Boðunardagur Maríu

Nk. sunnudag 26.mars verður messa í Selfosskirkju þar sem boðunardags Maríu verður minnst.  Líklega er ekkert myndefni í sögunni algengara eða vinsælla en María og litli drengurinn hennar, og um Maríu hafa líka verið samin mörg falleg tónverk.  María var sterk kona sem falið var afar sérstakt hlutverk.  Af henni getum við öll lært.

Sunnudagaskólinn er á sínum stað kl. 11 í umsjón Jóhönnu Ýrar og æskulýðsleiðtoga.

Súpa og brauð gegn vægu gjaldi í safnaðarheimilinu að messu lokinni.

Verum öll velkomin – sjáumst í kirkjunni!

Helgihald í Selfosskirkju 19. mars

Sunnudagsmessa og sunnudagaskóli
Sunnudaginn 19. mars verður messu í Selfosskirkju kl. 11:00.  Messan verður að hluta til með Taize formi þar sem kyrrðin, söngurinn og bænin eru í aðalhlutverki.  Organisti Edit A. Molnár, Kirkjukórinn syngur, prestur Guðbjörg Arnardóttir.

Sunnudagaskóli verður á sama á sama tíma í umsjón æskulýðsfulltrúa Selfosskirkju.

Súpa og brauð gegn vægu gjaldi að lokinni messu.

Helgistund á Ljósheimum
Sama dag kl. 13:30 verður helgistund á Ljósheimum og fáum við góða gesti til að syngja og leiða söng við helgistundina.

Batamessa verður kl. 17:00
Vinir í bata á Selfossi bjóða til Batamessu í Selfosskirkju næstkomandi sunnudag, þann 19. mars kl.17:00.
Þorvaldur Halldórsson og Margrét Scheving munu leiða söng, Guðbjörg Arnardóttir þjónar. Við fáum að heyra vitnisburð og kirkjugestum boðið að taka þátt í trúariðkun. Boðið verður upp á veitingar og kaffi í safnaðarheimilinu eftir messu, þar gefst tækifæri á að spjalla og eiga samfélag. Hér á Selfossi er stór hópur fólks búinn að fara í gegnum 12 sporin andlegt ferðalag, það er alltaf gaman að hittast og deila því sem á dagana hefur drifið og rifja upp gömul og góð kynni.

Allir velkomnir.

TTT mót í Vatnaskógi 24. – 25. mars

Æskulýðsmót TTT starfs Kirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu verður haldið í Vatnaskógi 24. til 25. mars Þar koma saman hópar 10 til 12 ára frá ýmsum kirkjum höfuðborgarsvæðisins og skemmta sér saman í frábæru umhverfi.

Félagar í TTT 10 -12 ára starfi Selfosskirkju gefst kostur á að vera með í þessar ferð.

Nánari upplýsingar í bæklingi hér í fylgiskjali og hjá æskulýðsfulltrúa Selfosskirkju Jóhönnu Ýr Jóhannsdóttir s. 482-2179 og 897-3706.

 

 

TTT-Baeklingur-2017

Sunnudagur 5. mars í Selfossprestakalli

Á sunnudaginn er æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar og verður því æskulýðsguðsþjónusta í Selfosskirku kl. 11:00.  Félagar úr Æskulýðsfélagi Selfosskirkju hafa ásamt leiðtoga sínum, Jóhönnu Ýr Jóhannsdóttur, undirbúið stundina.  Þau sjá um lestra, tónlist og bænir en einnig leiða félagar úr Unglingakór Selfosskirkju okkur í léttum æskulýðssöngvum.  Stundin hentar allri fjölskyldunni þó unglingar séu þar í aðalhlutverki.   Prestur Guðbjörg Arnardóttir og organisti Edit A. Molnár.

Súpa og brauð verður í safnaðarheimilinu á eftir og um 12:30 hefst aðalsafnaðar Selfossóknar og eru öll þau sem áhugasöm eru um starfið í Selfosskirkju hvött til að koma

Um kvöldið verður svo kvöldguðsþjónusta á föstu í Hraungerðiskirkju.  Þar syngur Kirkjukór Hraungerðis- og Villingaholtssókna og er kórstjóri þeirra og organisti Ingi Heiðmar Jónsson.


 

Blaðað í Biblíunni 2017

Fjóra þriðjudaga í marsmánuði 2017 verður blaðað í Biblíunni í Selfosskirkju.
Axel Á Njarðvík héraðsprestur leiðir samtal um Fake News og Good News (sem svo oft ber á góma), eða skröksögur og sannar sögur, fjórum lykilspurninginum svarað af Lúkasi guðspjallamanni.

Farið verður í afar ráhugaverða þætti Biblíunnar, um eðli textans, sögu hans og notkun. Í fjögur skipti koma þátttakendur sama að textum Biblíunnar til að lesa hann og hugleiða og fara síðan ríkari heim. Það hefst kl. 18:00 þriðjudaginn 7. mars og stendur yfir góða klukkustund.  Vinsamlega skráið ykkkur  með því að hringja skráningu í Axel  síma 856 1574. Þátttaka er ókeypis og verið velkomin.

Karlakór Hreppamanna og syngjandi konur í Selfosskirkju

Framundan er spennandi og skemmtileg helgi í Selfosskirkju.  Undanfarið hafa kvenraddirnar í Kirkjukór Selfosskirkju, Kirkjukór Hveragerðis- og Kotstrandasókna og Unglingakórinn æft saman með Kristjönu Stefánsdóttur.  Tónleikarnir verða á sunnudaginn kl. 17 og mun Kristjana syngja einsöng.  Þar sem konurnar verða uppteknar við æfingar höfum við fengið til liðs við okkur góða gesti á sunnudaginn til að syngja í messu, það eru félagar úr Karlakór Hreppamanna en stjórnandinn þeirra er einmitt Edit A. Molnár organisti í Selfosskirkju.  Þeir munu annast söng í konudagsguðsþjónustu í kirkjunni, einnig mun Viktor Kári Garðarsson félagi í Barnakór Selfosskirkju syngja einsöng með þeim.  Þetta verður óhefðbundin guðsþjónusta enda fá karlaraddirnar gott tækifæri til að þenja raddböndin til heiðurs konunum og verður mikið sungið, inn á milli lestra og prédikunar.  Það verður því sannkölluð tónlistarveisla í kirkjunni á konudaginn og verið öll velkomin!

Syngjandi konur í Selfosskirkju

Tónleikar með Kristjönu Stefánsdóttur ásamt syngjandi konum úr kirkjukór Selfosskirkju, kirkjukór Hveragerðis- og Kotstrandarsókna og barna- og unglingakór Selfosskirkju. Efnisskráin er fjölbreytt blanda af gömlum og nýjum dægurperlum auk frumsamins efnis. Auk Kristjönu koma fram með kórunum Daði Birgisson píanóleikari og félagrarnir Magnús Kjartan, Sigurgeir Skapti og Marinó Geir úr Stuðlabandinu. Tónleikarnir verða svo endurteknir mánudagskvöldið 20. febrúar klukkan 19:30 í Hveragerðiskirkju. Stjórnandi sameinaðs kvennakórs er Edit Anna Molnár. Aðgangseyrir á tónleikana er 2000 kr. (posi á staðnum)

Helgihald í Selfossprestakalli sunnudaginn 12.febrúar

Nk. sunnudag 12.febrúar verða þrjár messur í prestakallinu.  Kl. 11 verður fjölskyldumessa í Selfosskirkju þar sem barnakór kirkjunnar syngur.  Þetta verður skemmtileg og gefandi stund fyrir alla fjölskylduna.  Æskulýðsfélag Selfosskirkju verður með kökubasar að lokinni messu og súpa og brauð selt gegn vægu gjaldi í safnaðarheimilinu.  Umsjón með stundinni hafa sr. Ninna Sif og Jóhanna Ýr og Edit Molnár er kórstjóri.

Kl.13.30 verður guðsþjónusta í Villingaholtskirkju þar sem söngkór Villingaholts – og Hraungerðissókna syngur undir stjórn Inga Heiðmars Jónssonar organista.  Prestur sr. Ninna Sif Svavarsdóttir.

Kl. 20 verður kvöldmessa í Selfosskirkju þar sem hljómsveitin Hrafnar sér um tónlistina.  Þetta verður létt og skemmtileg kvöldstund.  Prestur sr. Ninna Sif Svavarsdóttir

Eitthvað fyrir alla – sjáumst í kirkjunni!