Leiksýningin Aðventa í Selfosskirkju 1.desember

Fimmtudaginn 1.desember kl.10 verður boðið upp á leiksýninguna Aðventu í uppsetningu Möguleikhússins.  Um er að ræða leikgerð samnefndrar sögu eftir Gunnar Gunnarsson.  Pétur Eggerz leikur vinnumanninn Benedikt sem fer til fjalla í vetrarríki aðventunnar að leita þess fjár sem eftir varð er smalað var um haustið.  Það er köllun hans að koma þessum eftirlegukindum til byggða fyrir hátíðirnar.  Söguna byggir höfundur á frásögnum af frægum svaðilförum Benedikts Sigurjónssonar, öðru nafni Fjalla-Bensa, á Mývatnsöræfum og einkum þó eftirleitarferð sem hann fór í desember 1925.  Þetta er klassísk saga um náungakærleika og fórnfýsi í vetrarhörkum íslenskra öræfa.  Sýningin tekur um 60 mínútur, það kostar ekkert inn og það eru allir velkomnir!

Aðventa Möguleikhúsið

Aðventa
Möguleikhúsið

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Fyrsti sunnudagur í aðventu er hátíðisdagur í Selfosskirkju.  Þá verður fjölskylduguðsþjónusta kl. 11 þar sem unglingakór kirkjunnar syngur undir stjórn Edit Molnár.  Börn sem taka þátt í kórnámskeiði munu einnig syngja, og félagar úr æskulýðsfélagi kirkjunnar koma fram með tónlistaratriði.  Umsjón með stundinni hafa sr. Ninna Sif og Jóhanna Ýr æskulýðsfulltrúi.  Brúður, biblíusaga, söngur, hlátur og gleði! Að messu lokinni mun unglingakór kirkjunnar reiða fram grjónagraut í safnaðarheimilinu og er  það hluti af fjáröflun kórsins og þar verður einnig hinn árlegi og glæsilegi kökubasar kórsins.  Þetta verður skemmtileg og innihaldsrík stund fyrir alla fjölskylduna.  Sjáumst í kirkjunni!

aðventukrans

Konur eru konum bestar – sjálfstyrkingarnámskeið í Selfosskirkju

 

Sjálfstyrkingarnámskeiðið Konur eru konum bestar verður haldið í Selfosskirkju þriðjudagana 30.ágúst og 6.september  kl. 19-22.

Námskeiðið miðar að því að byggja upp sjálfsmynd kvenna og skapa þeim vettvang til að kynnast sjálfum sér betur í góðu samfélagi við aðrar konur. Fjallað verður um mikilvægi þess að styðja hver við aðra og standa með sjálfri sér. Ýmsum spurningum er velt upp og sögur Biblíunnar eru notaðar til að varpa ljósi á viðfangsefnið.

Námskeið þetta hefur notið fádæma vinsælda innan kirkjunnar síðustu 20 árin. Það hefur verið haldið víðsvegar um landið, m.a. í Selfosskirkju sl. vetur og fjölmargar konur lýst ánægju sinni með það.  Þátttaka er konum að kostnaðarlausu, en skráning er nauðsynleg, annað hvort á ninnasif@gmail.com eða gudbjorg.arnardottir@kirkjan.is

 

Fermingarnámskeið í Selfossprestakalli

fermingarfræðsla

Fermingarfræðsla fyrir börn sem munu fermast í Selfossprestakalli vorið 2017 hefst með þriggja daga námskeiði í Selfosskirkju dagana 18. og 19. ágúst kl. 9-12.30 og 22. ágúst kl. 13-15.30.  Dagskráin á námskeiðinu verður fjölbreytt og skemmtileg, bæði utan dyra og inni í kirkjunni.  Ef einhver væntanleg fermingarbörn eru enn óskráð biðjum við foreldra þeirra um að bæta úr því hið snarasta með því að hafa samband við prestana gudbjorg.arnardottir@kirkjan.is og ninnasif@gmail.com.

Þau fermingarbörn sem ekki geta tekið þátt í fræðslunni þessa þrjá daga munu koma í fræðslustundir á starfsdögum grunnskólanna í staðinn, væntanlega 17. og 18. nóvember.

Messa 7.ágúst

Sunnudaginn 7.ágúst verður að vanda messa í Selfosskirkju.  Barn borið til skírnar, félagar úr kór kirkjunnar leiða safnaðarsöng.  Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir þjónar.  Það verður gott að koma, andleg næring og gott samfélag.  Sjáumst í kirkjunni!

Margrét Arnardóttir forseti kirkjuþings unga fólksins

Kirkjuþing unga fólksins kom saman á Biskupsstofu laugardaginn 30. apríl sl.  Forseti þess var kjörin Margrét Arnardóttir æskulýðsleiðtogi úr Selfosskirkju sem sat þingið fyrir Suðurprófastdæmi.  Jafnframt var Margrét valin til að vera áheyrnarfulltrúi  á kirkjuþing sem fram fer og mun hún því sitja kirkjuþing 2016.  Selfosssöfnuður má vera ánægður og stoltur yfir því að eiga svona frambærilegan leiðtoga sem kjörinn er til forystu í æskulýðsstarfi þjóðkirkjunnar!  Á meðfylgjandi myndum má sjá annars vegar hópinn sem sat kirkjuþing unga fólksins og hins vegar mynd af Margréti að störfum á þinginu.

13405184_10153707023213494_1434456234_o27274293562_e4a338b967_o

Gæludýrablessun og útiguðsþjónusta 5.júní

gæludýr

 

Sunnudaginn 5.júní kl.11 verður útiguðsþjónustua við Selfosskirkju.  Þar verður boðið upp á gæludýrablessun.  Gæludýrin eru vinir okkar og hluti af fjölskyldum okkar og eiga sannarlega skilið að fá blessun líkt og mannfólkið.  Kirkjukórinn syngur létta og sumarlega sálma undir stjórn Edit Molnár.  Að messu lokinni ber kvenfélag kirkjunnar að vanda fram súpu í safnaðarheimilinu og málleysingjarnir fá eitthvað að bíta líka.  Sjáumst í kirkjunni!

Messa á hvítasunnudag

Í Selfosskirkju verður að vanda messa kl. 11 á hvítasunnudag, 15.maí.  Prestur sr. Ninna Sif Svavarsdóttir.  Kór kirkjunnar syngur undir stjórn Edit Molnár organista.  Létt máltíð í safnaðarheimilinu að messu lokinni í umsjón kvenfélags kirkjunnar.  Allir velkomnir – sjáumst í kirkjunni!

Krossamessa og tónlistarveisla!

Sunnudaginn 1.maí er krossamessa í Selfosskirkju. Barna – og unglingakórar kirkjunnar syngja við guðsþjónustuna undir stjórn Edit Molnár. Elstu nemendur kórsins verða kvaddir með krossi. Einnig leikur strengjasveit með flinkum spilurum á aldrinum 10-15 ára frá Gdansk í Póllandi, stjórnandi þeirra er Anna Podhajska. Prestur sr. Ninna Sif Svavarsdóttir. Súpa og brauð í safnaðarheimilinu að messu lokinni. Sjáumst öll í kirkjunni!
Kl. 15 á sunnudag er svo uppskeruhátíð kóra kirkjunnar þar sem allir kórarnir koma fram og syngja íslensk þjóðlög í ýmsum útsetningum, erlendar perlur og einsöngslög. Miðaverð er 1500 kr. og innifalið eru kaffiveitingar sem bornar verða fram í safnaðarheimilinu að tónleikum loknum.