Skráning í fermingarfræðslu vegna fermingar árið 2026

Nú er búið að opna fyrir skráningar í fermingarfræðsluna og að velja fermingardag fyrir vorið 2026.

Börn sem fædd eru 2012 og velja að taka þátt í fermingarfræðslu í Árborgarprestakalli og munu því fermast í kirkjunum okkar; Selfosskirkju, Laugardælakirkju, Hraungerðiskirkju, Villingaholtskirkju, Gaulverjabæjarkirkju, Stokkseyrarkirkju eða Eyrarbakkakirkju geta skráð sig á eftirfarandi slóð. Mikilvægt er að skrá barnið í fræðsluna svo við getum í framhaldinu sent upplýsingar um hvenær fræðslan byrjar og annað. Endilega skrá barnið og velja dag en alltaf er möguleiki á því að breyta fermingardeginum með því að senda á okkur prestana tölvupóst.

Við köllum foreldra og verðandi fermingarbörn á fund til okkar í maí og förum yfir fyrirkomulag fræðslunnar, svörum þeim spurningum sem á ykkur brenna og síðast en ekki síst kveikjum á þeirri tilhlökkun og gleði sem því fylgir að byrja í fermingarfræðslu.

Við hlökkum til að kynnast nýjum fermingarárgangi

Kær kveðja

Guðbjörg, Ása Björk og Gunnar

Skrámur – Selfosskirkja

Messa, kökubasar og sunnudagaskóli!

Sunnudagurinn 16. mars er annar sunnudagur í föstu. Þá verður Messa klukkan 11:00. Unglingakórinn syngur okkur inn, Edit leikur á orgelið og kirkjukórinn leiðir sönginn. Séra Ása Björk þjónar.

Kökubasar Unglingakórsins verður eftir messuna.

Sunnudagaskólinn verður klukkan 11:00 í umsjá Sjafnar og leiðtoganna.

Öll eru innilega velkomin!

Stjörnukór – kórnámskeið fyrir yngstu söngvarana

Þetta er frábært tækifæri fyrir yngstu söngvarana til að kynnast kórstarfi kirkjunnar.
Á þessu námskeiði er grunnurinn að framtíðar kórstarfi lagður í bland við leiki og skemmtun af ýmsu tagi. Krakkarnir fá líka tækifæri til að kynnast kirkjunni okkar á skemmtilegan máta.
Þátttaka er ókeypis og skráning fer fram hjá Edit organista kirkjunnar, edit@simnet.is.

Æskulýðsmessa

Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar er 1. mars ár hvert. Af því tilefni ætlum við að gera æsku kirkjunnar hátt undir höfði með æskulýðsmessu sunnudaginn 2. mars kl. 11:00.

Unglingakórinn undir stjórn Editar leiðir söng, lærisveinar kirkjunnar verða með brúðuleikrit, María Friðmey segir frá sinni reynslu sem barni og núna leiðtoga í æskulýðsstarfinu og fermingarbörn lesa og hjálpa til.

Eftir herlegheitin verður hægt að fá sér gómsæta kjúklingasúpu að hætti Renuka, heimabakað brauð, og kaffi og súkkulaðiköku á eftir, til styrktar unglingakór kirkjunnar.

Verið öll hjartanlega velkomin!

Konudags- og Biblíudagsmessa

Sunnudaginn 23. febrúar klukkan 11:00 erum við með Konudags- og Biblíudagsmessu, sem einnig ber uppá sunnudag Hinsegindaga í Árborg. Úr þessu þrennu vonumst við til að gera örlítið hinsegin guðsþjónustu með nýja messuforminu. Prestur er Ása Björk, organisti er Ester Ólafsdóttir og sönginn leiðir kirkjukórinn okkar.

Sunnudagaskóli einnig klukkan 11:00, í safnaðarheimilinu. Sjöfn æskulýðsfulltrúi leiðir stundina með hjálp leiðtoganna.