Noregsferð Unglingakórs Selfosskirkju

Dagana 1. – 5. maí síðastliðinn fóru 11 félagar úr Unglingakór Selfosskirkju ásamt fararstjórunum Kolbrúnu, Jóhönnu Ýr og  Eyrúnu kórstjóra til Noregs í söng og skemmtiferð.

Flogið var til Osló þar sem Gróa Hreinsdóttir kórstjóri og atvinnubílstjóri tók á móti hópnum. Förinni var heitið til Drammen þar sem fyrsta stopp var á Mc Donald’s en þar á eftir fengum við að njóta útsýnisins við Spiralen sem er fallegur útsýnisstaður þar í bæ.

Fimmtudaginn 2. maí hjóluðu kórfélagar um bæinn ásamt því að kíkja aðeins í búð. Seinni partinn var komið að undirbúningi fyrir tónleika í Tangenkirkju en þar hélt kórinn tónleika með kvennakórnum Gospellsystrum. Kórfélagar fluttu hluta af dagskrá tónleikanna “Raddir sunnlenskra ungmenna” sem voru í Selfosskirkju 7. apríl síðastliðinn. Vel var mætt á tónleikana og er óhætt að segja að tónleikargestir hafi verið ánægðir með sönginn og kynningarnar sem þau sáu alfarið um sjálf.

Föstudagsmorguninn 3. maí tókum við lestina til Osló. Þegar þangað var komið röltum við um miðbæinn. Skoðuðum m.a konungshöllina, miðbæinn, Óperuhúsið og höfnina. Heldur var þó kaldara en búist var við og var því menningarlega gönguferðin ögn styttri en ráð hafði verið gert fyrir og stefnan tekin á helstu verslunarmiðstöð miðbæjarins. Dagurinn endaði á hinum margrómaða veitingastað Hard Rock.

Kolbrún Guðmundsdóttir, Eyrún Jónasdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

 

Þá var komið að laugardeginum 4. maí sem beðið hafði verið með eftirvæntingu. Förinni var heitið í skemmtigarðinn Tusenfryd þar sem kórfélagar nutu dagsins í rússbönum, sleggjum og fallturnum svo eitthvað sé nefnt. Fararstjórar hins vegar sátu kappklæddir og drukku misvont kaffi. Um kvöldið var borðað á frábærum ítölskum veitingastað í miðbænum.

Sunnudaginn 5. maí hófst með gönguferð um Akerhús og Akerbryggju. Því næst var komið að messu í Nordbergkirkju þar sem kórfélagar sungu messu með Ískórnum undir stjórn Gróu Hreinsdóttur. Inga Harðardóttir nýráðinn prestur íslenska safnaðarins í Noregi leiddi fjölskylduguðsþjónustuna. Kórfélagar Ískórsins buðu í kaffi eftir messu og nutum við góðs af því.

Eftir messuna gafst tími til að skoða hinn þekkta styttugarð Vigeland Park þar sem kórfélagar notuðu tækifærið og tóku myndir. Því næst var förinni heitið út á flugvöll.

Okkur langar til að þakka Gróu Hreinsdóttur alveg sérstaklega fyrir alla hennar hjálp en framlag hennar til ferðarinnar var ómetanlegt. Það má með sanni segja að ferðin hafi tekist vel enda var hópurinn á allan hátt til fyrirmyndar. Kórfélagar hafa án efa safnað góðum minningum sem koma vonandi til ylja um ókomna tíð.

Eyrún Jónasdóttir, kórstjóri Unglingakórs Selfosskirku

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *