Þýski sönghópurinn Camerata Musica Limburg syngur í Selfosskirkju sunnudagskvöldið 26. október kl. 20.
Þýski karlakórinn Camerata Musica Limburg var stofnaður árið 1999. Kórinn er skipaður 13 söngvurum og hefur starfað undir stjórn Jan Schumacher frá upphafi. Hópurinn var stofnaður af fyrrum félögum í drengjakór Dómkirkjunnar í Limburg þar sem lengi hefur ríkt sú hefð að fyrrum félagar taki höndum saman og stofni kammerkóra sem hafa oftar en ekki notið mikillar velgengni.
Á efnisskrá Camerata Musica Limburg má finna mikið af nýrri kórtónlist í bland við eldra og þekktara efni. Þar leynast því bæði klassískar perlur frá merkustu tímum tónlistarsögunnar og nýstárleg verk eftir suma af bestu tónskáldum heimsinns í dag auk fjölda skemmtilegra útsetninga af þekktri popp- og jazztónlist.
Kórinn hefur tekið þátt í í fjölda keppna og hátíða víða um Evrópu og hefur vægast sagt sópað að sér verðlaunum og viðurkenningum bæði í Þýskalandi og utan þess. Þar má meðal annars nefna fyrstu verðlaun í frönsku kórakeppninni Tours Vocal Competition Florilège Vocal árið 2006 og einnig í alþjóðlegri kórakeppni í Vlaanderen Maasmechelen í Belgíu árið 2007. Einnig sigraði kórinn í tveimur flokkum í kórakeppni í Bremen árið 2008 og síðast en ekki síst vann hann til verðlauna í keppni þýskra kóra sem fram fór í Dartmund árið 2010.
Vegna mikillar velgengni og góðs orðspors býðst kórnum oft tækifæri til að taka þátt í virtum hátíðum og keppnum um allan heim og hefur hann reglulega komið fram á stórum viðburðum sem sérstakur gestakór.
(frjáls framlög við kirkjudyr).