Helgihald hefst á ný

Nú er okkur heimilt að hefja á ný helgihald í kirkjunni og verður guðsþjónusta í Selfosskirkju nk. sunnudag kl. 11:00. Guðsþjónustan er öllum opin og munu væntanleg fermingarbörn setja svip sinn á mætinguna en þau hafa verið sérstaklega boðuð enda ekki komist í neina messu síðan í október á síðasta ári. Edit A. Molnar organisti mun spila og raddir úr Kirkjukór Selfosskirkju leiða sönginn. Það verður sannarlega gott að hittast aftur og eiga samfélag í kirkjunni.
Að sjálfsögðu verður allra sóttvarna gætt, spritt er aðgengilegt, 2m metra fjarlægð tryggð og grímuskylda.

Það er okkur líka mikið gleðiefni að getað byrjað aftur með sunnudagaskólann sem verður ekki nk. sunnudag heldur sunnudaginn 21. febrúar.

Morgunbænirnar byrja sömuleiðis aftur nk. þriðjudag 16. febrúar kl. 9:15. Þetta er stuttar stundir byggðar upp með bæn, kyrrð og góðu samfélagi. Morgunbænir eru þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga kl. 9:15

Barna- og unglingastarfið

Barna og unglingastarf selfosskirkju er komið á fullt með nýjum æskulýðsfulltrúa.
Sjöfn Þórarinsdóttir, tómstundafræðingur, tók við af Jóhönnu Ýr sem æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju núna í janúar. Sjöfn hefur komið víða við í barnastarfi og var sjálf viðriðin æskulýðsstarf kirkjunnar á sínum unglingsárum. 

Sunnudagaskólinn
Vegna ástandsins í þjóðfélaginu er sunnudagaskólinn ekki starfandi sem stendur. Við hlökkum til þess tíma sem við getu tekið á móti ykkur í sunnudagaskólanum aftur.

6-9 ára starfið
6-9 ára starfið er alltaf á miðvikudögum frá kl. 13:30 til 14:30. Starfið einkennist af leikjum, söngvum og skemmtun, en inn í það fléttist fræðsla um kristin gildi og náungakærleik.
Allir krakkar í 1. – 4. bekk grunnskóla eru velkomnir.Athugið að frístundaakstur Árborgar stoppar við kirkjuna kl. 13:30, og svo aftur klukkan 14:30.
Skráning og frekari upplýsingar um 6-9 ára er að finna hér: 6-9 ára starf Selfosskirkju 

TTT starfið
TTT starfið er alla miðvikudaga frá 16:00-17:00. TTT stendur fyrir Tíu Til Tólf ára og er fyrir krakka í 5. – 7. bekk grunnskóla. Í TTT er margt skemmtilegt brallað, leikir, söngvar og skemmtun einkenna starfið. Í starfinu er einnig fræðsla þar sem við skoðum hvernig nýta megi boðskap Biblíunnar við að takast á við áskoranir daglegs lífs.
Skráning og frekari upplýsingar um TTT er að finna hér: TTT starf Selfosskirkju

Æskulýðsfélagið Kærleiksbirnirnir
Æskulýðsfélagið er með fundi á þriðjudagskvöldum á milli klukkan 19:30 og 21:30. Starfið er fyrir krakka í elstu bekkjum grunnskóla. Fundir æskulýðsfélagsins einkennast af fjöri og skemmtun. Allir krakkar í 8. – 10. bekk grunnskóla eru velkomnir á fund og ekki er þörf á að skrá sig sérstaklega.

Gleðilegt ár

Við í Selfosskirkju óskum ykkur gleðilegs árs og þökkum samfylgd og samveru á liðnu ári.
Enn eru fjöldatakmarkanir og sóttvarnir með þeim hætti að ekki er unnt að bjóða upp á opið helgihald en á Facbook og Instagram síðum Selfosskirkju eru settar inn myndir, myndbönd og hugleiðingar.
Barna- og Unglinakórinn byrjuðu í vikunni að æfa á nýju ári.
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir lét af störfum við áramót og þökkum við henni innilega fyrir störf sín hjá Selfosskirkju sl. ár.
Sjöfn Þórarinsdóttir var ráðinn til starfa sem nýr æskulýðsfulltrúi, við bjóðum hana hjartanlega velkomna til okkar.
Mun það barna- og unglingastarf sem heimilt er að halda úti hefjast undir hennar stjórn frá og með 18. janúar.
Meg Guðs blessun fylgja okkur inn í nýtt ár 2021.

Helgihald um jól og áramót

Helgihald um jól og áramót verður allt með öðrum brag í kirkjum landsins en tíðkast hefur.  

Árborgarprestakall, Hveragerðisprestakall og Þorláksprestakall hafa tekið sig saman um að taka upp einfalt helgihald jóla og áramóta sem streymt verður á heimasíðum og facebook síðum prestakallanna.

Aftansöng aðfangadags verður  streymt úr Hveragerðiskirkju kl. 18 á aðfangadag.
Helgihald jóladagsins kemur úr Selfosskirkju og verður sent út kl. 14:00 Aftansöngur gamlársdags verður úr Þorlákskirkju og honum er streymt kl. 17 á gamlársdag.

Einnig kemur myndræn jólakveðja frá öllum öðrum kirkjum prestakallsins

Auslýst eftir Ækulýðsfulltrúa

Æskulýðsfulltrúi Selfosskirkju

Sóknarnefnd Selfosskirkju auglýsir eftir æskulýðsfulltrúa í 60% starf frá 1. janúar 2021, eða síðar í janúar eftir nánara samkomulagi.  Hlutverk æskulýðsfulltrúa er að hafa umsjón með æskulýðs- og fræðslumálum kirkjunnar.  Helstu verkefni eru umsjón með sunnudagaskóla og fjölskyldumessum, TTT, 6-9 ára, æskulýðsfundum og leiðtogaþjálfun.  Menntun og reynsla sem nýtist í starfi nauðsynleg.  Nánari upplýsingar um starfið og starfskjör veita Séra Guðbjörg Arnardóttir sóknarprestur sími:865-4444 og Guðmundur Búason gjaldkeri Sóknarnefndar sími:899-9613.

Umsækjendur geri skriflega grein fyrir menntun sinni og reynslu í æskulýðsstarfi.  Umsóknir sendist í netpósti á selfosskirkja@selfosskirkja.is eða í bréfapósti á Sóknarnefnd Selfosskirkju b.t. Björns Inga Gíslasonar formanns, Kirkjuvegi, 800 Selfoss.  Umsóknarfrestur er til 15. des. Umsækjandi þarf að veita samþykki fyrir öflun upplýsinga úr sakaskrá á eftirfarandi eyðublaði:  https://kirkjan.is/library/Images/Frettamyndir/Skjol-vegna-fretta/samthykki-fyrir-oflun-upplysinga-ur-sakaskra.pdf

                                               Sóknarnefnd Selfosskirkju

Nýtt sameinað prestakall

Nýtt prestakall í SuðurprófastsdæmiNú í október varð sú breyting á skipulagi kirkjunnar í Suðurprófastsdæmi að Selfossprestakall og Eyrabakkaprestakall voru sameinuð í nýtt prestakall. Var sú sameining ein af nokkrum sameiningum sem ákveðnar voru á nýafstöðnu kirkjuþingi. Með þessari breytingu eru áðurnefnd tvö prestaköll lögð niður og samanstendur hið nýja prestakall af sóknum þeirra – Hraungerðissókn, Laugardælasókn, Selfosssókn, Villingaholtssókn, Eyrarbakkasókn, Stokkseyrarsókn og Gaulverjabæjarsókn. Prestar hins nýja prestakalls verða áfram þeir sömu og þjónuðu áður Selfossprestakalli og Eyrabakkaprestakalli: Guðbjörg Arnardóttir, sem er sóknarprestur hins nýja prestakalls, Gunnar Jóhannesson prestur, og Arnaldur Bárðarson prestur.Þótt það hljómi eins og hér sé um afdrifaríka breytingu að ræða er það í raun ekki svo. Prestakallaskipan Þjóðkirkjunnar hefur tekið breytingum í gegnum tíðina og verið nú til skoðunar undanfarin ár í þeim tilgangi að einfalda hana og gera hana skilvirkari þar sem aðstæður leyfa. Og markmiðið er fyrst og fremst að efla og auðga þjónustu kirkjunnar á hverjum stað og greiða fyrir samstarfi og samvinnu prestanna. Prestakall er kannski ekki orð sem okkur er tamt að nota eða hugsa um. Prestakall er í eðli sínu lítið annað en starfseining og skipulagsheild (sem samanstendur af einni eða fleiri landafræðilegum einingum, sóknum) sem afmarkar það svæði sem þjónusta og starfsskyldur presta ná til. Með sameiningunni nú er því fyrst og fremst um að ræða skipulagsbreytingu sem snýr að starfi prestanna. Sameiningin snertir því ekki sóknirnar sem slíkar að neinu leyti og hefur engin áhrif á eðli þeirra eða störf sóknarnefnda hverrar sóknar.Með tilkomu hins nýja prestakalls fáum við prestarnir nú tækifæri til að starfa nánar saman og skipuleggja starf okkar og þjónustu á breiðari grunni. Það teljum við afar jákvætt og hlökkum við mikið til að vinna saman að því, ásamt öðru samstarfsfólki okkar innan kirkjunnar, að efla þjónustu kirkjunnar okkar og auka breidd hennar og fjölbreytni. Að því sögðu vonum við eins og aðrir að aðstæður í samfélaginu komist í eðlilegt horf fyrr en síðar svo við getum opnað dyr kirknanna aftur upp á gátt og boðið uppá fjölbreytt helgihald og safnaðarstarf. Við bendum á heimasíður og facebook-síður sóknanna og minnum á að það er alltaf hægt að leita til okkar:Með kærum kveðjum og blessunaróskum.Guðbjörg, Gunnar og Arnaldur.

Samkomubann, helgihald og safnaðarstarf

Starf í Selfoss- og Eyrarbakkaprestakalli meðan samkomubann er í gildi   
Ljóst er að mikil röskun verður á helgihaldi og safnaðarstarfi í kirkjunum okkar meðan að samkomubann er enn í gildi og frá og með 31. október hefur það verið hert frekar. Erftirfarandi skipulag er í samræmi við fyrirmæli frá biskupi Íslands og amk. til 17. nóvember.

Það sem fellur niður:
• Allt helgihald í prestakallinu fellur niður.
• Allar messur, bæna- og kyrrðarstundir.
• Fjölskyldusamverur í Selfosskirkju.
• Æfingar hjá kirkjukórum prestakallsins falla niður.
• Foreldrasamverur á miðvikudagsmorgnum í Selfosskirkju . 
• Æskulýðsfundir á þriðjudagskvöldum í Selfosskirkju.
• Æfingar hjá Barna- og unglingakór í Selfosskirkju.
• 6-9 ára starf og TTT í Selfosskirkju.
• Fermingarfræðsla.

Selfosskirkja verður áfram opin á hefðbundum skrifstofutíma.  Við minnum á viðtalstíma presta frá 9-12 eða eftir samkomulagi.  Hægt er að hafa samband við presta prestakallsins í síma eða með tölvupósti. 

Guðbjörg Arnardóttir s. 865 4444 gudbjorg.arnardottir@kirkjan.is
Gunnar Jóhannesson s. 8929115 gunnar.johannesson@kirkjan.is
Arnaldur Bárðarson s. 7668344 arnaldur.bardarson@kirkjan.is

Við bendum ykkur á að finna Selfosskirkju á Facebook og Instragram og aðrar kirkjur prestkallsins þar sem við miðlum uppörvandi og huggunarríkum orðum, bænum og öðru helgihaldi. 

Aðstæður getur áfram breyst hratt og uppfærum við aðgerðir okkar varðandi helgihald og safnaðarstarf í samræmi við það.  

Bænir okkar eru hjá hverjum og einum og íslensku samfélagi í heild. Það er gott að leggja allt sem framundan er, hverja stund og sérhvern dag, allar hugsanir, tilfinningar, áhyggjur og kvíða, í Guðs góðu hendur í þeirri trú og vissu að hann er engum nær en þeim sem til hans leitar og að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika hans.

Prestar og starfsfólk Selfoss- og Eyrarbakkaprestakalls.