TILKYNNING FRÁ SELFOSSPRESTAKALLI VEGNA SAMKOMUBANNS!

Nú liggur fyrir að samkomubann gildir næstu fjórar vikur frá og með mánudeginum 16. mars.

Í því ljósi hefur Biskup Íslands tilkynnt að messuhald og vorfermingar í kirkjum landsins falli niður á meðan samkomubannið er í gildi.

Þetta þýðir að messur í Selfossprestakalli munu falla niður á meðan samkomubannið er í gildi. Í þessu ljósi hefur einnig verið ákveðið að fella niður fyrirhugaða messu í Selfosskirkju sunnudaginn 15. mars kl. 11. Í stað þeirra fermingarmessa sem fyrirhugaðar voru í apríl en falla nú niður verður boðið upp á aðra fermingardaga í sumar og haust í samráði við foreldra fermingarbarna.

Þótt ekki komi á óvart að samkomubanni hafi verið komið á eru þessar aðstæður einstakar. Þó gott sé að vita til þess að allt er gert til þess að hefta útbreiðslu covid-19 veirunnar þá reyna þær aðstæður sem nú eru uppi á okkur öll hvert og eitt og samfélagið í heild með margvíslegum hætti. Dyrum Selfosskirkju verður ekki alfarið læst. Prestar kirkjunnar og annað starfsfólk verða áfram til staðar og áfram er hægt að leita til kirkjunnar eftir kyrrð og samtali, stuðningi og nánd.

Bænir okkar eru hjá hverjum og einum og íslensku samfélagi í heild. Það er gott að leggja allt sem framundan er, hverja stund og sérhvern dag, allar hugsanir, tilfinningar, áhyggjur og kvíða, í Guðs góðu hendur í þeirri trú og vissu að hann er engum nær en þeim sem til hans leitar og að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans.

Prestar og starfsfólk Selfossprestakall.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *