Gluggar Selfosskirkju

Gluggar Selfosskirkju

Gluggar í kór

Steindir gluggar kirkjunnar eru gerðir af glerlistafókinu Höllu Haraldsdóttur og Dr. H. Oidtmann í Linnich í Þýskalandi.
Gluggarnir 6 í kór kirkjunnar voru gefnir af Gísla Sigurbjörnssyni kenndum við elliheimilið Grund.  Þeir komu árið 1987 og tákna sex stórháðíðir kirkjuársins.  Sé horft inn að altari eru þar á vinstri hönd þrír gluggar; hinn ysti minir á heilög jól og fæðingu Jesú í Betlehem, sá í miðið á páskahátíðina og tóma gröf hins uppristna og sá innsti minnir á hvítasunnuhátíðina og gjöf Heilags anda, sem markar upphaf kristinnar kirkju.  Þetta er í raun Maríumynd sem skírskotar til postullegrar kenningar og kirkjunnar sem móður allra kristinna manna.

Af gluggunum til hægri táknar hinn innsti Maríu guðsmóður en kirkjan heiðrar minningu hennar með því að tengja ákveðna helgidaga hennar nafni, og eru helstir Maríumessa á föstu 25. mars og Maríumessa á sumri 2. júlí.  Glugginn í miðið táknar hátíð Heilagrar þrenningar og minnir á að Guð er leyndardómi sínum einn og þrennur; Faðir, Sonur og Heilagur andi.  Ysti glugginn hægra megin er af Pétri postula.  Minning hans er heiðruð 29. júní á Tveggjapostulamessu sem ætla má að hafi verið haldin í kirkjunni frá árinu 258, það ár sættu kristnir menn ofsóknum í Rómaborg voru líkamsleifar postulanna Símonar Péturs og Páls þá teknar upp og fluttar í katakomburnar, en svo nefnast fornar grafhvelfingar kristinna manna sem eru neðanjarðar í borginni.  Heimildir um Tveggjapostulamessu er að finna allt frá árinu 364.  Pétur hefur tvö lykla sem minna okkur á lyklavald kirkju Krists og orð hans við Pétur: “Ég mun gefa þér lykla himnaríkis” (Matt. 16,19).  Lyklarnir eru tveir, annar til að læsa og hinn til að ljúka upp.

Gluggar í kirkjuskipinu

Þeir komu árið 1993.  Sé horft inn að altari merkja gluggarnir til vinstri hið mannlega.  Þróun, líf og ævi og nánar eftirfarandi; talið að innan og út:
1.  Adam og Eva.    2. Barn, horft til framtíðar.   3. Unglingur, í blóma lífsins.   4. Fjölskyldan og kærleikurinn.  5. Ævikvöld er sól hnígur til viðar.

Gluggarnir til hægri tákna hið guðlega, sköpun þess og þróun og nánar merkja þeir eftirfarandi:  talið utar eftir kirkjuskipinu:
1. Upphafið.   2. Verði ljós.    3. Sköpun lita og himintungla.    4. Sköpun gróðurs, fugla og fiska, fjöll rísa úr sæ.     5. Hvíldardagurinn.