Þorláksmessa í Selfosskirkju, 23. desember 2018 kl. 11.

Að ganga í ljósi

Að ganga í ljósi

Kveikum á ljósi- þó viljin sé veikur er vonin samt sterk, koma má mörgu og miklu í verk, það sem þú gerir er það sem þú ert, þín verður minnst fyrir það sem var gert. Ljúf helgistund verður kl. 11 í Selfosskirkju sunnudaginn 23. desember kl. 11 þar sem við munum einmitt kveikja á ljósi, fjórða ljósi aðventukertanna. Valgerir Guðjónsson og kór kirkjunnar leiða okkur inn í birtuna sem skín af því ljósi sem jólin boða og bjóða. Verið velkomin.

Samverustund fyrir syrgjendur

Jól í skugga sorgar og áfalla
Samvera fyrir syrgjendur verður í Selfosskirkju þriðjudaginn 18. desember kl. 20:00.  Erfitt getur verið að horfa fram til jóla og undirbúa þau í kjölfar missis eða áfalla.  Er stundin sérstaklega ætluð til þess að styðja við fólk í slíkum aðstæðum.  Kirkjukórinn syngur sálma, flutt verður hugleiðing og hægt að kveikja á kertum í minningu látinna ástvina.  Ninna Sif Svavarsdóttir og Guðbjörg Arnardóttir sjá um stundina.  Kaffisopi í Safnaðarheimilinu á eftir.  Stundin er öllum opin.

 

Helgistund og jólaball sunnudagaskólans 16. desember kl. 11:00

Þriðja sunnudag í aðventu, 16. desember kl. 11:00 verður helgistund í Selfosskirkju.  Við syngjum jólasálma, verðum með bænastund og flytjum leikritið sem flutt var við heimsóknir leik- og grunnskólanna á aðventunni.  Eftir stundina verður svo jólaball sunnudagaskólans í Safnaðarheimilinu, dansað í kringum jólatréð og við fáum að sjálfsögðu góða gesti í heimsókn til okkar alla leið út Ingólfsfjalli.