Auslýst eftir Ækulýðsfulltrúa

Æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju

Sóknarnefnd Selfosskirkju auglýsir eftir æskulýðsfulltrúa í 60% starf frá 1. janúar 2021, eða síðar í janúar eftir nánara samkomulagi.  Hlutverk æskulýðsfulltrúa er að hafa umsjón með æskulýðs- og fræðslumálum kirkjunnar.  Helstu verkefni eru umsjón með sunnudagaskóla og fjölskyldumessum, TTT, 6-9 ára, æskulýðsfundum og leiðtogaþjálfun.  Menntun og reynsla sem nýtist í starfi nauðsynleg.  Nánari upplýsingar um starfið og starfskjör veita Séra Guðbjörg Arnardóttir sóknarprestur sími:865-4444 og Guðmundur Búason gjaldkeri Sóknarnefndar sími:899-9613.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir menntun sinni og reynslu í æskulýðsstarfi.  Umsóknir sendist í netpósti á selfosskirkja@selfosskirkja.is eða í bréfapósti á Sóknarnefnd Selfosskirkju b.t. Björns Inga Gíslasonar formanns, Kirkjuvegi, 800 Selfoss.  Umsóknarfrestur er til 15. des. Umsækjandi þarf að veita samþykki fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá á eftirfarandi eyðublaði:  https://kirkjan.is/library/Images/Frettamyndir/Skjol-vegna-fretta/samthykki-fyrir-oflun-upplysinga-ur-sakaskra.pdf

                                               Sóknarnefnd Selfosskirkju

Nýtt sameinað prestakall

Nýtt prestakall í SuðurprófastsdæmiNú í október varð sú breyting á skipulagi kirkjunnar í Suðurprófastsdæmi að Selfossprestakall og Eyrabakkaprestakall voru sameinuð í nýtt prestakall. Var sú sameining ein af nokkrum sameiningum sem ákveðnar voru á nýafstöðnu kirkjuþingi. Með þessari breytingu eru áðurnefnd tvö prestaköll lögð niður og samanstendur hið nýja prestakall af sóknum þeirra – Hraungerðissókn, Laugardælasókn, Selfosssókn, Villingaholtssókn, Eyrarbakkasókn, Stokkseyrarsókn og Gaulverjabæjarsókn. Prestar hins nýja prestakalls verða áfram þeir sömu og þjónuðu áður Selfossprestakalli og Eyrabakkaprestakalli: Guðbjörg Arnardóttir, sem er sóknarprestur hins nýja prestakalls, Gunnar Jóhannesson prestur, og Arnaldur Bárðarson prestur.Þótt það hljómi eins og hér sé um afdrifaríka breytingu að ræða er það í raun ekki svo. Prestakallaskipan Þjóðkirkjunnar hefur tekið breytingum í gegnum tíðina og verið nú til skoðunar undanfarin ár í þeim tilgangi að einfalda hana og gera hana skilvirkari þar sem aðstæður leyfa. Og markmiðið er fyrst og fremst að efla og auðga þjónustu kirkjunnar á hverjum stað og greiða fyrir samstarfi og samvinnu prestanna. Prestakall er kannski ekki orð sem okkur er tamt að nota eða hugsa um. Prestakall er í eðli sínu lítið annað en starfseining og skipulagsheild (sem samanstendur af einni eða fleiri landafræðilegum einingum, sóknum) sem afmarkar það svæði sem þjónusta og starfsskyldur presta ná til. Með sameiningunni nú er því fyrst og fremst um að ræða skipulagsbreytingu sem snýr að starfi prestanna. Sameiningin snertir því ekki sóknirnar sem slíkar að neinu leyti og hefur engin áhrif á eðli þeirra eða störf sóknarnefnda hverrar sóknar.Með tilkomu hins nýja prestakalls fáum við prestarnir nú tækifæri til að starfa nánar saman og skipuleggja starf okkar og þjónustu á breiðari grunni. Það teljum við afar jákvætt og hlökkum við mikið til að vinna saman að því, ásamt öðru samstarfsfólki okkar innan kirkjunnar, að efla þjónustu kirkjunnar okkar og auka breidd hennar og fjölbreytni. Að því sögðu vonum við eins og aðrir að aðstæður í samfélaginu komist í eðlilegt horf fyrr en síðar svo við getum opnað dyr kirknanna aftur upp á gátt og boðið uppá fjölbreytt helgihald og safnaðarstarf. Við bendum á heimasíður og facebook-síður sóknanna og minnum á að það er alltaf hægt að leita til okkar:Með kærum kveðjum og blessunaróskum.Guðbjörg, Gunnar og Arnaldur.