Margt framundan í Selfosskirkju

Þó vorið sé komið og fermingum í Selfosskirkju lokið er nóg framundan hjá okkur.

Fimmtudaginn 12. maí kl. 18:00, boðum við til fundar vegna fermingarfræðslu næsta árs. Á fundinn mæta foreldrar verðandi fermingarbarna, foreldrar barna fædd 2009 sem hafa áhuga á að kynna sér hvernig við byggjum fræðsluna upp. Við opnum líka fyrir skráningar í fermingarfræðsluna þar sem fermginardagurinn er einnig valinn. Það er alltaf spennandi að taka á móti og kynnast nýjum hópi fermingarbarna. Fundurinn er fyrir öll börn sem vilja fermast í Árborgarprestakalli eða í Selfosskirkju, Stokkseyrarkirkju, Eyrarbakkakirkju, Gaulverjabæjarkirkju, Villingholtskirkju, Hraungerðiskirkju og Laugardælakirkju. Fyrir þau sem ekki komast á fundinn birtast upplýsingar um fræðsluna hér inn á heimasíðunni undir fermingarstörfin.

Framundan er einnig kóranámskeið fyrir 1.-2. bekk. Á námskeiðinu er farið í tónlistarleiki og mikið sungið. Kennarar á námskeiðinu eru Kolbrún Berglind Björnsdóttir og Edit A. Molnár. Námskeiðið verður dagana 17. og 20. maí kl. 17:00-17:45 og 24. maí kl. 17:15-18:00. Skráð er á námskeiðið á netfangið edit@simnet.is

Sunnudaginn 15. maí verður messa í Selfosskirkju kl. 11:00. Það verður gott að koma í kirkjuna, hlusta á fallega sálma og ná sér niður eftir fjörugar kosningar og Eurovision.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *