Kirkjugarður

R E G L U R um umgengni og frágang grafreita í Selfosskirkjugarði nr. 400/2010.
1. Markmið þessara reglna er að tryggja að legsteinar séu settir niður á grafreiti
með samræmdum og skipulögðum hætti. Jafnframt setja reglur þessar stærð og
afmörkun minnismerkja á grafreitum ákveðnar skorður.
2. Reglurnar gilda um umgengni í kirkjugarði Selfoss og um frágang á grafreitum
og duftreitum.
3. Öllum er heimill aðgangur að kirkjugarðinum á opnunartíma hans svo
framarlega sem reglum þessum og almennum umgengnisreglum sé fylgt. Ekki
er þó heimilt að taka með sér hunda, hesta eða önnur dýr inn í garðinn.
4. Opnunartími kirkjugarðsins er frá kl. 07-21 alla daga ársins. Á opnunartíma er
umferð vélknúinna ökutækja leyfð ef um erindisakstur er að ræða.
5. Hámarkshraði ökutækja er 20 km/klst.
6. Enginn má vinna í kirkjugarðinum gegn gjaldi nema með leyfi kirkjuvarðar.
Vinna í garðinum er óheimil á eftirfarandi helgidögum; föstudaginn langa,
páskadag, hvítasunnudag, aðfangadag jóla, jóladag og nýársdag.
7. Umgengni um garðinn og einstaka grafreiti skal vera til fyrirmyndar og varast
ber að skilja eftir rusl, jurtaleifar, mold eða nokkuð annað sem óprýði eða
óþægindum getur valdið, heldur setja í ruslagáma á athafnasvæði eða þar sem
kirkjuvörður hefur gefið fyrirmæli um.
8. Aðstandendur skulu hafa samband við kirkjuvörð áður en gengið er frá grafreit
og minnismerki. Uppsetning minnismerkja er á ábyrgð aðstandenda sem og
endanlegur frágangur grafreita. Starfsmenn kirkjugarðsins sjá um að slétta
grafreit og tyrfa u.þ.b. ári eftir greftrun og er það gert án sérstaks endurgjalds.
9. Óheimilt er að fjarlægja minnismerki eða aðra varanlega hluti af grafreit án
leyfis kirkjuvarðar.
10. Umsjónarmenn kirkjugarðsins bera ekki skaðabótaskyldu ef minnismerki eða
annað sem á grafstæði kann að vera skemmist eða ónýtist af völdum náttúruafla
eða skemmdarvarga.
11. Ekki er leyfilegt að setja upp girðingar úr málmi, steini, timbri eða öðrum
efnum, umhverfis einstaka grafreiti eða fjölskyldugrafreiti.
12. Um kistugrafreiti gildir: Kistugrafreitir eru 2,5 x 1,2 m að ummáli. Ekki er mælt
með sérstakri afmörkun grafreita, nema þá röð af hellum, náttúrusteini eða
sambærilegu. Kjósi aðstandendur að hafa sérstaka afmörkun um grafreit, skal
efri brún hellu eða steins vera í sömu hæð og jarðvegsyfirborð. Afmörkunin má
ekki taka yfir nema 1/3 hluta grafreitar. Legsteinar, önnur minnismerki og
undirstöður þeirra skulu ávallt vera innan fyrrgreindra marka. Hámarksbreidd
legsteins á einföldum grafreit er 0,8 m og 1,8 m þegar legsteinn nær yfir 2
grafreiti. Hámarkshæð legsteins frá yfirborði jarðvegs er 1,7 m. Tryggja skal
undirstöður undir legsteina og skylt er að jarðvegsskipta að lágmarki 0,6 m
undir undirstöðu. Hámarkshæð trékrossa á kistugrafreit er 1,3 m frá jörðu.
13. Um duftgrafreiti gildir: Duftgrafreitir eru 0,75 x 0,75 m að ummáli og er ekki
gert ráð fyrir afmörkun um þá, nema þá röð af hellum, náttúrusteini eða
sambærilegu, sem er í sömu hæð og jarðvegsyfirborð. Á duftgrafreitum mega
legsteinar einungis vera púltsteinar, 0,5 x 0,4 x 0,2 / 0,1 m að stærð (l x b x h), en
þeir liggja láréttir á jörðu með skáhallandi leturfleti. Hámarkshæð trékrossa á
duftgrafreiti er 0,3 m frá jörðu. Tryggja skal undirstöðu undir púltlegstein.
14. Ekki er heimilt að planta trjám og hávöxnum runnum á grafreiti. Gróður má e
kki ná út fyrir grafreit og því má ekki gróðursetja skriðula fjölæringa eða runna
sem geta fjölgað sér með sjálfsáningu eða rótarskoti.
15. Heimilt er að koma fyrir duftkeri í kistugrafreit.
16. Þegar ekki hefur verið hirt um grafreit samfellt í 3 ár er kirkjuverði heimilt að g
era ráðstafanir þar að lútandi, t.d. með því að tyrfa grafreit.
■Reglur þessar sem settar eru samkvæmt tillögum kirkjugarðsstjórnar
Selfosssóknar með heimild í 51. gr. laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr.
36 4. maí 1993, öðlast þegar gildi.

Saga Selfosskirkjugarðs

Eftir að þéttbýli tók að myndast á Selfossi áttu íbúar kirkjusókn að Laugardælum. Árið 1941 var fyrst farið að ræða kirkjubyggingu á Selfossi og var strax áhugi fyrir því þótt langt væri í land með að af framkvæmdum yrði. Ári síðar eða 1942 var keypt lóð fyrir kirkju og kirkjugarð úr landi “austurbæjar” á Selfossi. Árið 1943 var girtur af kirkjugarður þar sem nú er Smáratún og var hann vígður 21. ágúst 1944. Ekki var þar um stóran garð að ræða, varla fyrir meira en 20 – 30 grafir. Um þetta leyti var byggð ört vaxandi á Selfossi og var litið mjög til þessa svæðis fyrir íbúðahúsabyggð. Varð þá hætt við þennan kirkjugarð og nýr garður gerður þar sem nú er, norðan við kirkjuna umvafinn Ölfusá til austurs og norðurs, og var sá garður vígður 2. janúar 1945. Um vorið voru svo þær kistur er jarðsettar voru í Smáratúni færðar í nýja garðinn.

Fyrstu árin hafði kvenfélag Selfoss eftirlit með að hirða og slá kirkjugarðinn en fljótlega tók Magnús Jónasson meðhjálpari að sér þetta verk og með honum var Sigurður Grímsson a.m.k. öðru hvoru. Karl Eiríksson tók við starfi Magnúsar 1977 og hafði hirðingu garðsins á hendi til 1990 en þá tók Gunnþór Gíslason við þeim hluta starfsins í nokkur ár eða þar til Garðar Einarsson tók við starfi kirkjuvarðar Selfosskirkju árið 1997 og hefur haft yfirumsjón með garðinum fram á þennan dag.

Um 1988 var kirkjugarðurinn að verða fullnýttur, enda mörg frátekin leiði, og var þá hafist handa um stækkun hans. Þá gáfu systkinin á “austurbænum” á Selfossi land undir útfærslu við hlið gamla garðsins og var þá strax hafist handa við að lagfæra og girða nýja garðinn. Hann var síðan vígður 9. nóvember 1991. Í febrúar 1998 kom Sigurjón Erlingsson ritari sóknarnefndar fram með tillögu um að útbúa minningarreit í kirkjugarðinum “Til minningar um ástvini sem hvíla í fjarlægð”. Tillagan var samþykkt samhljóða. Til hönnunarverksins var fenginn landslagsarkitektinn Oddur Þ. Hermannsson og var minningarlundurinn vígður sumarið 2000, en hann er austast í eldri hluta kirkjugarðsins.

Tekið saman af Karli Eiríkssyni f.v. kirkjuverði á haustdögum 2002.