Aðalsafnaðarfundur í Selfosssókn þriðjudaginn 26. febrúar kl. 20:00

Aðalsafnaðarfundur Selfosssóknar verður haldinn í safnaðarheimili Selfosskirkju þriðjudaginn 26. febrúar nk. kl. 20.
Dagskrá aðalsafnaðarfundar:
Málefni sóknarinnar verða þar rædd, starfsskil og reikningsskil sóknarnefndar sem og verkefni og starf næsta starfsárs.
Dagskrá fundarins er með þessum hætti (sbr. Starfsreglur um sóknarnefndir www2.kirkjan.is/node/11364):
1. Gerð grein fyrir starfsemi og rekstri sóknarinnar á liðnu starfsári.
2. Afgreiðsla reikninga sóknar og kirkjugarðs fyrir sl. ár, ásamt fjárhagsáætlun næsta árs.
3. Greint frá starfsemi héraðsnefndar og héraðsfundi.
4. Ákvörðun um meiriháttar framkvæmdir og framtíðar skuldbindingar.
5. Kosning sóknarnefndarmanna og jafnmargra vara manna til 4ra ára.
6. Kosning tveggja skoðunarmanna eða endur skoðanda sóknar og kirkjugarðs og varamanna þeirra til árs í senn.
7. Kynntar verða tvær hugmyndir um sameiningu prestakalla. Annars vegar sameiningu Eyrarbakka- og Selfossprestakalla í eitt prestakall og hins vegar heildarsameiningu prestakalla í Flóahreppi, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Ölfusi og Hveragerðisbæ í eitt prestakall
8. Önnur mál. Sjá nánar www.selfosskirkja.is

Helgihald sunnudaginn 24.febrúar

Sunnudaginn 24.febrúar er messa í Selfosskirkju kl. 11.  Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir þjónar.  Kór kirkjunnar syngur, organisti Ester Ólafsdóttir.  Sunnudagaskóli á sama tíma í umsjón Jóhönnu Ýrar og leiðtoganna.  Súpa og brauð í safnaðarheimilinu gegn vægu gjaldi að messu lokinni.

Kl. 13.30 er guðsþjónusta á Fossheimum.  Þar syngur Hörpukórinn undir stjórn Guðmundar Eiríkssonar og sr. Ninna Sif þjónar.

Kærleiksbirnir í Vatnaskógi!

Helgina 15. – 17. febrúar fóru 18 hressir unglingar ásamt leiðtogum úr æskulýðsfélagi Selfosskirkju Kærleiksbirnunum á Febrúarmót ÆSKR í Vatnaskógi. Á mótinu voru um 150 unglingar af stór Reykjavíkursvæðinu og nágrenni. Helgin var þéttskipuð fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Hópurinn gat ma. skemmt sér í hoppukastala, orrustu, spilum, borðtennis, skottaleik, karaoke og pottaferðum. Erna Kristín guðfræðinemi sá um fræðslu mótsins sem fjallaði um mikilvægi þess að hafa jákvæða líkamsímynd. Fastir liðir í dagskránnir voru einnig helgistundir, spurningakeppni, ball og atriðakeppni. Að þessu sinni sigraði Æskulýðsfélag Selfosskirkju atriðakeppnina með flutingi Viktors Kára Garðarssonar á laginu Rósinni. Helgin gekk glimrandi vel í alla staði og voru unglingarnir sjálfum sér og félaginu til sóma.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju

 

Helgihald sunnudaginn 17. febrúar

Hefðbundin messa verður í Selfosskirkju sunnudaginn 17. febrúar kl. 11:00.  Kirkjukórinn syngur, organisti Ester Ólafsdóttir.  Prestur Guðbjörg Arnardóttir.  Sunnudagaskóli á sama tíma, umsjón hefur Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir ásamt leiðtogum.  Súpa og brauð að messu lokinni.

Kvöldmessa verður kl. 20:00 þar mun Kór Menntaskólans á Laugarvatni syngja og er lagaval þeirra mjög frjölbreytt, allt frá ABBA til þjóðsöngsins.  Nýlega hlaut kórinn Menningarverðlaun Suðurlands.  Kórnum stjórnar Eyrún Jónasdóttir en hún hefur einnig í vertur stjórnað Barna- og unglingakór Selfosskirkju.