Uppstigningardagur 2014

Lífsins tré

Lífsins tré

Messað verður í Selfosskirkju kl. 11 á uppstigningardag. Sr. Halldór Gunnarsson prédikar. Sr. Axel Á Njarðvík þjónar fyrir altari. Kirkjukórinn leiðir sönginn.  Léttur hádegisverður á eftir í safnaðarheimilinu.

Uppstigningardagur er fjörutíu dögum eftir páska. Með honum hefst undirbúningstími þriðju stórhátíðarinnar, Hvítasunnu. Jesús steig upp til himna, ekki til að yfirgefa þennan heim og þessa jörð, heldur til að geta verið alls staðar nálægur. Eins og himinninn er lífsloftið sjálft sem umvefur okkur og án þess gætum við ekki lifað, eins vill hann umvefja okkur og vera okkur hjá. Uppstigningadagur er með elstu hátíðum kristninnar. Í fyrstu var þó ekki um sérstaka hátíð að ræða heldur var uppstigningarinnar minnst á hvítasunnu Kirkjan hefur haldið hátíð uppstigningar Drottins á sérstökum degi síðan um 400. Frá því á 6.öld var dagurinn haldinn hátíðlegur með mikilli viðhöfn í Róm og breiddust söngvar hans og siðir þaðan út um alla kristnina.

Á þessum degi minnist kirkjan þess að ,,sigrarinn dauðans sanni” sem reis upp frá dauðum í undri páskahátíðarinnar og dvaldi með lærisveinum sínum í fjörutíu daga eftir það, gengur inn í eilíft ríki Guðs á himnum sem konungur dýrðarinnar, en mun koma aftur við endi aldanna.

Undanfarin ár hefur þessi dagur enn fremur verið dagur eldri borgara í Þjóðkirkjunni en það var í tíð hr. Péturs Sigurgeirssonar biskups að sá háttur komst á. Verið öll hjartanlega velkomin.