Mögnuð tónlist í Selfosskirkju

Kirkjukór Selfosskirkju, undir stjórn Edit Anna Molnár, tók þátt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands í Selfosskirkju í annað sinn. Fyrst á jólatónleikum þess í desember sl., og síðan 8. apríl á páskatónleikum hljómsveitarinnar „Magnificat“.
Einsöngvarar á þessum tónleikunum voru Helga Rós Indriðadóttir sópran, Gunnlaugur Bjarnason barítón. Auk þeirra komu þrir kórar fram með hljómsveitinni. Þetta voru Kirkjukór Selfosskirkju, Kammerkór Norðurlands og Skagfirski kammerkórinn. Stjórnandi var Guðmundur Óli Gunnarsson.
Seinni hluti tónleikanna var helgaður hinu magnaða verki Magnificat eftir breska tónskáldið John Rutter.
Takk fyrir frábæra frammistöðu og ógleymanlega tónleika.

Myndbandið lítur upp yfir kirkjubekkinn og sýnir frá æfingu fólksins.

Kórfólkið í Selfosskirkju og reyndar allt tónlistarfólkið lagði mikla undirbúningsvinnu í verkið eins og heyra mátti af flutninginum.

Frá samæfingu kórsins
Kóranir og hljómsveitin stillir strengi.

Stjórnandinn Guðmundur Óli Gunnarsson ávarpar áheyrendur

Edit Anna Molnár kórstjóra þakkað fyrir og klappað lof í lófa eftir ríkulega sáningu og uppskeru.

Noregsferð Unglingakórs Selfosskirkju

Dagana 1. – 5. maí síðastliðinn fóru 11 félagar úr Unglingakór Selfosskirkju ásamt fararstjórunum Kolbrúnu, Jóhönnu Ýr og  Eyrúnu kórstjóra til Noregs í söng og skemmtiferð.

Flogið var til Osló þar sem Gróa Hreinsdóttir kórstjóri og atvinnubílstjóri tók á móti hópnum. Förinni var heitið til Drammen þar sem fyrsta stopp var á Mc Donald’s en þar á eftir fengum við að njóta útsýnisins við Spiralen sem er fallegur útsýnisstaður þar í bæ.

Fimmtudaginn 2. maí hjóluðu kórfélagar um bæinn ásamt því að kíkja aðeins í búð. Seinni partinn var komið að undirbúningi fyrir tónleika í Tangenkirkju en þar hélt kórinn tónleika með kvennakórnum Gospellsystrum. Kórfélagar fluttu hluta af dagskrá tónleikanna “Raddir sunnlenskra ungmenna” sem voru í Selfosskirkju 7. apríl síðastliðinn. Vel var mætt á tónleikana og er óhætt að segja að tónleikargestir hafi verið ánægðir með sönginn og kynningarnar sem þau sáu alfarið um sjálf.

Föstudagsmorguninn 3. maí tókum við lestina til Osló. Þegar þangað var komið röltum við um miðbæinn. Skoðuðum m.a konungshöllina, miðbæinn, Óperuhúsið og höfnina. Heldur var þó kaldara en búist var við og var því menningarlega gönguferðin ögn styttri en ráð hafði verið gert fyrir og stefnan tekin á helstu verslunarmiðstöð miðbæjarins. Dagurinn endaði á hinum margrómaða veitingastað Hard Rock.

Kolbrún Guðmundsdóttir, Eyrún Jónasdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

 

Þá var komið að laugardeginum 4. maí sem beðið hafði verið með eftirvæntingu. Förinni var heitið í skemmtigarðinn Tusenfryd þar sem kórfélagar nutu dagsins í rússbönum, sleggjum og fallturnum svo eitthvað sé nefnt. Fararstjórar hins vegar sátu kappklæddir og drukku misvont kaffi. Um kvöldið var borðað á frábærum ítölskum veitingastað í miðbænum.

Sunnudaginn 5. maí hófst með gönguferð um Akerhús og Akerbryggju. Því næst var komið að messu í Nordbergkirkju þar sem kórfélagar sungu messu með Ískórnum undir stjórn Gróu Hreinsdóttur. Inga Harðardóttir nýráðinn prestur íslenska safnaðarins í Noregi leiddi fjölskylduguðsþjónustuna. Kórfélagar Ískórsins buðu í kaffi eftir messu og nutum við góðs af því.

Eftir messuna gafst tími til að skoða hinn þekkta styttugarð Vigeland Park þar sem kórfélagar notuðu tækifærið og tóku myndir. Því næst var förinni heitið út á flugvöll.

Okkur langar til að þakka Gróu Hreinsdóttur alveg sérstaklega fyrir alla hennar hjálp en framlag hennar til ferðarinnar var ómetanlegt. Það má með sanni segja að ferðin hafi tekist vel enda var hópurinn á allan hátt til fyrirmyndar. Kórfélagar hafa án efa safnað góðum minningum sem koma vonandi til ylja um ókomna tíð.

Eyrún Jónasdóttir, kórstjóri Unglingakórs Selfosskirku

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju

 

 

 

 

Sjá þann mikla flokk

Kirkjukór Selfosskirkju tekur þátt í þessari spennandi dagskrá og kórasamstarfi í Skálholtskirkju

Söngdagskrá, lestrar og bænir verða í Skálholtskirkju laugardaginn 7. nóvember nk. kl. 20.00. Kirkjukórar í Suðurprófastdæmi munu flytja tónlist sem hæfir þessum tíma kirkjuársins, prestar annast lestra ásamt vígslubiskupi. Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar stýrir dagskránni.

Flytjendur tónlistar eru Þóra Gylfadóttir, sópran, László Kéringer, tenór, kirkjukórar Breiðabólstaðarprestakalls undir stjórn Guðjóns Halldórs Óskarssonar og Haraldar Júlíussonar, kór Selfosskirkju, stjórnandi Edit Molnár, kór Hveragerðiskirkju, stjórnandi Miklós Dalmay og Skálholtskórinn undir stjórn Jóns Bjarnasonar.

Að lokinni Krossamessu 3. maí sl.

Stelpurnar sem voru að ljúka starfið

Stelpurnar sem voru að ljúka kórstarfinu

Krossamessa var haldin 3. maí sl. Þá luku 7 stúlkur söngstarfi sínu með Unglingakór Selfosskirkju og fengu að gjöf krossmen frá kirkjunni. Stúlkunum var þannig það mikla starf sem þær hafa tekið þátt í undanfarin ár og blessun lýst yfir.  Á  myndinni eru þær Dröfn Sveinsdóttir, Guðrún Lára Stefánsdóttir, Jónína Guðný Jóhannsdóttir, Kristín Hanna Jóhannesdóttir, Sesselja Sólveig Jóhannesdóttir, Sólveig Ágústa Ágústsdóttir og Þórunn Ösp Jónasdóttir ásamt Edit Molnár kórstjóra.

 

 

Sumardagurinn fyrsti 2015

Fuglinn Sumardagurinn fyrstiSumardaginn fyrsta fagnar Barna- og unglingakór Selfosskirkju sumrinu í Selfosskirkju með tónleikunum “Fuglinn í fjörunni” kl. 15:00. Á tónleikunum verða einungis flutt verk sem snúa að fuglum og jafnframt munu kórfélagar lesa upp ljóð um fugla, sum hver frumsamin! Um undirleikinn sér Miklós Dalmay og er kórstjórnandi Edit Molnár.

Aðgangseyrir eru 1500 kr. Innifalið í verðinu eru léttar kaffiveitingar eftir tónleikanna.

Karlakór Selfoss og Skálholtskórinn bjóða til tónleika

Föstudagskvöldið, 19. desember kl. 20:00 en þá býður Karlakór Selfoss og Skálholtskórinn, Selfossbúum og sunnlendingum á ókeypis tónleika í Selfosskirkju.

Kórarnir munu flytja vandaða og fallega jólatónlist í hlýlegu umhverfi kirkjunnar við kertalýsingu.

Tónleikarnir hefjast með söng Skálholtskórsins, undir stjórn Jóns Bjarnasonar, og svo mun sr. Þorvaldur Karl Helgason flytja
hugvekju.

Þá mun Karlakórinn, undir stjórn Lofts Erlingssonar og við undirleik Jóns Bjarnasonar, flytja sína dagskrá og endar á laginu fallega „Ó, helga nótt.“

Kórarnir vonast til að sem flestir gefi sér tíma til að koma í Selfosskirkju að kveldi föstudagsins 19. desember
og eiga með þeim notalega og hátíðlega kvöldstund í amstri jólaundir-búningsins. Sjá http://www.karlakorselfoss.is/