Messa, kökubasar og sunnudagaskóli!

Sunnudagurinn 16. mars er annar sunnudagur í föstu. Þá verður Messa klukkan 11:00. Unglingakórinn syngur okkur inn, Edit leikur á orgelið og kirkjukórinn leiðir sönginn. Séra Ása Björk þjónar.

Kökubasar Unglingakórsins verður eftir messuna.

Sunnudagaskólinn verður klukkan 11:00 í umsjá Sjafnar og leiðtoganna.

Öll eru innilega velkomin!

Stjörnukór – kórnámskeið fyrir yngstu söngvarana

Þetta er frábært tækifæri fyrir yngstu söngvarana til að kynnast kórstarfi kirkjunnar.
Á þessu námskeiði er grunnurinn að framtíðar kórstarfi lagður í bland við leiki og skemmtun af ýmsu tagi. Krakkarnir fá líka tækifæri til að kynnast kirkjunni okkar á skemmtilegan máta.
Þátttaka er ókeypis og skráning fer fram hjá Edit organista kirkjunnar, edit@simnet.is.

Æskulýðsmessa

Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar er 1. mars ár hvert. Af því tilefni ætlum við að gera æsku kirkjunnar hátt undir höfði með æskulýðsmessu sunnudaginn 2. mars kl. 11:00.

Unglingakórinn undir stjórn Editar leiðir söng, lærisveinar kirkjunnar verða með brúðuleikrit, María Friðmey segir frá sinni reynslu sem barni og núna leiðtoga í æskulýðsstarfinu og fermingarbörn lesa og hjálpa til.

Eftir herlegheitin verður hægt að fá sér gómsæta kjúklingasúpu að hætti Renuka, heimabakað brauð, og kaffi og súkkulaðiköku á eftir, til styrktar unglingakór kirkjunnar.

Verið öll hjartanlega velkomin!

Konudags- og Biblíudagsmessa

Sunnudaginn 23. febrúar klukkan 11:00 erum við með Konudags- og Biblíudagsmessu, sem einnig ber uppá sunnudag Hinsegindaga í Árborg. Úr þessu þrennu vonumst við til að gera örlítið hinsegin guðsþjónustu með nýja messuforminu. Prestur er Ása Björk, organisti er Ester Ólafsdóttir og sönginn leiðir kirkjukórinn okkar.

Sunnudagaskóli einnig klukkan 11:00, í safnaðarheimilinu. Sjöfn æskulýðsfulltrúi leiðir stundina með hjálp leiðtoganna.

Kvöldmessa með Unglingakórnum

Sunnudaginn 9. febrúar verður fjölbreytt helgihald í Árborgarprestakalli.

Í Selfosskirkju verður sunnudagaskólinn á sínum stað kl. 11:00.

Í Stokkseyrarkirkju verður hefðbundin messa kl. 11:00. Kirkjukórinn syngur, organisti Haukur Arnarr Gíslason og prestur Guðbjörg Arnardóttir.

Um kvöldið verður spennandi kvöldmessa í Selfosskirkju kl. 20:00. Unglingakórinn syngur og með þeim kemur fram hljómsveitin Villingarnir frá Tónlistarskóla Árnesinga, stjórnandi þeirra er Vignir Ólafsson.  Kórinn mun syngja nokkur Disney lög, við heyrum fallega lestra og biðjum saman.  Kórstjóri Edit A. Molnár, prestur Guðbjörg Arnardóttir.  

Tilraunamessa!

Messa með nýja forminu ásamt altarisgöngu klukkan 11 sunnudaginn 2. febrúar.

Við erum búin að sitja yfir tillögum að nýju messuformi, sem miðar að því að sleppa þéringum og gera messuna aðgengilegri okkur sem byggjum Ísland í dag. Nú er loksins komið að tilraunamessunni og rúsínan í pylsuendanum er að við munum ræða saman eftir messuna yfir kaffibolla eða vatnssopa, til þess að sjá hvað mætti betur fara og hvað okkur líkar sérlega vel við! Prestur er Ása Björk, organisti er Adit Molnár og kirkjukórinn leiðir sönginn. Þú ert velkomin/n og allt þitt fólk.

Sunnudagaskóli klukkan 11 í safnaðarheimilinu. Umsjón hafa Sjöfn og leiðtogarnir. Öll eru innilega velkomin!