Kvöldmessa í Selfosskirkju

Kvöldmessa verður í Selfosskirkju sunnudaginn 27. mars kl. 20:00.
Unglingakórinn syngur og fær liðsstyrk frá fyrrum félögum Unglingakórsins sem dusta rykið af raddböndunum og koma aftur syngjandi í kirkjuna okkar. Þetta verður falleg og góð stund. Stjórnandi og undirleikari verður auðvitað Edit A. Molnár og prestur Gunnar Jóhannesson.
Ætla má að fyrrum kórfélagar dragi fram krossinn sinn og beri um hálsinn.

Sunnudagaskóli verður sama sunnudaginn á sínum hefðbundna tíma kl. 11:00. Umsjón með stundinni hefur Sjöfn Þórarinsdóttir ásamt leiðtogum.

Bendum einnig á messu sem verður í Stokkseyrarkirkju sama sunnudag kl. 11:00.

Frétt af kóranámskeiði

Mikið sem var gaman að fá hann Magnús Hlyn fréttamann í heimsókn til okkar á kórnámskeið. Námskeiðið gekk heldur betur vel og gaman að sjá þessa flottu krakka prófa að vera í kór, þau eru sko efnileg. Þær eru líka frábærar í þessu Edit og Kolbrún Berglind og ætla þær að bjóða aftur upp á svona námskeið í maí í kirkjunni okkar.

https://www.visir.is/g/20222236311d/stanslaust-stud-a-koranamskeidum-i-selfosskirkju?fbclid=IwAR3TUDLSLSAaF92je8lyiUDDkNKsDVoPjyJcWTBoYZHY3cruRzA90tqyVqA

Messa og vísitasía biskups

Um næsta helgi eða dagana 12.-13. mars mun biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir vísitera Árborgarprestakall. Vísitasía þýðir að biskupinn heimsækir sóknir og söfnuði landsins og er tilgangurinn m.a. að veita ráðgjöf, stuðning og uppörvun. Heimsækir biskupinn hverja kirkju prestkallsins, þar sem fer fram helgistund og í framhaldinu á sér stað samtal á milli biskupsins, sóknarnefndanna og þeirra sem koma að starfi innan kirknanna. Það er tilhlökkun og fá að taka á móti biskupnum, ræða starfið og hittast öll.

Sunnudaginn 13. mars verður messa í Selfosskirkju kl. 11:00 þar sem biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir þjónar fyrir altari ásamt prestum kirkjunnar. Kirkjukórinn syngur og er organisti Edit A. Molnár. Sunnudagaskólinn verður á sínum stað kl. 11:00 þar sem Sjöfn og leiðtogar hitta krakkana.

Af tilefni heimsóknarinnar verða helgistundir á eftirfarandi tímum í öðrum kirkjum prestakallsins, þessar stundir eru öllum opnar.

Gaulverjabæjarkirkja
Helgistund laugardaginn 12. mars kl. 11:00.

Villingaholtskirkja
Helgistund laugardaginn 12. mars kl. 13:30

Hraungerðiskirkja
Helgistund laugardaginn 12. mars kl. 15:30

Laugardælakirkja
Helgistund laugardaginn 12. mars kl. 17:00

Eyrarbakkakirkja
Helgistund sunnudaginn 13. mars kl. 14:30

Stokkseyrarkirkja
Helgistund sunnudaginn 13. mars kl. 16:30.

Þessi mynd er tekin þegar útvarpsmessa var tekin upp í Selfosskirkju í september á síðasta ári en þá var biskupinn með okkur í messunni.