Auslýst eftir Ækulýðsfulltrúa

Æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju

Sóknarnefnd Selfosskirkju auglýsir eftir æskulýðsfulltrúa í 60% starf frá 1. janúar 2021, eða síðar í janúar eftir nánara samkomulagi.  Hlutverk æskulýðsfulltrúa er að hafa umsjón með æskulýðs- og fræðslumálum kirkjunnar.  Helstu verkefni eru umsjón með sunnudagaskóla og fjölskyldumessum, TTT, 6-9 ára, æskulýðsfundum og leiðtogaþjálfun.  Menntun og reynsla sem nýtist í starfi nauðsynleg.  Nánari upplýsingar um starfið og starfskjör veita Séra Guðbjörg Arnardóttir sóknarprestur sími:865-4444 og Guðmundur Búason gjaldkeri Sóknarnefndar sími:899-9613.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir menntun sinni og reynslu í æskulýðsstarfi.  Umsóknir sendist í netpósti á selfosskirkja@selfosskirkja.is eða í bréfapósti á Sóknarnefnd Selfosskirkju b.t. Björns Inga Gíslasonar formanns, Kirkjuvegi, 800 Selfoss.  Umsóknarfrestur er til 15. des. Umsækjandi þarf að veita samþykki fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá á eftirfarandi eyðublaði:  https://kirkjan.is/library/Images/Frettamyndir/Skjol-vegna-fretta/samthykki-fyrir-oflun-upplysinga-ur-sakaskra.pdf

                                               Sóknarnefnd Selfosskirkju

Nýtt sameinað prestakall

Nýtt prestakall í SuðurprófastsdæmiNú í október varð sú breyting á skipulagi kirkjunnar í Suðurprófastsdæmi að Selfossprestakall og Eyrabakkaprestakall voru sameinuð í nýtt prestakall. Var sú sameining ein af nokkrum sameiningum sem ákveðnar voru á nýafstöðnu kirkjuþingi. Með þessari breytingu eru áðurnefnd tvö prestaköll lögð niður og samanstendur hið nýja prestakall af sóknum þeirra – Hraungerðissókn, Laugardælasókn, Selfosssókn, Villingaholtssókn, Eyrarbakkasókn, Stokkseyrarsókn og Gaulverjabæjarsókn. Prestar hins nýja prestakalls verða áfram þeir sömu og þjónuðu áður Selfossprestakalli og Eyrabakkaprestakalli: Guðbjörg Arnardóttir, sem er sóknarprestur hins nýja prestakalls, Gunnar Jóhannesson prestur, og Arnaldur Bárðarson prestur.Þótt það hljómi eins og hér sé um afdrifaríka breytingu að ræða er það í raun ekki svo. Prestakallaskipan Þjóðkirkjunnar hefur tekið breytingum í gegnum tíðina og verið nú til skoðunar undanfarin ár í þeim tilgangi að einfalda hana og gera hana skilvirkari þar sem aðstæður leyfa. Og markmiðið er fyrst og fremst að efla og auðga þjónustu kirkjunnar á hverjum stað og greiða fyrir samstarfi og samvinnu prestanna. Prestakall er kannski ekki orð sem okkur er tamt að nota eða hugsa um. Prestakall er í eðli sínu lítið annað en starfseining og skipulagsheild (sem samanstendur af einni eða fleiri landafræðilegum einingum, sóknum) sem afmarkar það svæði sem þjónusta og starfsskyldur presta ná til. Með sameiningunni nú er því fyrst og fremst um að ræða skipulagsbreytingu sem snýr að starfi prestanna. Sameiningin snertir því ekki sóknirnar sem slíkar að neinu leyti og hefur engin áhrif á eðli þeirra eða störf sóknarnefnda hverrar sóknar.Með tilkomu hins nýja prestakalls fáum við prestarnir nú tækifæri til að starfa nánar saman og skipuleggja starf okkar og þjónustu á breiðari grunni. Það teljum við afar jákvætt og hlökkum við mikið til að vinna saman að því, ásamt öðru samstarfsfólki okkar innan kirkjunnar, að efla þjónustu kirkjunnar okkar og auka breidd hennar og fjölbreytni. Að því sögðu vonum við eins og aðrir að aðstæður í samfélaginu komist í eðlilegt horf fyrr en síðar svo við getum opnað dyr kirknanna aftur upp á gátt og boðið uppá fjölbreytt helgihald og safnaðarstarf. Við bendum á heimasíður og facebook-síður sóknanna og minnum á að það er alltaf hægt að leita til okkar:Með kærum kveðjum og blessunaróskum.Guðbjörg, Gunnar og Arnaldur.

Samkomubann, helgihald og safnaðarstarf

Starf í Selfoss- og Eyrarbakkaprestakalli meðan samkomubann er í gildi   
Ljóst er að mikil röskun verður á helgihaldi og safnaðarstarfi í kirkjunum okkar meðan að samkomubann er enn í gildi og frá og með 31. október hefur það verið hert frekar. Erftirfarandi skipulag er í samræmi við fyrirmæli frá biskupi Íslands og amk. til 17. nóvember.

Það sem fellur niður:
• Allt helgihald í prestakallinu fellur niður.
• Allar messur, bæna- og kyrrðarstundir.
• Fjölskyldusamverur í Selfosskirkju.
• Æfingar hjá kirkjukórum prestakallsins falla niður.
• Foreldrasamverur á miðvikudagsmorgnum í Selfosskirkju . 
• Æskulýðsfundir á þriðjudagskvöldum í Selfosskirkju.
• Æfingar hjá Barna- og unglingakór í Selfosskirkju.
• 6-9 ára starf og TTT í Selfosskirkju.
• Fermingarfræðsla.

Selfosskirkja verður áfram opin á hefðbundum skrifstofutíma.  Við minnum á viðtalstíma presta frá 9-12 eða eftir samkomulagi.  Hægt er að hafa samband við presta prestakallsins í síma eða með tölvupósti. 

Guðbjörg Arnardóttir s. 865 4444 gudbjorg.arnardottir@kirkjan.is
Gunnar Jóhannesson s. 8929115 gunnar.johannesson@kirkjan.is
Arnaldur Bárðarson s. 7668344 arnaldur.bardarson@kirkjan.is

Við bendum ykkur á að finna Selfosskirkju á Facebook og Instragram og aðrar kirkjur prestkallsins þar sem við miðlum uppörvandi og huggunarríkum orðum, bænum og öðru helgihaldi. 

Aðstæður getur áfram breyst hratt og uppfærum við aðgerðir okkar varðandi helgihald og safnaðarstarf í samræmi við það.  

Bænir okkar eru hjá hverjum og einum og íslensku samfélagi í heild. Það er gott að leggja allt sem framundan er, hverja stund og sérhvern dag, allar hugsanir, tilfinningar, áhyggjur og kvíða, í Guðs góðu hendur í þeirri trú og vissu að hann er engum nær en þeim sem til hans leitar og að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans.

Prestar og starfsfólk Selfoss- og Eyrarbakkaprestakalls.

10. septmeber kl. 20:00

10. september er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna.  Af því tilefni verður samverustund fimmtudaginn 10. september kl. 20:00 í Selfosskirkju.  Kveikt á kertum í minningu látinna ástvina.
Unnur Birna Björnsdóttir annast tónlistina.  Stundin er öllum opin.  Að samverustund lokinni gefst fólki tækifæri til að eiga samfélag yfir kaffibolla í safnaðarheimilinu.  

Fræðslustarf í Selfosskirkju

Hverri árstíð fylgir ákveðinn sjarmi. Nú er komið að haustinu og láta ljós sitt skína með öllum sínum litbrigðum og þeim verkefnum sem fylgja.

Æskulýðsstarfið er nú hafið af fullum krafti. Unglingarnir í 8. – 10. bekk eru farnir að mæta á æskulýðsfundi á þriðjudögum kl. 19:30 – 21:15. Á æskulýðsfundum er farið í fjölbreytta leiki ásamt margvíslegum skapandi verkefnum. Í lok hverrar stundar er bænastund þar sem við ræðum málefni líðandi stundar eða það sem brennur á okkur hverju sinni og endum stundina á bænum. Hápunktar æskulýðsstarfsins eru landsmót sem að þessu sinni verður á Sauðárkróki, ef allt gengur upp, síðustu helgina í október og Febrúarmót í Vatnaskógi. Það er ómetanlegt að fá að upplifa viðburði eins og þessa þar sem unglingar hafa tækifæri til að hittast og skemmta sér á heilbrigðan hátt.

https://www.facebook.com/search/top?q=k%C3%A6rleiksbirnirnir%20-%20%C3%A6skul%C3%BD%C3%B0sf%C3%A9lag%20selfosskirkju

10 – 12 ára starfið verður eftir sem áður á miðvikudögum kl. 16 – 17. Við köllum starfið TTT (10 – 12 ára) en það nafn hefur fest sig í sessi undanfarin ár. TTT hefur svipaða uppbyggingu og unglingastarfið.

https://www.facebook.com/search/top?q=ttt%20(10-12%20%C3%A1ra)%20starf%20%C3%AD%20selfosskirkju

Fjölskyldusamverur á sunnudögum (áður sunnudagaskóli) verða í vetur kl. 13:00. Fjölskyldumessur verða á sama tíma og áður eða kl. 11:00. Við hvetjum sóknarbörn og aðra til að fylgjast með dagskránni hér á heimasíðunni því þó nokkrar spennandi breytingar verða í vetur. Fyrsta fjölskyldumessa haustins verður 13. september kl. 11:00 í Selfosskirkju, þá er fyrsta fjölskyldusamveran kl. 13:00 þann 20. september og síðan er stefnt að Kirkjubralli (Messy church) á Eyrarbakka 27. september kl. 11:00.

6- 9 ára starf (Kirkjuskóli) verður að þessu sinni staðsettur í kirkjunni sjálfri en ekki í Vallaskóla og Sunnulækjarskóla og verður á miðvikudögum kl. 13:35 – 14:35. Hægt verður að skrá börnin í starfið í gegnum félagsskráningarkerfi Árborgar – Nori. (Skráningarhópar eru í vinnslu). Starfið mun byrja í næstu viku eða miðvikudaginn 9. september. Börnunum gefst kostur á að nýta frístundastrætó sem stoppar við Tónlistarskólann og mun starfsmaður kirkjunnar sækja börnin þangað og fylgja þeim til kirkju og aftur til baka í strætóinn.

https://www.arborg.is/ibuar/fristund-og-sundlaugar/fristundir/fristundaakstur/

Foreldramorgnar eru á miðvikudögum kl. 11:00 – 12:30. Foreldramorgnar eru tilvalin leið til að hitta aðra nýbakaða foreldra.

https://www.facebook.com/groups/286018154853258

Verið velkomin í kirkjuna,

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, verkefnastjóri fræðslustarfs og samfélagsmiðla