Ástin, drekinn og dauðinn í Selfosskirkju
Á síðustu þremur árum hefur Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur og þjóðfræðingur kvatt eiginmann sinn, tengdamóður, föður og litla dótturdóttur. Bók hennar, Ástin, drekinn og dauðinn, sem kom út í fyrra, hefur vakið mikla athygli og hlotið lof fyrir að fjalla um ástvinamissi og sorg á áhrifamikinn en um leið jarðbundinn hátt. Þar lýsir hún vegferð sinni og Hennar heittelskaða með sjúkdómi sem þau vissu að myndi draga hann til dauða og fyrsta árinu eftir að hún varð ekkja. Á þriðjudagskvöld, þann 23. febrúar, mun Vilborg flytja erindi í Selfosskirkju um hvernig dauðinn breytir tilveru þeirra sem eftir lifa og hvað má af honum læra. Bók hennar veitir í senn innsýn í veröld krabbameinsins og djúpa sorg þess sem hefur elskað og misst. En hún er ekki síður óður til kærleikans, hvatning til að lifa í árvekni og sættast við að dauðinn er órjúfanlegur hluti af lífinu.
Erindi Vilborgar í Selfosskirkju hefst kl. 19:30 og eru allir velkomnir.