Um þessar mundir er Kvenfélag Selfosskirkju 50 ára. Kvenfélagið er ómetanlegur bakhjarl í öllu starfi kirkjunnar, sér um að framreiða súpumáltíð á sunnudögum eftir messu allan ársins hring, styður við kóra – og æskulýðsstarf kirkjunnar með myndarlegum hætti, sér um fermingarkirtlana auk þess að sjá iðulega um veitingar sem fram eru bornar í safnaðarheimilinu og margt margt fleira. Í tilefni afmælisins bjóða þær í dag öllum eldri borgurum í Árborg til kaffisamsætis á Hótel Selfoss. Ekki í kirkjunni, því það á að vera nóg pláss fyrir alla og svo ætla þær sjálfar, kvenfélagskonurnar að setjast niður og njóta veitinga og skemmtidagskrár í stað þess að þjóna eins og þær eru vanar. Við hlökkum til að njóta dagsins með þeim.