Fjölskylduguðsþjónusta og vorhátíð í Selfosskirkju

Verið velkomin til sannkallaðrar hátíðarstundar í Selfosskirkju 30. apríl kl. 11:00.
Það verður barnvæn gleði ríkjandi í kirkjunni og eru allir, ungir sem aldnir, hjartanlega velkomnir.
Í guðsþjónustunni verður tekið á móti nýjum presti Árborgarprestakalls, sr. Ásu Björk Ólafsdóttur. Verður hún sett inn í embætti af prófasti Suðurprófastsdæmis, Halldóru Þorvarðardóttur.
Auk þess verður uppskeruhátíð kóra- og barnastarfs kirkjunnar. Barna- og unglingakór kirkjunnar syngur undir stjórn Edit Molnár og Kolbrúnar Berglindar Grétarsdóttur. Þeir kórfélagar sem eru að ljúka síðasta söngári sínu með unglingakórnum verða sérstaklega heiðraðir.
Prestar Árborgarprestakalls þjóna ásamt prófasti og æskulýðsfulltrúa og mun sr. Ása Björk flytja hugleiðingu. Að guðsþjónustunni lokinni býður sóknarnefnd uppá kirkjukaffi og meðlæti í safnaðarheimilinu. Einnig verður boðið upp á ratleik og annað skemmtilegt.
Fjölmennum til góðrar stundar í kirkjunni.