NORÐMENN Í HEIMSÓKN.
Síðastliðinn laugardag, 1. október, tók kirkjukór Selfosskikju á móti 70 manna norskum kór. Norski kórinn er í raun ekki starfandi kór heldur hópur fólks úr nokkrum kórum af vesturströnd Noregs. Kórarnir héldu sameiginlega tónleika í kirkjunni þar sem þeir sungu bæði saman og sitt í hvoru lagi. Tóleikarnir tókust vel og gaman fyrir kirkjukórinn að taka þátt í verkefni sem þessu.
VETRARSTARFIÐ HEFST Á FIMMTUDAGINN KEMUR.
Þann 8. september. Spennandi og krefjandi verkefni eru framundan í vetur. Æft er í kirkjunni á fimmtudagskvöldum klukkan 19:30. Alltaf er rúm fyrir góðar raddir og skemmtilega félaga í þennan góða hóp.
Myndir frá vel heppnuðum afmælistónleikum kórsins síðastliðinn vetur.
ÁVARP FLUTT Á 70 ÁRA AFMÆLI KÓRSINS 19 MARS 2016:
Ágætu tónleikagestir.
Ég vil í upphafi bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin á hátíðartónleika Kirkjukórs Selfosskirkju. Tímasetningin er ef til vill ekki hefðbundin fyrir tónleikahald þar sem kórar flytja afrakstur vetrarstarfsins. Ástæðan fyrir þessari tímasetningu okkar tónleika er þó engin tilviljun. Kórinn er sjötíu ára í dag. Afmæli kórsins er eitt þriggja afmæla sem haldið hefur verið uppá hérna í kirkjunni alla vikuna og líkur á morgun með hátíðarmessu klukkan tvö. Það var þriðjudagskvöldið 19. Mars 1946 að tuttugu manns komu saman til formlegrar stofnunar Kirkjukórs Selfosskirkju. Ungmennafélag Selfoss hafði veturinn áður sett saman sönghóp og líklegt má teljast að stofnun kórsins sé afsprengi þess. Í það minnsta hefur alla tíð ríkt góður ungmennafélagsandi þar sem allir hjálpast að til að ná sem bestum árangri og njóta söngs og samveru þó aldursbil spanni hart nær þrjár kynslóðir. Kirkja á Selfossi var á þeim tíma enn á hugmyndarstigi en ört stækkandi byggð hér við bakka Ölfusár kallaði á aukna þjónustu til handa íbúum sem streymdu víða að. Nánar verður fjallað um sögu kórsins milli laga hér á eftir. Fyrstu tónleikar kórsins voru svo í Selfossbíó föstudagskvöldið 22 mars klukkan níu. Menn voru ekkert að tvínóna við hlutina í þá daga og voru tilbúnir til tónleika á þrem dögum. Undirbúningur fyrir þessa tónleika hefur staðið ögn lengur. Á tónleikunum 1946 voru flutt níu lög auk þriggja ávarpa. Við munum einmitt flytja mörg þeirra laga sem flutt voru þá núna á tónleikunum. Þá munum við einnig blanda stuttum erindim inn á milli laga og reyna þannig að fanga þá stemningu sem ríkti fyrir 70 árum. Þau lög sem voru á fyrstu tónleikum kórsins eru merkt með stjörnu fyrir framan í söngskránni.
Þegar boðað er til afmælisveislu er gjarnan boðið góðum gestum. Þannig er einnig um okkur. Við höfum boðið nágrana kirkjukórum okkar að vera með okkur hér í dag. Þetta eru kórar Hveragerðis og Kostrandasókna og Kór Þorlákskirkju, en organisti og kórstjóri þeirra kóra er Miklós Dalmay. Kirkjukór Hraungerðis- og Villingaholtssókna en stjórnandi hans er Ingi Heiðmar Jónsson. Þá mun Halla Dröfn Jónsdóttir syngja einsöng með okkur. Stjórnandi Kirkjukórs Selfosskirkju er Edit Anna Molnár og undirleikari á þessum tónleikum er Miklós Dalmay.
Við erum afar þakklát þessum nágranakórum okkar fyrir að leggja það á sig að vera með okkur í dag og æfa sérstaklega fyrir þessa tónleika. Það er von okkar að þetta marki upphaf meiri samvinnu kóranna sem geri þeim kleift að takast saman á við stór og krefjandi verkefni í framtíðinni.
Okkur er ekkert að vanbúnaði að hefja tónleikana. Fyrsta lagið sem við flytjum er Við kirkjunnar klukkna hljóm. Þetta lag hefur fylgt kórnum lengi og er titillag samnefndrar geislaplötu sem gefin var út í tilefni af 60 ára afmæli kórsins fyrir 10 árum.
Við Kirkjunnar klukkna hljóm. Gjörið svo vel. Ding ding ……
Endir.
Þetta er búin að vera ógleymanleg stund hérna í dag. Kærar þakkir til ykkar allra. Edit – Miklós – Ingi Heiðmar og ykkar kórafólk. Halla dröfn fyrir frábæran söng. Svala fyrir lesturinn og til ykkar gott fólk fyrir komuna.
Kirkjukórinn æfir á fimmtudögum kl. 19:30.
Kirkjukórinn í bleikri messu ásamt kórstjóra sínum og organista Edit Molnár og sr. Ninnu Sif Svavarsdóttur
Kirkjórinn með fyrrum stjórnanda sínum Jörg E. Sondermann