurðardóttur.



Aðalsafnaðarfundur

haldinn í safnaðarheimili
Selfosskirkju að aflokinni messu þann 24. apríl 1988.

Formaður Bjarni Dagsson setti fundinn og skipaði
fundarstjóra Sigurjón Erlingsson.

1.         Fundur settur

2.         Skýrsla formanns.

3.         Lesnir reikningar kirkju og
kirkjugarðs.

4.         Önnur mál.

Fer hér á eftir orðrétt ræða formanns.:

„Góðir fundarmenn. Ég við ykkur velkomin á þennan aðalsafnaðarfund. Ég vil byrja á því að minnast tveggja
samferðamanna okkar er létust á síðasta ári, þeirra sr. Sigurðar Pálssonar
vígslubiskups og Bjarna Pálssonar skólastjóra og byggingarfulltrúa.

Sr. Sigurður Pálsson var fæddur 1901 í Haukatungu
Hnappadalssýslu. Hann vígðist prestur að
Hraungerði 1933 og bjó þar til þess að hann flutti hingað að Selfossi
1956. Hann var prófastur
Árnesprófastdæmis 1965 og skipaður vígslubiskup Skálholtsbiskupsdæmis
1966. Er hann var sjötugur 1971 fékk
hann lausn frá embætti prests og prófasts og við kusum son hans Sigurð fyrir
prest.

Eftir það var sr. Sigurður Pálsson settur prestur í
Reykhólaprestakalli, þar sem hann þjónaði í nokkur ár. Hann skrifaði mikið um kirkjuleg málefni og
samdi meðal annars nýja messubók 1961 sem notuð hefur verið hér að mestu
líðan. Eftirlifandi kona hans er
Stefanía Gissurardóttir Ártúni 2. Selfossi.

Bjarni Pálsson var fæddur 1912 í Hlíð í
Gnúpverjahreppi. Hann og kona hans
Margrét Helgadóttir settust að á Selfossi 1942. Bjarni var skólastjóri Iðnskólans hér frá upphafi 1943 er skólinn var
fluttur hingað frá Eyrarbakka og byggingarfulltrúi á Selfossi frá stofnun Selfosshrepps
1947.

Bjarni teiknaði mikið af húsum hér, meðal annars Selfosskirkju ásamt
safnaðarheimili og turni. Ber mönnum
saman um að öll sé kirkjubyggingin stílhrein og falleg og höfundi sínum til
mikils sóma. Vil ég biðja fundarmenn að
votta þessum mætu mönnum virðingu og þökk með því að rísa úr sætum.“

Hér fer á eftir skýrsla formanns.

Karl Eiríksson er búinn að panta svo kallað refanet, til að nota í girðingu í
kringum kirkjugarðinn. Böðvar
Guðmundsson skógfræðingur telur að það þurfi 300 plöntur meðfram henni, áætlað
er að það kosti 150 kr. af 70 cm. háum plöntum, sem er í kringum 45.000,-
kr. Taldi hann að einnig væri gott að
hafa birkiplöntur með.

Í sambandi við skipulag umhverfis kirkjuna kom hingað
á vegum kirkjunnar og í sambandi við Jón Guðbjörnsson tæknifræðing
Selfossbæjar, Reynir Vilhjálmssonlandslagsarkitekt og athugaði umhverfið. Taldi hann vandasamt að skipuleggja hér og
vildi lítið segja í upphafi, en ætlar að senda okkur tillögur um það. Hann stakk þó upp á því að gera göngustíg, með
traustvekjandi grindverki ármegin við kirkjuna þaðan væri útsýnið fallegt, þá
vildi hann fá breiða hellulagða stétt meðfram kirkju og safnaðarheimili. Trúlega mun taka nokkurn tíma að fá þetta
skipulag, en það er komin hreyfing á það mál.

Eitt af verkefnum síðasta árs voru kaupin á
kirkjuklukkunum og uppsetning þeirra, en þær voru vígðar ásamt steindu
gluggunum í kór kirkjunnar þann 13. des. 1987 af biskupi Íslands kr. Pétri
Sigurgeirssyni. Öll gekk þessi framkvæmd
að óskum og kostnaðurinn, sem var um 1 millj. króna greiddur með gjafafé, sýnir
best vilja Bæjarbúa, til að fá nýjar kirkjuklukkur.

Söluskatt um 160 þús. kr. sem við ætluðum að fá endurgreiddan tókst okkur ekki
að fá, er við fórum í ráðuneytið í vetur. Var svarið, sem við fengum að aðeins væri felldur niður söluskattur af
orgelum.

Um steindu gluggana er það að segja að við fengum
stórgjöf 500 þús. krónur frá Gísla Sigurbjörnssyni forst. sem gerði okkur kleift að fá frá þýskalandi,
og eru þeir gerðir af frú Höllu Haraldsdóttur glerlistakonu og tókst með góðri
aðstoð Guðmundar Sveinssonar byggingameistara að koma á sinn stað fyrir Jól.

Eins og fram hefur komið, og það sem ég tel upp hér á
eftir, var mikið framkvæmdaár hjá kirkjunni. Lokið var byggingu turnsins, hann múrhúðaður inna og utan og
safnaðarheimilið múrhúðað að utan, sömuleiðis framlenging kirkjunnar. Eftir er talsverð innivinna þar.

Uppi áfast turninum, er herbergi fyrir kirkjukórinn,
þar er búið að einangra loftið og saga með steinsög tvennar dyr inná
kirkjuloftið, sitt hvoru megin við orgelið. Eftir er að klæða loftið, mála veggi og setja á gólfið. Þá er tilbúið herbergi kirkjuvarðar niðri við turninn, sem Jafnframt
verður notað sem brúðarherbergi. Þá er
einnig skrifstofa prests í safnaðarheimili, sem er að mestu tilbúin og síðan í
febrúar hefur hann haft viðtalstíma sína þar.

Einnig er áformað að hafa þar aðstöðu fyrir smærri fundi svo sem fundi
sóknarnefndar. Þar eru og
fermingarkirtlar geymdir.

Síðan eru komin ný ljós í safnaðarheimili, baðstofu og
víðar.

Guðmundur Sveinsson smiður kirkjunnar er nú búinn að
gera upp á verkstæði sínu, útidyr og innri hurðir kirkjunnar og setja þær í sín
nýju dyraop. Þurftu ytrihurðir mikilla
lagfæringar við. Anddyrið verður nokkuð
stærra en áður vegna tenginga við turninn. Snyrting verður ein eins og áður og verður hægt um vik fyrir fólk sem
þarf á hjólastólum að halda að notfæra sér hana.

Verður nú bráðlega hafist handa við að setja
steinflísar á forstofur og snyrtingar kirkju og safnaðarheimilis og mun
Sigurjón Erlingsson annast það verk.

Ennþá vantar millihurðarnar milli kirkju og
safnaðarheimili, borð og stóla í Baðstofuna o.fl. Verður unnið að þessu eins og aðstæður
leyfa. Þá þarf strax og veður leyfir að
mála kirkjuna og safnaðarheimilið að utan, bæði þak og veggi.

Þegar lokið er við frágang kirkjukórsherbergis þarf að taka orgelið í
endurskoðun og hreinsun. Höfum við í
huga að fá Ketil Sigurjónsson orgelsmið
í Forsæti til þess.

Þá höfum við hugsað okkur að girða kringum kirkjugarðsviðbótina og planta þar
birki umhverfis svæðið.

Í október 1987 komu í heimsókn til okkar sóknarprestur
og kirkjukór Akranessóknar og voru hér í messu. Á eftir var sameiginleg kaffidrykkja í safnaðarheimilinu. Síðan er ráðgert að sóknarprestur
Selfosskirkju ásamt kór og organista heimsæki Akranes. Áður hafa verið gagnkvæmar heimsóknir okkar
og Hafnarfjarðarkirkju báðum til ánægju.

Að endingu sagði Form.:

„Ég vil fyrir hönd sóknarnefndar þakka öllum iðnaðarmönnum og öðrum, sem unnið
hafa við kirkjubygginguna. Einnig kærar
þakkir fyrir áheit og gjafir sem bárust til kirkjunnar svo ríkulega á þessu ári
og síðasta. Þá þakkar sóknarnefndin
prestinum og organistanum og örðum starfsmönnum kirkjunnar þeirra störf. Að lokum. Fjölskylda Bjarna Pálssonar sendi kirkjunni fallegan blómvönd fyrir
messu og aðalsafnaðarfund.“

Eftir lestur skýrslu formanns gaf undarstjóri orðið
laust, enginn vildi tjá sig sérstaklega um skýrslu formanns. Voru reikn. kirkju og kirkjugarðs næstir á
dagskrá.

Karl Eiríksson las upp reikn. kirkju og kirkjugarðs og
voru þeir einróma samþykktir.

Karl skýrði frá því að hann hefði verið gjaldkeri kirkjunnar í 27 ár og bæðist
hann eindregið undan endurkjöri að minnsta kosti um næstu áramót.

Steingrím Ingvarsson form. byggingarnefndar gerði
grein fyrir reikn. byggingarnefndar.

Séra Sigurður Tók næstur til máls og þakkaði
byggingarnefnd og sóknarnefnd fyrir vel unni störf. Hann gat þess einnig að Stefanía
Gissurardóttir hefði tekið að sér að láta prenta á kort mynd af einum steinda
glugganna í kór kirkjunnar og hyggst selja kortin til ágóða fyrir gluggasjóð
svokallaðan, og hefur hún fengið leyfi til að selja þau fyrir fermingar í ár og
að sjálfsögðu áfram.

Séra Sigurður vakti einnig máls á að tímabært væri að
hefja meira starf við kirkjuna annað en Sunnudagaskóla. Sagði hann æskulýðsstarf gæti verið með mörgu
móti t.a.m. söngstarf eldri barna og unglinga, því eins og veið vitum eru það
minnstu börnin sem sækja sunnudagaskólann. Myndi þetta auka starfssvið organista kirkjunnar þessu varpaði séra
Sigurður fram sóknarnefnd til íhugunar.

Glúmur Gylfason sagðist vera tilbúinn til að nota þá
góðu aðstöðu í kirkjunni sem nú er orðin til að efla æskulýðsstarf á vegum
kirkjunnar.

Á fundinum var lögð fram svohlj. tillaga:

Aðalfundur Sóknarnefndar haldinn í Selfosskirkju 24/4 ´88 samþykkir að hækka
laun Glúms Gylfasonar og fela honum að aðstoða sóknarprestinn frekar við
æskulýðsstarf í Selfosskirkju. Þetta
verður gert í samráði við Glúm. Tillaga
þessi var samþykkt einróma.

Arndís Jónsdóttir vildi vekja athygli fundarmanna á að
hestar gengju lausir í nýja kirkjugarðinum og tættu upp jörðina, og eins gefur
að skilja myndast við það flag. Verða
nágrannar, sem búa rétt við kirkjugarðinn er ekki eru svo fáir, óþægilega varir
við það í þurrkum, þegar mold og ryk þyrlast upp, því ekki er ósjaldan rok á
þessum slóðum.

Formaður upplýsti að vonandi yrði ekki langt að bíða að girt yrði fyrir
skepnur, svo átroðningur þeirra yrði stöðvaður sem allra fyrst.

Fleira var ekki rætt á fundi þessum og var honum
slitið.

Mættir voru á fundinn.: Sigurður Sigurðarson, Arndís Jónsdóttir,
María Kjartansdóttir, Bjarni Dagsson, Valgerður Guðmundsdóttir, Glúmur
Gylfason, Karl Eiríksson, Ólafur Ólafsson, Halldór Magnússon, Steingrímur
Ingvarsson, Sigurjón Erlingsson, Sigurður Ólafsson, Jakob Havsteen og Guðbjörg Sigurðardóttir.

                        Guðbjörg
Sig. ritari.



Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 20. Júní
1988.

Tilefni fundarins var, að organisti kirkjunnar, Glúmur
Gylfason, hafði hug á að ræða við sóknanefnd um ástand kirkjuorgelsins, sem er
orðið vægast sagt mjög ábótavant.

Glúmur útskýrði vandlega og samviskulega fyrir
nefndarmönnum hvað ger þyrfti til úrbóta og sagði jafnframt að það myndi kosta
töluvert fé.

Það yrði of langt mál að telja upp hér þá viðgerð sem nauðsynleg er.

Nefndarmenn voru á einu máli um að fela Glúmi að
framkvæma það og skipuleggja það, sem gera þyrfti við orgelið, svo okkur öllum
væri sómi af. 

Mættir voru á fundinn: Bjarni dagsson, Karl
Eiríksson, Halldór Magnússon, Guðbjörg Sigurðardóttir og Friðsemd
Eiríksdóttir.                 ritari
Guðbjörg Si8gurðardóttir.

Sóknarnefndarfundur haldinn í Selfosskirkju 11. okt.
1988.

Form. Bjarni Dagsson kallaði saman sóknarnefndarfund.

Tilefnið var að ákveða hvort taka skyldi tilboði því
er Bruno Christensen og Sønner, Orgelbyggeri á Jótlandi í Danmörku lögðu fram á
fundinum.

Eins og kom fram hjá Glúmi Gylfasyni organista kirkjunnar á fundi 20. Júní
síðastliðinn, að töluvert fé fari í framkvæmdir þessar. Glúmur hefur kynnt sér vel og samviskusamlega
þessi mál og haft samband við kunnáttumenn hér á landi.

Ákveðið var á fundinum eftir nokkrar umræður, að taka
tilboði Buno Christensen og Sønner, er hljóðaði upp á rúmar þrjár
miljónir. 1 milljón skyldi borgast
strax, eða síðast í þessum mánuði (okt. 1988). Síðar yrði borguð 1 millj. þ.e.a.s. önnur útborgun. Þriðja útborgun eða afgangurinn, yrði
borgaður þegar verkinu er lokið.

Það skal tekið fram að Ketill Sigurjónsson frá Forsæti
aðstoðar við verkið hér heima að tilhlutan Dananna, sem sjá um að borga hans
vinnu, enda búnir að kynna sér hans kunnáttu og handbragð.

Fleira var ekki rætt á fundinum og honum því slitið.

Mættir voru á fundinn auk Bruno Christensen og Edward
Christensen frá Orgelverksmiðjunni: Bjarni Dagsson, Guðbjörg
Sigurðardóttir, Karl Eiríksson, Steingrímur Ingvarsson úr
byggingarnefnd, Glúmur Gylfason
organisti, Séra Sigurður Sigurðarson,

Ketill Sigurjónsson.                            ritari
Guðbjörg Sigurðardóttir (frh.)

Athugsemd frá ritara:

Tilboðið var lagt fram á fundinum í heild sinni, er hljóðaði upp á nokkrar
véritaðar síður og er þar rakið lið fyrir lið hvernig viðgerð orgelsins er
háttað.

Tilboðið er varðveitt hjá form. Bjarna Dagssyni og verður ekki nánar rakið hér.

Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.



 

Þriðjudaginn 28. febr. 1989 hélt sóknarnefnd
Selfosskirkju fund,

var það fyrsti fundur sóknarnefndar er setið var við
hið nýja fundarborð í skrifstofu sóknarprests.

Form. Bjarni Dagsson setti fundinn og ritaði
fundargjörð.

Form. las upp bréf frá bæjarstjóra Selfossbæjar
Karli Björnssyni þar sem segir í
fjárhagsáætlun bæjarsjóðs fyrir árið 1989 sé gert ráð fyrir að veita kr.
200.000,- kr. til Safnaðarheimilisins og 50.000,- kr. til steindra glugga. Sömuleiðis að veita kirkjukórnum 100.000,-
kr. styrk til utanfarar.

Lýstu fundarmenn ánægju sinni með þessar fjárveitingar Selfossbæjar.

Þá las form. upp bréf frá stjórn kirkjukórs
Selfosskirkju, þar sem óskað er eftir fjárstuðningi við ferð kórsins í vor, þar
sem ákveðið hefur verið að syngja í Hamborg og nágrenni og einnig 17. júní
fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn, þetta verður ½ mán. ferð.

Fundarmenn tóku þessari málaleitan vel og eftir nokkrar umræður var samþykkt
samhljóða að styrkja kórinn með kr. 200.000,- kr. til ferðarinnar.

Sr. Sigurður minntist á hjónanámskeið, sem nú eru
haldin í nokkrum kirkjum og áætlað er að halda hér þann 15. apríl n.k.   Stjórnendur eru Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson,
Sr. Birgir Ásgeirsson og sr. Þorvaldur Karl Helgason.

Samþykkt var að greiða kostnað, svo sem kaffi og auglýsingar vegna
námskeiðsins.

Rætt var nokkuð um framkvæmdir við kirkjuna og aðaláhersla
lögð á að fá millihurðina setta upp sem fyrst, einnig handrið meðfram tröppum í
turni.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.   Aðalsafnaðarfundur ákveðinn 9. apríl.

Mættir á fundinn.: Sr. Sigurður Sigurðarson, Steingrímur Ingvarsson, Friðsemd
Eiríksdóttir, María Kjartansdóttir, Sigurjón Erlingsson, Jakob Havsteen, Karl Eiríksson og Bjarni Dagsson.

Fundargerð var samin af Bjarna Dagssyni form. (G.S).

Aðalsafnaðarfundur haldinn í Selfosskirkju Sunnud. 16.
apríl 1989

að aflokinni messu.

Dagskrá fundarins:

Skýrsla
formanns.

Sagt frá fyrirhuguðum framkvæmdum.

Reikn. kirkju og kirkjugarðs.

Kosning í sóknarnefnd.

Fyrstur tók til máls form. Bjarni Dagsson. Flutti hann skýrslu og útskýrði mjög ýtarlega
framkvæmdir við kirkjuna frá síðastliðnum Aðal – safnaðarfundi.

Fer skýrsla hans hér á eftir nær óbreitt.:

Frá því að Aðalfundi í fyrra hefur framkvæmdum við
kirkjuna verið haldið áfram. Unnið var
við herbergi bak við orgelið og þar hefur nú kirkjukórinn æfingar sínar að
nokkru. Innveggur herbergisins, sem áður
var útveggur kirkjunnar er látinn halda sér með upprunalegri áferð, nema
gluggunum er lokað með einangrun. Kirkjuklukkurnar gömlu hanga óhreyfðar á veggnum og eru þar til
prýðis. Dyraop voru söguð sitt hvoru
megin við orgelið þar sem gengið er inn á söngloftið. Farið er upp í herbergið um turninn. Guðm. Sveinsson sá um verkið, en Herbert
Grans málaði herbergið og kaffiaðstaða er til staðar og korkplötur eru á
gólfinu. Þá er mikið búið að gera í
sambandi við lengingu kirkjunnar, þar sem tekið var skilrúmið milli kirkju og
anddyris, sem bætist nú við kirkjuskipið. Stiginn upp á söngloftið var tekinn ásamt W.C. og gólf sett í
stigaopið. Snyrtingin er nú í nýja
anddyrinu það stórt að þar komast hjólastóll inn.

Herbert Grans málaði síðan stækkunina í samræmi við litinn á kirkjunni. Sérstaklega tók form. fram hve vel tókst til
með munstrið í loftinu þar sem stigaopið var, svo ekki sést munur á. Herbert er um þessar mundir að ljúka við að
mála turninn.

Kirkjan var einnig máluð að utan síðastliðið vor. Áður voru veggir þvegnir og gert við sprungur
og annað er þurfti lagfæringar við. Málningarþjónustan málaði kirkjuna og Sigurjón Erlingsson múrari sá um
lagfæringar og viðgerðir.

Síðastliðið vor lagði Sigurjón Erlingsson múrari
steinflísar á anddyri kirkjunnar og anddyri Safnaðarheimilis og
útitröppur. Rafhitalögn var sett á
tröppurnar undir flísarnar, hefur það komið sér vel í vetur. Víst er að almenn
ánægja er með þessa framkvæmd. Þá var
lagt teppi á stigann upp á loft Safnaðarheimilisins og gengið frá skápum í
Baðstofu.

Vegna aukins húsnæðis og mikla kórastarfsemi, voru í sumar keypt 2 píanó hjá
hljóðfæraverslun Leifs Magnússonar. Fengust þau á hagstæðu verði.

Annað píanóið er nýtt frá Kóreu, en hitt er frá Hollandi þriggja ára en ónotað
og er það í Baðstofu. Samkórinn er með
æfingar þar, svo einnig æfir Glúmur Gylfason barnakór Selfosskirkju, er
stofnaður var í haust, í sept.

Kórinn söng mörg lög á aðventukvöldi og eins á Jólatónleikum. Er ætlunin að kórinn syngi stöku sinnum við
messu. Þess skal getið að Barnakórinn
söng í fyrsta skipti við messu 16. apríl 1989.

Þá minntist form. á Orgelið. Orðin var mikil þörf á hreinsum og
lagfæringu.

Í sumar leið voru hér á ferðinni Danskir orgelsmiðir. Glúmur Gylfason fékk þá til að koma og kynna
sér ástand orgelsins. Vísa ég hér til
fundar, er boðað var til 11. okt. 1988 bls. 59 (fundargerðarbók). Stilltu
orgelsmiðirnir hljóðfærið áður en þeir fóru og var það til mikilla bóta.

Í stuttu máli er aðalbreytingin á orgelinu sú, að
fengið verður nýtt hljómborð með léttari áslætti og betri aðstöður fyrir
organistann. Verður það fært frá
orgelinu eins og rými leyfir, og kemur þá söngfólkið til með að standa fyrir
framan organistann. Einnig verður gerð
breyting á nokkrum tónpípum og endurnýjaðir slitnir hlutir. Verksmiðjan er búin að senda efni til
viðgerðar. Áætlað er að Ketill
Sigurjónsson frá Forsæti byrji að vinna við orgelið í sumar á vegum
Verksmiðjunnar. Búið er að greiða 1
millj. samkvæmt samningi.

Í haust voru keyptir stólar til að hafa í Baðstofu og
kórherbergi, 80 alls. Stólarnir eru danskir
og flutti kirkjan þá sjálf inn, en Gamla Kompaníið er umboðsaðili. Auk þess voru keyptir 12 stólar til að hafa
við nýja fundarborðið er Guðmundur Sveinsson smíðaði og er í skrifstofu
prestsins. 

Í sumar var kirkjugarðurinn girtur með þéttriðnu neti
og vírstreng yfir og undir. Síðan voru
birkiplöntur gróðursettar umhverfis viðbót kirkjugarðsins. Voru Keyptar 300 stk. 0,80 cm. háar plöntur á
kjarri og fl. teg.

Formaður minntist á að mikil þörf væri á skipulagi umhverfis kirkjuna. Var Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt
fenginn til þess. Hann kom svo í Júlí
ásamt nemanda sínum Dagnýju Bjarnadóttur. Jón Guðbjörnsson tæknifr. Selfossbæjar var þeim til aðstoðar í sambandi
við teikn. á lóðinni.

Mánuði síðar komu þau Reynir og Dagný með tillögur til sýnis í kirkjunni.

Kirkjukórinn hefur ákveðið að fara í söngferð til
útlanda í Júní í sumar, ½ mán. ferð.

28. febr. síðastl. var fundur í sóknarnefndinni var þar ákveðið að styrkja
kórinn til ferðarinnar að upphæð 200.000,- kr.

Formaður þakkaði gjafir til kirkjunnar, þ.á.m.
fánastöng við kirkjuna, sem gefin var af Guðfinnu og Karli Eiríkssyni manni
hennar ásamt börnum þeirra og barnabörnum til minningar um Sigríði móður Karls.

Að lokum þakkaði form. öllum iðnaðarmönnum og öðrum sem unnið hafa vel og
samviskusamlega að framkvæmdum við kirkjuna.

Næst á dagskrá voru kosningar.

Úr aðalstjórn áttu að ganga Karl Eiríksson, María Kjartansdóttir, Friðsemd
Eiríksdóttir. Gáfu þau öll kost á sér
til endurkjörs til næstu fjögra ára og voru þau einróma endurkjörin.

Þvínæst var að kjósa í varastjórn. Tveir áttu að ganga úr varastjórn. Þau Aldís Bjarnardóttir og Gissur I. Geirsson
báðust þó eindregið undan endurkjöri. Í
stað þeirra voru kjörin Sigríður Bergsteinsdóttir og Ólafur Ólafsson, einnig
til fjögra ára.

Þess má geta eftir 2 áar verður kosinn Safnaðarform.

Hér fara eftir nöfn sóknarnefndarmanna.

Aðalstjórn.                                                               Varamaður.

Bjarni Dagsson
formaður                        —        Erla
Kristjánsdóttir

Guðbjörg Sigurðardóttir ritari                 —        Sigurjón Erlingsson

Karl Eiríksson gjaldkeri                               —        Hjörtur Þórarinsson

María Kjartansdóttir                                   —        Jón Ólafsson

Jakob Havsteen                                           —        Gunnar Á. Jónsson

Friðsemd Eiríksdóttir                                  —        Ólafur Ólafsson

Steingrímu Ingvarsson                              —        Sigríður Bergsteinsdóttir.

Næst á dagskrá reikningar kirkju og kirkjugarðs.

Karl Eiríksson gjaldkeri las þá upp og voru þeir einróma samþykktir.

Þessu næst kvaddi sér hljóðs Steingrímur Ingvarsson og
lagði fram reikninga byggingarnefndar og lágu þeir frami á fundinum. Skýrði hann frá því að settar yrðu flísar á
gólfið í kirkjunni. Kvenfélag
Selfosskirkju hefur ákveðið að gefa parket á stóra salinn. Steingrímur sagði að ákveðið væri að setja
klæðningu á kirkjuna eins og viðbyggingu og safnaðarheimili. Kostnaður við flísalagningu taldi hann vera
um 1 ½ milj. 

Formaður gerði grein fyrir hjálparsjóði Selfosskirkju
og hafa þegar nokkrir fengið aðstoð úr þeim sjóði.

Séra Sigurður tók til máls og þakkaði öllum er unnið
hafa af dugnaði og samviskusemi við störf kirkjunnar. Nefndi hann sérstaklega form. Sóknarnefndar
gjaldkera og byggingarnefnd.

Arndís Jónsdóttir upplýsti á fundi þessum, að
Kvenfélag kirkjunnar vildi styrkja hinn nýja Barnakór kirkjunnar svo sem að
láta sauma á börnin búninga er þau klæðast í þegar þau koma fram.

Gunnar Á. Jónsson kom með tillögu um að koma að
fréttum frá safnaðarstarfinu, svo sem í Dagskránni eða héraðsblöðum, svo menn
gætu fylgst með hvað væri verið að gera og framkvæma við kirkjuna, því allt of
fáir mæta á Aðalsafnaðarfundi. Voru
fundarmenn ánægðir með tillögu þessa.

Fleira kom ekki fram á fundinum. Fundi slitið.   Guðbjörg Sigurðardóttir ritari.

Eftirfarandi
blaðsíðu hafði verið skotið inn í fundargerðarbók og lenti inni í miðri síðustu
fundargerð. Afritari ákvað að láta hana
fylgja hér með í ljósrituðu formi. (EÓJ)