Aðdragandi að stofnun

Aðdragandi þess að stofnaður var kirkjukór á Selfossi var sá að byggð fór mjög vaxandi við Ölfusá og fannst mörgum vanta einhvern til að annast söng við guðþjónustur og fleiri samkomur.   Í febrúar árið1945 hélt Kjartan Jóhannsson söngnámskeið sem nokkur hópur sótti, þessi hópur söng fyrst við messu á páskadegi í Laugardælakirkju árið 1945.
Organistinn, Anna Eiríksdóttir hélt áfram æfingum og var organisti til haustsins 1955. Um haustið 1945 kom Ingimundur Guðjónsson söngstjóri til liðs við hópinn. Hann flutti til Þorlákshafnar vorið 1954.

Stofndagur kórsins 19. mars 1946.

Stofnendur voru  26. talsins, Ingólfur Þorsteinsson, varð fyrsti formaður, Brynjólfur Valdimarsson gjaldkeri, Karl Eiríksson ritari, Jóhanna Sturludóttir og Ingibjörg Sveinsdóttir meðstjórnendur.  Fyrstu tónleikar voru hinn 26. mars 1946 í Selfossbíó. Næstu árin fóru æfingar oftast fram í Iðnskólanum við Sigtún.  Varanlega aðstöðu fékk kórinn í kjallara hinnar nýju kirkju haustið 1954, um leið og guðsþjónustur hófust þar.  Framundan var vígsla hinnar nýju kirkju. Til undirbúnings þeirrar hátíðar og framtíðarstarfs við stjórn kirkjusöngsins var Guðmundur Gilsson ráðinn söngstjóri og organisti haustið 1955.  Fyrsta sönghátíð kórsins var við vígslu kirkjunnar á Pálmasunnudegi 25. mars 1956. Messubók Sr. Sigurðar Pálssonar kom út um þetta leyti.  Tók kórinn hana til meðferðar. Mörg klassísk meistaraverk voru æfð.  Þá æfði kórinn einnig léttklassíska tónlist, sem flutt var við ýmis tækifæri. Árið 1967 flutti Guðmundur Gilsson til Reykjavíkur.  Eftir það kom Abel Roderiques til starfa  og síðar Einar Sigurðsson, en frá árinu 1972 hefur Glúmur Gylfason verið organisti og söngstjóri kórsins. Glúmur Gylfason var  í ársorlofi árið 1987 og gegndi Ólafur Sigurjónsson starfi hans á meðan.   Kórinn hefur flutt mörg stórverk, bæði einn sér og í samstarfi við aðra kóra.   Hann hefur komið fram í sjónvarpi og sungið í kirkjum í Reykjavík, Skálholti og víðar.  Kórinn hefur farið í söngferðir til Þýskalands, Ungverjalands og Írlands.

 Í samntekt Hjartar Þórarinssonar í júlí 2000