Magnað kórastarf í Selfosskirkju

Sunnudaginn 30. apríl var óvenjulega margþætt guðsþjónusta í Selfosskirkju. Ekki var þar bara lofaður Guð svo sem venja er með hefðbundnum hætti í gegnum orð og söng, heldur var séra Ása Björk Ólafsdóttir sett formlega í embætti í Árborgarprestakalli. Þar á ofan fór fram vorhátíð barnastarfs kirkjunnar, þar sem ríkti gleði og gaman, farið var í ýmsa leiki og „heitar étnar pylsurnar“ eins og segir í frægum söngtexta. Barnastarf kirkjunnar hefur verið verulega kröftugt í vetur og eflist stöðugt undir styrkri stjórn Sjafnar Þórarinsdóttur, en það allra nýjasta í barnastarfinu eru „Krílasálmarnir“ tónlistarnámskeið fyrir börn frá þriggja mánaða aldri. Það starf var bara að byrja núna og mun verða enn kraftmeira í haust og því gott að hafa augun opin fyrir auglýsingum þar um þegar líður á sumarið!

Og enn er ekki allt upp talið sem fram fór í þessari margslungnu messu á síðasta sunnudag. Því messan sú var einnig svokölluð „Krossamessa“. Kirkjan hefur á að skipa frábærum kórum, en ekki er þar bara um að ræða kirkjukórinn sem við erum svo sannarlega stolt af, heldur eru einnig tveir kórar skipaðir yngra fólki í kirkjunni okkar; barnakórinn (2. – 4. bekkur) blómstrandi fjölmennur kór kátra krakka, og svo eldri kórinn þar sem stúlkur (5.-10. bekkur) láta ljós sitt skína svo um munar. Þegar þátttöku líkur, aldurs vegna, í eldri kórnum er hefð fyrir því að heiðra stúlkurnar sem þá kveðja starfið, hafandi gefið af sér og auðgað lífið með list sinni. Þá fá stúlkurnar afhentan kross að gjöf frá Selfosskirkju, hálsmen sem er tákn um þakklæti en um leið má segja að það sé verið að heiðra stúlkurnar – allt að því aðla þær. Því krossinn sem þær fá er ekkert venjulegur og hann er ekki fáanlegur á almennum markaði – eina aðgengið að honum er að vaxa upp í gegnum kórastarf Selfosskirkju og „útskrifast“ þaðan að lokum með láði. Krossinn er sérsmíðaður og er eftirmynd altaristöflunnar í Selfosskirkju, glæsilegur skartgripur. Það var því ekki að undra að söngurinn hafi tekið sitt pláss í messunni, og hámarki náði sá þáttur þegar fjórar útskriftarstúlkur (ný aðlaðar) sungu saman lag selfyssingsins Kristjönu Stefánsdóttur „Sautjánþúsund sólargeislar“ úr Bláa hnettinum, við texta Bergs Þórs Ingólfssonar. En í laginu sungu stúlkurnar hver og ein sinn einsöngskafla með miklum glæsibrag – og var ekki annað en hægt að hrífast af þeim stöllum; Önnu Mariu Konieczna, Hjördísi Kötlu Jónasdóttur, Júlíu Kolku Martinsdóttur og Þórhildi Lilju Hafsteinsdóttur, en auk þeirra var Sóllilja Úlfsdóttir einnig heiðruð en hún er flutt af landi brott og var fjarstödd. Við óskum þeim til hamingju og megi góður Guð greiða götu þeirra í framtíðinni, hvort heldur er á vegum sönglistarinnar eða í daglegu lífi og starfi um alla framtíð.

Áratuga hefð er fyrir frábæru kórastarfi í kirkjunni sem er í senn faglegt og afar metnaðarfullt. Segja má að þátttaka í áðurnefndum ungmennakórum sé í raun sjálfstæður söngskóli, skóli þar sem börn og unglingar fá bestu söngþjálfun sem völ er á. Og ef marka má stúlkurnar sem nú voru að ljúka þátttöku í kórastarfinu hefur þáttaka þar ekki bara gert þær að betri söngkonum heldur einnig að betri manneskjum. Það eru ekki lítil meðmæli!

Kórarnir okkar leggja á sig mikla vinnu og hún verður aldrei fullþökkuð. Enda er aldrei hægt að þakka það nógsamlega sem auðgar andann og upplyftir sálinni – það allt gerir okkur að betra fólki. Þannig er kórastarfið ómetanlegt. Í vetur hafa þær Kolbrún Berglind Grétarsdóttir og Edit Molnár haldið utan um kórastarfið. En Edit Molnár er organisti og söngstjóri við kirkjuna og ber því hitann og þungan af þessu magnaða starfi frá degi til dags.

Rétt er að vekja athygli á því að í haust fer kórastarfið á fulla ferð að nýju – fylgist því vel með auglýsingum þegar sumri tekur að halla. Þetta magnaða starf er opið öllum áhugasömum börnum í prestakallinu, á ofangreindu aldursbili, og kostar nákvæmlega ekki neitt nema vilja og tíma – enga peninga! Söngstarfið í kirkjunni er nefnilega, líkt og barnastarfið, í boði án endurgjalds, það er frítt, það er ókeypis, það er án endurgjalds!!!

Guðmundur Brynjólfsson
djákni

Fjölskylduguðsþjónusta og vorhátíð í Selfosskirkju

Verið velkomin til sannkallaðrar hátíðarstundar í Selfosskirkju 30. apríl kl. 11:00.
Það verður barnvæn gleði ríkjandi í kirkjunni og eru allir, ungir sem aldnir, hjartanlega velkomnir.
Í guðsþjónustunni verður tekið á móti nýjum presti Árborgarprestakalls, sr. Ásu Björk Ólafsdóttur. Verður hún sett inn í embætti af prófasti Suðurprófastsdæmis, Halldóru Þorvarðardóttur.
Auk þess verður uppskeruhátíð kóra- og barnastarfs kirkjunnar. Barna- og unglingakór kirkjunnar syngur undir stjórn Edit Molnár og Kolbrúnar Berglindar Grétarsdóttur. Þeir kórfélagar sem eru að ljúka síðasta söngári sínu með unglingakórnum verða sérstaklega heiðraðir.
Prestar Árborgarprestakalls þjóna ásamt prófasti og æskulýðsfulltrúa og mun sr. Ása Björk flytja hugleiðingu. Að guðsþjónustunni lokinni býður sóknarnefnd uppá kirkjukaffi og meðlæti í safnaðarheimilinu. Einnig verður boðið upp á ratleik og annað skemmtilegt.
Fjölmennum til góðrar stundar í kirkjunni.

Messa og sunnudagsskóli á öðrum sunnudegi eftir páska. Og súpa.

Messa og sunnudagsskóli verður í Selfosskirkju sunnudaginn 23. apríl kl. 11. Prestsþjónustu sinnir sr. Gunnar Jóhannesson. Kór kirkjunnar leiðir safnaðarsöng og Ester Ólafsdóttir spilar á orgelið. Sunnudagsskólinn í umsjá Sjafnar Þórarinsdóttur æskulýðsfulltrúa.
Súpa verður í safnaðarheimilinu eftir messuna og þá gegn vægu gjaldi. Verið velkomin.

Mögnuð tónlist í Selfosskirkju

Kirkjukór Selfosskirkju, undir stjórn Edit Anna Molnár, tók þátt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands í Selfosskirkju í annað sinn. Fyrst á jólatónleikum þess í desember sl., og síðan 8. apríl á páskatónleikum hljómsveitarinnar „Magnificat“.
Einsöngvarar á þessum tónleikunum voru Helga Rós Indriðadóttir sópran, Gunnlaugur Bjarnason barítón. Auk þeirra komu þrir kórar fram með hljómsveitinni. Þetta voru Kirkjukór Selfosskirkju, Kammerkór Norðurlands og Skagfirski kammerkórinn. Stjórnandi var Guðmundur Óli Gunnarsson.
Seinni hluti tónleikanna var helgaður hinu magnaða verki Magnificat eftir breska tónskáldið John Rutter.
Takk fyrir frábæra frammistöðu og ógleymanlega tónleika.

Myndbandið lítur upp yfir kirkjubekkinn og sýnir frá æfingu fólksins.

Kórfólkið í Selfosskirkju og reyndar allt tónlistarfólkið lagði mikla undirbúningsvinnu í verkið eins og heyra mátti af flutninginum.

Frá samæfingu kórsins
Kóranir og hljómsveitin stillir strengi.

Stjórnandinn Guðmundur Óli Gunnarsson ávarpar áheyrendur

Edit Anna Molnár kórstjóra þakkað fyrir og klappað lof í lófa eftir ríkulega sáningu og uppskeru.

Helgihald um bænadaga og páska í Árborgarprestakalli

6. apríl – skírdagur
Fermingarmessur í Selfosskirkju kl. 11 og 13.
Messa í Laugardælakirkju kl. 15:00. Að messu lokinni fer aðalsafnaðarfundur sóknarinnar fram í kirkjunni.

7. apríl – föstudagurinn langi
Pílagrímaganga kl. 9:45. Gengið verður frá Laugardælakirkju að Selfosskirkju. Gangan hefst með stuttri helgistund í Laugardælakirkju og verður staldrað við á leiðinni til stuttra hugleiðinga.

8. apríl – Laugardagur fyrir páska
Magnificat – Páskatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands í Selfosskirkju kl. 16 (miðasala á tix.is).

9. apríl – páskadagur
Hátíðarmessa í Selfosskirkja kl. 08:00. Að messu lokinni býður sóknarnefnd kirkjugestum til morgunverðarborðs í safnaðarheimilinu.
Hátíðarmessa í Eyrarbakkakirkja kl. 08:00
Hátíðarmessa í Stokkseyrarkirkja kl. 11:00
Hátíðarmessa í Villingaholtskirkja kl. 11:00

10. apríl – annar páskadagur
Messa í Hraungerðiskirkju kl. 11:00
Messa í Gaulverjabæjarkirkja kl. 14:00

Gleðilega páska og verið öll hjartanlega velkomin til góðra og gefandi kirkjustunda yfir páskanna.

Pílagrímaganga á föstudaginn langa – Golgataganga 2023

Föstudaginn langa, föstudaginn 7. apríl nk, verður gengin pílagrímaganga frá Laugardælakirkju að Selfosskirkju.

Gangan hefst með stuttri helgistund í Laugardælakirkju kl. 9:45.  Gengnir verður síðan þessi 3 km áleiðis að Selfosskirkju. Staldrað verður víða við á leiðinni til stuttra hugleiðinga. Stundum verður gengið í þögn og stundum ekki. Göngustjórar eru sr. Axel Árnason Njarðvík og dr. Guðmundur Brynjólfsson, djákni.  

Allir eru velkomnir að slást í hópinn og svo er líka hægt að sækja helgistundir á báðum stöðum þótt fólk taki ekki þátt í göngunni.  Göngufólk er beðið að koma vel skóað, klætt eftir veðri og með nestisbita. Þessi ganga gæti hent öllum og ekki síst börnum. Verið velkomin.

mynd frá föstudeginum langa 2019 er gengin var svipuð pílagrímaganga