Messa í Hellisskógi

Á hvítasunnudag 31. maí verður messa í Hellisskógi kl. 11:00 og verður messan við hellinn.
Kirkjukórinn syngur fallega sálma og lög sem tengjast sumrinum og náttúrunni undir stjórn Edit A. Molnár.
Prestur Guðbjörg Arnardóttir.
Skógar-messukaffi eftir stundina.
Frískandi getur verið fyrir þau sem hafa tök á að koma gangandi eða hjólandi

Kirkjukórinn hittist aftur eftir hlé

Kirkjukórinn kom saman síðastliðinn fimmtudag eftir langt hlé. Ekki var um hefðbundna æfingu að ræða heldur létu kórfélaga hendur standa fram úr ermum og snyrtu beð og stíga í kirkjugarðinum og umhverfis kirkjuna.  Allir með gott bil sín á milli.  Rúmlega tuttugu manns mættu og fylltu 32 ruslapoka á tveim klukkustundum. Eftir vinnuna var boðið upp á pizzur og að sjálfsögðu sungin nokkur lög.

Líkt og hjá öðrum hópum lagðist nær allt starf kórsins niður við samkomubannið.  Æfingar og messur lögðust af og vegna fjöldatakmarkana söng kórinn heldur ekki við útfarir.  

Vortónleikum kórsins var aflýst og söngferð til Ítalíu frestað um eitt ár.  Það hefur verið rólegt yfir kórstarfinu.  Það var því kórfélögum kærkomið að hittast aftur og reka endahnút á óvenjulegt vetrarstarf og láta líka gott af sér leiða. 

Sjá má fleiri myndir á Facebook síðu kirkjunnar

Aþena Sól og Sara Líf útskrifast úr leiðtogaskólanum

Þann 18. maí var Leiðtogaskóla þjóðkirkjunnar slitið í Grensáskirkju við hátíðlega athöfn. Venja er að foreldrar unglinganna séu viðstaddir skólaslitin en svo var ekki að þessu sinni vegna kórónuveirunnar. Tvíburasysturnar Aþena Sól og Sara Líf Ármannsdætur útskrifuðust af seinni ári sínu í skólanum og eru nú fullgildir leiðtogar í æskulýðsstarfi. Við í Selfosskirkju óskum þeim hjartanlega til hamingju.

Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, ávarpaði unglingana og afhenti þeim skírteini um að þau hefðu lokið Leiðtogaskólanum. Jafnframt flutti hún bæn og blessun.

Umsjónarfólk með Leiðtogaskólanum eru þau Magnea Sverrisdóttir, djákni, Daníel Ágúst Gautason, djákni, og Kristján Ágúst Kjartansson, framkvæmdastjóri ÆSKR (Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum). Öll fluttu þau stutta ræðu þar sem þau þökkuðu unglingunum fyrir einstaklega gefandi kynni og hvöttu þá til dáða.

Nánar má lesa hér: https://kirkjan.is/frettir/frett/2020/05/19/2/

Krossamessa sunnudaginn 17. maí kl. 11:00

Sunnudaginn 17. maí verður hin árlega krossamessa kl. 11:00.
Þar fá þau sem útskrifast úr Unglingakórnum afhenda krossana sína að gjöf frá kirkjunni og mun Unglingakórinn syngja í messunni.

Ekki verður heimilit að fleiri en 50 komi inn í kirkjunu og og halda verður tveimur metrum á milli einstaklinga sem ekki eru í sömu fjölskyldu.
Verði fjöldi kirkjugesta umfram það sem leyfilegt er mun fólk getið fylgst með á skjá í safnaðarheimili kirkjunnar.